Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 198 . mál.


713. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og afgreitt það samhliða frumvörpum til breytinga á lögum um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973, og lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, enda byggjast tillögur þessara þriggja frumvarpa á sameiginlegum grunni og hafa að markmiði að koma nýrri heildarskipan á áfrýjun dómsmála. Á fund nefndarinnar komu Markús Sigurbjörnsson prófessor, Hrafn Bragason, forseti Hæstaréttar, Valtýr Sigurðsson, formaður Dómarafélags Íslands, og Magnús Thoroddsen, formaður laganefndar Lögmannafélags Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir frá héraðsdómi Norðurlands vestra, héraðsdómi Suðurlands, ríkissaksóknara, héraðsdómi Reykjavíkur, héraðsdómi Vestfjarða, Hæstarétti, Lögmannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, héraðsdómi Reykjaness, Sýslumannafélagi Íslands og Eiríki Tómassyni hrl.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist ný 4. gr. þess efnis að í 2. mgr. 125. gr. laganna verði veitt heimild til að setja í reglugerð ákvæði um starfshætti gjafsóknarnefndar, þar á meðal viðmiðunarákvæði fyrir gjafsóknarnefnd um efnahag umsækjenda um gjafsókn. Ákvæði a-liðar 1. mgr. 126. gr. laganna, sem lýtur að efnahag umsækjanda, er annað af tveimur viðbótarskilyrðum laganna fyrir veitingu gjafsóknar. Ákvæðið kom í stað 2. tölul. 1. mgr. 172. gr. laga nr. 85/1936 þar sem sett var það skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar að umsækjandi væri svo illa stæður fjárhagslega að hann mætti ekki vera án þess fjár sem til málarekstursins færi. Ákvæði a-liðar 1. mgr. 126. gr. veitir nánari leiðbeiningar en áður um það við hvað mat á efnahag umsækjanda má styðjast. Þó eru hvorki í lögunum eða í reglugerð samkvæmt þeim sett frekari viðmiðunarmörk um efnahag umsækjanda, svo sem um ákveðin tekju- eða eignarmörk. Nefndin vísar til álits umboðsmanns Alþingis frá 25. nóvember 1993 (mál nr. 753/1993). Í álitinu bendir umboðsmaður á að ekki verði séð af greinargerð með frumvarpi til núgildandi einkamálalaga að um efnisbreytingu sé að ræða frá ákvæðum 172. gr. laga nr. 85/1936, en í greinargerð segi að breytingar byggist á sama grunni og ákvæði í frumvarpi til laga um opinbera réttaraðstoð sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi en var ekki afgreitt. Samkvæmt því frumvarpi var gert ráð fyrir að sett yrði reglugerð til viðmiðunar um tekju- og eignarmörk til leiðbeiningar fyrir gjafsóknarnefnd. Rök séu til að taka slíkt heimildarákvæði í núgildandi lög um meðferð einkamála þar sem það yrði umsækjendum um gjafsókn til leiðbeiningar, en lagaheimild skorti til að setja í reglugerð skýrari viðmiðunarmörk um fjárhag umsækjanda sem skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar. Sú breyting, sem nefndin leggur til, á að ná til þeirra vankanta sem umboðsmaður bendir á í fyrrgreindu áliti.
    Lögð er til breyting á áfrýjunarfjárhæð 5. gr. frumvarpsins. Frumvarpið felur í sér verulega hækkun á áfrýjunarfjárhæð og gerir frumvarpið óbreytt ráð fyrir að máli, er varði fjárkröfu, verði ekki áfrýjað nema fjárhæðin nemi minnst 500 þús. kr. í stað 150 þús. kr. í gildandi lögum. Tilgangurinn með hækkun áfrýjunarfjárhæðar er fyrst og fremst að fækka málum sem koma til dómsmeðferðar í Hæstarétti. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að nauðsynlegt sé að hækka áfrýjunarfjárhæðina, enda vegur það að réttaröryggi og réttarvernd borgaranna að biðtími eftir dómum Hæstaréttar geti skipt árum. Ekki ætti að valda umtalsverðri skerðingu á réttaröryggi þótt hækkun verði á áfrýjunarfjárhæð þar sem heimildir til undantekninga í 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins, nái krafa ekki tilskildu lágmarki, eru nokkuð rúmar. Hins vegar þykir rétt að fara varlegar í sakirnar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu enda má engu að síður ná því markmiði að létta verulega álagi af Hæstarétti. Er því lagt til að áfrýjunarfjárhæðin lækki í 300 þús. kr. Bent skal á að þessi breytingartillaga snertir einnig frumvarp það sem áður er nefnt, um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, sbr. 10. gr. þess frumvarps, þar sem fram kemur kemur að áfellisdómi verði aðeins áfrýjað með leyfi Hæstaréttar ef ákærða er þar hvorki ákveðin frelsissvipting né sekt eða eignarupptaka sem er hærri en áfrýjunarfjárhæð í einkamálum.
