Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 69 . mál.


621. Breytingartillögur



við frv. til l. um dýravernd.

Frá umhverfisnefnd.



    Við 1. gr.
         
    
    Í stað orðsins „hryggdýra“ í fyrri málsgrein komi: dýra.
         
    
    Í stað orðanna „að auki“ í síðari málsgrein komi: jafnframt.
    Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                  Skylt er að fara vel með öll dýr. Óheimilt er að hrekkja dýr eða meiða. Forðast skal að ofbjóða kröftum þeirra og þoli.
    Við 3. gr. Greinin orðist svo:
                  Eigendum eða umráðamönnum dýra ber að sjá þeim fyrir viðunandi vistarverum og fullnægjandi fóðri, drykk og umhirðu.
                  Tryggja skal dýrum eðlilegt frelsi til hreyfingar samkvæmt viðurkenndri reynslu og þekkingu. Koma skal í veg fyrir hávaða þar sem dýr eru höfð í vörslu.
                  Eigendur og umráðamenn dýra skulu fylgjast með heilsu þeirra og gera viðhlítandi ráðstafanir til að koma megi í veg fyrir vanlíðan dýranna. Sérstakt eftirlit skal haft með dýrum sem haldin eru á tæknivæddum stórbúum, sbr. 7. gr. laga nr. 46/1991, um búfjárhald, og sérákvæði í reglugerðum um einstakar búfjártegundir.
    4. gr. falli brott.
    Við 5. gr.
         
    
    Fyrri málsliður orðist svo: Að vetri til, þegar búfé er haldið til beitar eða látið liggja við opið, skal sjá til þess að á staðnum sé húsaskjól eða annað öruggt og hentugt skjól í öllum veðrum.
         
    
    Á eftir síðari málslið komi nýr málsliður er orðist svo: Heimilt er sveitarstjórn, að fengnum tillögum dýraverndarráðs eða héraðsdýralæknis, að banna dýrahald á tilteknum stöðum að vetri til séu fyrrgreind skilyrði ekki uppfyllt.
    Við 6. gr. Síðari málsgrein orðist svo:
                  Þegar búfé á í hlut skal einnig fara að reglum settum samkvæmt lögum um búfjárhald.
    Við 7. gr. 1. og 2. málsl. falli brott.
    Við 9. gr. Greinin orðist svo:
                  Ökumenn skulu sýna dýrum á vegum fyllstu tillitssemi. Verði dýr fyrir ökutæki ber stjórnanda þess skylda til að ganga úr skugga um hversu alvarlegt slysið er og gera viðhlítandi ráðstafanir, þar á meðal þær sem greindar eru í 10. gr., eftir því sem við á.
    Við 10. gr. Greinin orðist svo:
                  Verði maður var við að dýr sé sjúkt, lemstrað eða bjargarlaust að öðru leyti ber honum að veita því umönnun eftir föngum. Gera skal lögreglu eða dýralækni viðvart eins fljótt og unnt er. Náist ekki til þeirra og ætla má að sjúkdómur dýrs eða meiðsl séu banvæn er heimilt að deyða dýrið og tilkynna það síðan til lögreglu.
    Við 11. gr. Greinin orðist svo:
                  Ef dýr strjúka eða sleppa úr haldi skulu eigendur eða umráðamenn þeirra þegar gera ráðstafanir til að handsama þau. Lögreglan getur tekið slík dýr í vörslu sína. Ef eigandi gefur sig fram skal hann greiða áfallinn kostnað. Hafi dýrsins ekki verið vitjað innan einnar viku skal því ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda, það selt fyrir áföllnum kostnaði eða aflífað.
                  Þegar búfé á í hlut skal fara að lögum um búfjárhald, reglum laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. og lögum um varnir gegn smitandi búfjársjúkdómum.
    Við 12. gr. Á eftir orðunum „flutning á dýrum“ í síðari málsgrein komi: a ð höfðu samráði við yfirdýralækni.
    Við 13. gr.
         
    
    Greinin orðist svo:
                            Leyfi lögreglustjóra þarf til hvers konar ræktunar, verslunar, þjálfunar, tamningar, geymslu og leigu dýra í atvinnuskyni sem ekki fellur undir búfjárhald. Einnig þarf leyfi lögreglustjóra til að setja á stofn dýragarða, halda dýrasýningar og efna til dýrahappdrættis.
                            Leyfi umhverfisráðherra þarf til að handsama villt dýr fyrir dýragarða eða önnur söfn lifandi dýra.
                            Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um leyfisveitingar skv. 1. og 2. mgr., þar á meðal að leyfi megi binda þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja til að tryggja góða meðferð dýranna, svo sem aðbúnað þeirra, umhirðu, viðhlítandi vistarverur og eftirlit með starfseminni. Undanþegnar eru sýningar samkvæmt búfjárræktarlögum.
         
