Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 67 . mál.


706. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992, sbr. lög nr. 118/1992.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarp þetta er annað fjáraukalagafrumvarpið fyrir árið 1992 sem lagt er fyrir Alþingi til samþykktar á umframgreiðslum úr ríkissjóði frá heimildum fjárlaga 1992. Alþingi samþykkti fyrri fjáraukalög í desember 1992, lög nr. 118/1992, sem fólu í sér auknar greiðsluheimildir. Þar var gert ráð fyrir að halli fjárlaga 1992 yrði alls 10,058 milljarðar kr. Með þessu frumvarpi er sótt um endanlegar greiðsluheimildir ríkissjóðs á árinu 1992.
    Það kemur í ljós í þessu frumvarpi að það frumvarp til fjáraukalaga 1992, sem samþykkt var í desember 1992, er talsvert langt frá raunveruleikanum. Þannig eru greiðslur nú tæpum 2,5 milljörðum kr. lægri en lög nr. 118/1992 gerðu ráð fyrir og tekjur, sem höfðu verið lækkaðar um 2,4 milljarða kr. með þeim sömu lögum, eru nú hækkaðar um 400 millj. kr. Rekstrarhalli ríkissjóðs var því aukinn með fyrri fjáraukalögum 1992 um tæpa 6 milljarða kr. en er nú lækkaður aftur um tæpa 3 milljarða kr. Er það vægast sagt lítt traustvekjandi að svo miklu geti munað á fjáraukalögum sem samþykkt eru í desember 1992 og raunverulegu uppgjöri nokkrum dögum síðar.
    Minni hlutinn telur að með þessu frumvarpi sé það staðfest að ríkisstjórnin hefur engan veginn náð þeim markmiðum sem hún setti sér við gerð fjárlaga 1992. Halli ríkissjóðs árið 1992 tvöfaldast frá því sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Minni hlutinn vísar til nefndarálits síns með fyrra fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 1992 á þskj. 407 á 116. löggjafarþingi því til staðfestingar.
    Enn er uppi sama staða og var um afgreiðslu fjáraukalaga 1991, þ.e. hvernig færa skuli skuldbindingar ríkissjóðs fyrir árið 1992. Ríkisreikningsnefnd, sem hefur á síðustu missirum verið að endurskoða lög um ríkisbókhald og gerð fjárlaga, hefur ekki enn skilað áliti þegar þetta er ritað.
    Samkvæmt framansögðu mun minni hlutinn sitja hjá við lokaafgreiðslu frumvarpsins.

Alþingi, 10. mars 1994.



Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,

Guðmundur Bjarnason.

Guðrún Helgadóttir.


frsm.



Margrét Frímannsdóttir.

Jón Kristjánsson.