                  Þá er lögð til orðalagsbreyting á c-lið 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins í því skyni að herða á þeim skilningi að heimilt sé að veita undanþágu frá áfrýjunarfjárhæð sé ekki víst að héraðsdómur verði staðfestur. Að óbreyttu hefði mátt skilja orð ákvæðisins þannig að í því fælist ábending um að dóminum mundi verða breytt, en miðað við þann skilning hefðu getað vaknað spurningar á síðari stigum máls um vanhæfi þeirra dómara sem leyft hefðu áfrýjun.
    Lagt er til að orðið „stuttlega“ í 7. gr. frumvarpsins falli brott. Er þar aðeins um áherslumun að ræða því til ítrekunar að eðlilegt sé að í tilkynningu um synjun áfrýjunarleyfis komi a.m.k. fram meginröksemdir fyrir synjuninni.
    Lagðar eru til breytingar á 8. gr., 9. gr., 1. mgr. 10. gr., 3. mgr. 11. gr., 2. mgr. 16. gr. og 3. mgr. 23. gr. frumvarpsins og varða þær breytingar allar þau atriði sem fram skulu koma í áfrýjunarstefnu annars vegar og greinargerð hins vegar. Í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að áfrýjunarstefna verði mun ítarlegri en nú er boðið í 1. mgr. 155. gr. laganna. Rökin fyrir þeim breytingum eru einkum að með því yrði lagður traustari grunnur að meðferð málsins fyrir Hæstarétti og báðum málsaðilum og dóminum yrði ljóst frá fyrstu stigum til hvers áfrýjað væri og um hvað deilan snerist en einnig að reglur um efni áfrýjunarstefnu færist í það horf að þær svari eftir því sem unnt er til reglna um stefnu á héraðsdómsstigi í 1. mgr. 80. gr. laganna. Frumvarpið gerir hins vegar ekki ráð fyrir að áfrýjandi leggi fram greinargerð auk áfrýjunarstefnu. Lagðar eru til breytingar á þessu fyrirkomulagi sem byggjast á þeim athugasemdum að með tilliti til áfrýjunarfrests geti verið fullíþyngjandi fyrir lögmenn að þurfa að semja efnismiklar áfrýjunarstefnur. Eru þá einkum höfð í huga tilvik þar sem ákvörðun um áfrýjun er ekki tekin fyrr en mjög skömmu áður en áfrýjunarfrestur er liðinn. Breytingarnar felast í grundvallaratriðum í að áfrýjunarstefna verði efnisminni en frumvarpið gerir ráð fyrir en áfrýjandi leggi í staðinn einnig fram greinargerð til nánari skýringa. Þannig komi fram í greinargerð í hverju skyni sé áfrýjað og kröfur áfrýjanda fyrir Hæstarétti og hvort einnig sé áfrýjað til að fá hnekkt tilteknum úrskurði eða ákvörðun héraðsdómara, málsástæður sem áfrýjandi ber fyrir sig fyrir Hæstarétti, tilvísun til helstu réttarreglna sem áfrýjandi byggir málatilbúnað sinn á fyrir Hæstarétti og gögn sem áfrýjandi leggur fram í réttinum eða telur sig þurfa að afla eftir þann tíma, en þetta eru allt atriði sem frumvarpið óbreytt gerir ráð fyrir að komi fram í áfrýjunarstefnu.
    Lögð er til sú breyting við 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. að stefndi fái minnst fjórar vikur til að skila greinargerð eftir að mál er þingfest en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lágmarksfrestur sé tvær vikur. Tveggja vikna frestur þykir vera fullknappur tími fyrir lögmann stefnda, t.d. ef fresturinn kemur inn í jól eða páska eða á tíma mikils vinnuálags lögmanns.
    Breytingin á 1. mgr. 13. gr. felur í sér að Hæstiréttur geti heimilað aðila að leggja fram ný gögn eftir lok frests til gagnaöflunar hafi aðilinn ekki getað aflað þeirra fyrr eða atvik breyst svo að máli skiptir eftir þann tíma. Að óbreyttu þykir ákvæðið of fortakslaust þar sem segir að dómurinn geti beint því síðar til aðila að hann megi afla frekari gagna. Er hér um að ræða nauðsynlega viðbót við greinina sem miðar við að lögmaður geti óskað eftir að fá að afla gagna. Getur til þess komið t.d. þegar málsaðili fellur frá og sýna þarf fram á hver komi í hans stað.
    Lögð er til sú breyting á 24. gr. frumvarpsins að lögin taki gildi 1. júlí 1994.

Alþingi, 9. mars 1994.



Sólveig Pétursdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Þuríður Bernódusdóttir.


form., frsm.



Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Björn Bjarnason.

Kristinn H. Gunnarsson.



Ólafur Þ. Þórðarson.

Ingi Björn Albertsson.

Ey. Kon. Jónsson.