    
    Orðið „Sérstakt“ í fyrirsögn greinarinnar falli brott.
    Við 14. gr. Greinin orðist svo:
                  Dýralæknum einum er heimilt að framkvæma læknisaðgerðir á dýrum. Undanþegnar eru þó minni háttar aðgerðir og lyfjameðferð í samráði við dýralækni.
                  Dýralæknum einum er heimilt að gelda dýr með þeim undantekningum sem settar verða í reglugerð.
                  Þegar aðgerð á dýrum er sársaukafull skal ávallt nota deyfilyf eða svæfa dýrið.
                  Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli sem takmarka aðgerðir á dýrum sem framkvæmdar eru án læknisfræðilegra ástæðna.
    Við 15. gr. Greinin orðist svo:
                  Dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti og eftir því sem unnt er án þess að önnur dýr verði þess vör.
                  Dýr skulu ávallt svipt meðvitund áður en blóðtæming fer fram. Umhverfisráðherra er, að höfðu samráði við yfirdýralækni, heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um hvernig staðið skuli að aflífun dýra við slátrun.
    Við 16. gr. Síðari málsgrein orðist svo:
                  Við dýraveiðar skal að auki fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar dýra.
    Við 17. gr.
         
    
    2. mgr. orðist svo:
                            Umhverfisráðherra skipar tilraunadýranefnd til fjögurra ára í senn. Einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar og skal hann hafa lokið háskólanámi og hafa þekkingu og reynslu á sviði dýratilrauna og einn fulltrúi er skipaður af Rannsóknastofnun í siðfræði. Auk þeirra á yfirdýralæknir sæti í nefndinni og er hann formaður hennar.
         
    
    4. mgr. orðist svo:
                            Tilraunadýranefnd skal tryggja að þeir sem nota dýr í tilraunaskyni hafi hlotið þjálfun og menntun í meðferð tilraunadýra.
    Við 18. gr. Greinin orðist svo:
                  Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn allra mála er varða dýravernd.
                  Dýraverndarráð, skipað af umhverfisráðherra til fjögurra ára í senn, hefur með höndum eftirlit með framkvæmd laga þessara. Í ráðinu eiga sæti fimm menn. Einn tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, einn af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, einn af Dýralæknafélagi Íslands og einn af Sambandi dýraverndarfélaga Íslands. Umhverfisráðherra skipar einn mann í ráðið án tilnefningar og er hann jafnframt formaður. Varamenn skuli skipaðir með sama hætti.
                  Ávallt skal leita umsagna dýraverndarráðs við setningu reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla um dýravernd og við leyfisveitingar á grundvelli laga þessara. Þá ber ráðinu að gera tillögur til ráðherra um allt það sem horfir til framdráttar dýravernd í landinu og vera honum til ráðuneytis að öðru leyti. Dýraverndarráð skal láta héraðsdýralæknum, lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum í té umsagnir um málefni er varða dýravernd sé þess óskað. Ráðið skal auk þess vinna að því að skilningur og þekking almennings á dýravernd verði aukin.
                  Kostnaður við starfsemi dýraverndarráðs greiðist úr ríkissjóði.
    19. gr. falli brott.
    Við 20. gr. Greinin orðist svo:
                  Lögreglu ber að hafa eftirlit með aðstæðum og aðbúnaði dýra samkvæmt lögum þessum. Leiki grunur á að meðferð á dýrum brjóti gegn lögum ber þeim er verða þess varir að tilkynna það lögreglu í viðkomandi umdæmi, héraðsdýralækni eða dýraverndarráði.
                  Að kröfu héraðsdýralæknis eða fulltrúa dýraverndarráðs er lögreglu skylt að fara í fylgd annars hvors þeirra eða beggja á hvern þann stað innan umdæmis þar sem dýr eru höfð og kanna aðstæður þeirra og aðbúnað. Eigi er þó heimilt að fara í þessum tilgangi inn í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema að fengnum dómsúrskurði, sbr. þó 4. mgr.
                  Sé um minni háttar brot að ræða skal lögreglustjóri, ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt kröfu dýraverndarráðs eða héraðsdýralæknis, leggja fyrir eiganda eða umsjónarmann dýranna að bæta úr innan tiltekins tíma. Láti eigandi eða umsjónarmaður ekki skipast við tilmæli skal lögreglustjóri fyrirskipa úrbætur á hans kostnað eða beita þeim úrræðum sem mælt er fyrir um í 4. mgr.
                  Leiki grunur á að um sé að ræða alvarlegt brot gegn dýraverndarlögum eða reglugerðum, sem settar eru með stoð í þeim, getur lögregla fyrirvaralaust tekið dýr úr vörslu eiganda eða umsjónarmanns. Í þessu skyni er lögreglu rétt að fara inn í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi dýrunum heilsutjóni. Lögreglu ber að tilkynna lögreglustjóra þessar aðgerðir þegar í stað og skal hann í framhaldi af því, að fenginni tillögu dýraverndarráðs og umsögn héraðsdýralæknis, ákveða hvort dýrin skuli vera áfram í vörslu lögreglu þar til úrbætur hafa verið gerðar eða dómur fallið, sbr. 6. mgr. Á meðan dýrin eru í vörslu lögreglu er sveitarstjórn skylt að útvega geymslustað, fóður og umhirðu fyrir dýrin á kostnað eiganda eða umsjónarmanns. Sé sveitarstjórn það af einhverjum ástæðum ókleift og telji nauðsynlegt að láta bjóða dýrin upp, selja þau til lífs eða slátrunar eða láta aflífa þau að öðrum kosti skal eiganda eða umsjónarmanni dýranna þegar tilkynnt um þau áform og honum gefinn kostur á, sé það mögulegt, að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu á kostnaði við geymslu, fóður og umhirðu fyrir dýrin uns dómur fellur, sbr. 6. mgr.
                  Telji lögreglustjóri nauðsynlegt til að stöðva eða fyrirbyggja illa meðferð á dýrum getur hann fyrirvaralaust og til bráðabirgða svipt eiganda eða umsjónarmann heimild til þess að hafa eða sjá um dýr þar til úrbætur hafa verið gerðar eða dómur fallið, sbr. 6. mgr., enda hafi dýraverndarráð eða héraðsdýralæknir gert tillögu um það. Bráðabirgðaleyfissvipting gildir þótt eigandi eða umsjónarmaður flytji dýrin í annað stjórnsýsluumdæmi.
                  Nú vill eigandi eða umsjónarmaður dýra ekki hlíta þeim aðgerðum eða ákvörðunum, sem fyrir er mælt í 4. og 5. mgr., og getur hann þá borið ágreiningsefnið undir dómara, hvort sem er sérstaklega eða í opinberu máli sem höfðað kann að vera á hendur honum. Slíkt frestar þó ekki aðgerðum eða framkvæmd ákvarðana skv. 4. og 5. mgr.
                  Lögreglustjórar úrskurða hvort eigandi eða umsjónarmaður dýra skuli bera útgjöld skv. 2. og 4. mgr. og hve há þau skuli vera. Þeir úrskurðir eru aðfararhæfir.
    Við 21. gr. Orðið „reglum“ í fyrri málslið fyrri málsgreinar falli brott.
    Við 22. gr.
         
    
    Í stað orðanna „er unnt að“ í upphafsmálslið komi: má.
         
    
    Í stað orðsins „Aðili“ í lokamálslið komi: Sá.
         
    
    Í stað orðanna „ákvæði dóms“ í lokamálslið komi: dómi.
    Við 23. gr. Síðari málsliður orðist svo: Brjóti barn, yngra en 16 ára, gegn lögum þessum og brotið er framið með vitund foreldra eða forráðamanna skal þeim refsað fyrir brotið ef sannað er að þeir hafi vanrækt að koma í veg fyrir það.
    Við 25. gr.
         
    
    Síðari málsliður fyrri málsgreinar orðist svo: Reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli um dýravernd, sem sett hafa verið fyrir gildistöku laga þessara, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við lög þessi uns ný stjórnvaldsfyrirmæli hafa verið sett.
         
    
    Síðari málsgrein falli brott.
    Á eftir 25. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1994. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 21/1957, um dýravernd, ásamt síðari breytingum.
    Fyrirsögn IX. kafla orðist svo: Gildistaka og stjórnvaldsfyrirmæli .