Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 144 . mál.


835. Nefndarálit


um frv. til húsaleigulaga.

Frá félagsmálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund sinn Sigurð Helga Guðjónsson hrl. og Inga Val Jóhannsson, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu. Nefndin hafði hliðsjón af umsögnum sem henni bárust á 116. og 117. löggjafarþingi frá Kennarasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, borgarstjórn Reykjavíkur, Húseigendafélaginu, Matsmannafélagi Íslands, bæjarstjórnum Keflavíkur, Akureyrar, Kópavogs, Akraness, Selfoss og Ísafjarðar, Neytendasamtökunum, Húsnæðisstofnun ríkisins, Öryrkjabandalagi Íslands, Leigjendasamtökunum, Dómarafélagi Íslands, Húseigendafélaginu, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, bæjarlögmanni Akureyrar, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Verktakasambandi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Búseta sf., svæðisráði Reykjavíkur í málefnum fatlaðra, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Félagi einstæðra foreldra og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Í 3. gr. frumvarpsins kemur fram að ákvæði þess um hjón eða maka eigi einnig við um sambúðarfólk. Að óbreyttu nær hugtakið sambúðarfólk aðeins til karls og konu sem búa saman og eru bæði ógift ef þau hafa átt saman barn, konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í eitt ár. Breyting nefndarinnar, sem leggur til að hugtakið sambúðarfólk nái í lögum þessum einnig til annars sambúðarforms tveggja aðila, byggist á að skilgreining frumvarpsins þykir of þröng. Nefndin telur að ákvæðið eigi að ná t.d. til samkynhneigðra sambúðaraðila eða annars sambúðarforms tveggja einstaklinga, svo sem systkina. Má segja að breytingin feli í sér að ef tveir einstaklingar hafa búið saman í leiguíbúð í a.m.k. eitt ár, þannig að jafna megi sambúðinni hvað heimilisrétt varðar til hjúskapar eða óvígðrar sambúðar, skuli ákvæðum laganna um hjúskap eða óvígða sambúð beitt um slíka einstaklinga eftir því sem við getur átt. Taka má sem dæmi um áhrif þessarar breytingar að ákvæði 47. gr. um forgangsrétt til áframhaldandi leigu og heimild til að ganga inn í leigusamning við andlát maka eða sambúðaraðila nær þá einnig til þess konar sambúðarforms.
    Lögð er til breyting á 56. gr. sem kveður á um eins mánaðar uppsagnarfrest ótímabundins leigusamnings. Orðalagsbreytingin í lok 1. tölul. byggist á að rétt þykir að um einstök herbergi gildi alltaf eins mánaðar uppsagnarfrestur án tillits til hvers herbergið er notað.
    Lagðar eru til breytingar á 69. gr. Skv. 1. mgr. fer byggingarfulltrúi með úttektir þær sem frumvarpið mælir fyrir um. Sveitarstjórnum er þó heimilt að fela húsnæðisnefnd eða starfsmanni á hennar vegum þá framkvæmd. Í 2. og 3. mgr. er aftur á móti aðeins rætt um byggingarfulltrúa og er breytingunum ætlað að taka af tvímæli um að þær skyldur byggingarfulltrúa sem greindar eru í 2. mgr. og þær gjaldtökuheimildir sem sveitarstjórnum eru veittar í 3. mgr. eiga einnig við þegar öðrum en byggingarfulltrúa hefur verið falið að framkvæma úttektir.
    Samkvæmt 85. gr. frumvarpsins er hlutverk kærunefndar húsaleigumála, sem kveður upp endanlega úrskurði á sviði stjórnsýslunnar, að gefa álit í ágreiningsmálum aðila leigusamningsins og beina tillögum til aðila um úrbætur. Breytingartillaga nefndarinnar felur í sér að við 85. gr. bætist ný málsgrein, er verði 7. mgr., þar sem kærunefndinni verði heimilað að taka fyrir mál að eigin frumkvæði og samkvæmt ábendingum eða tilmælum annarra aðila. Getur kærunefndin þá, á sama hátt og í ágreiningsmálum aðila leigusamnings, látið frá sér álit og tilmæli og er gert ráð fyrir að málsmeðferð samkvæmt greininni verði í báðum tilvikum sú sama.
    Lögð er til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að lögin taki gildi um næstu áramót og skal endurskoðun eldri samninga fara fram fyrir 1. mars 1995. Er þetta í samræmi við ákvörðun um gildistöku frumvarps til laga um fjöleignarhús. Þykir með sama hætti og í því máli nauðsynlegt að vanda vel til undirbúnings að gildistöku, m.a. með kynningu og gerð nýrra samningsforma. Þá þykir eðlilegt að almenningur fái góðan aðlögunartíma, m.a. þar sem gert er ráð fyrir endurskoðun eldri samninga til samræmis við ákvæði frumvarpsins, en í mörgum tilvikum felur það í sér verulegar breytingar frá eldri lögum.
    Guðjón A. Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. mars 1994.


Rannveig Guðmundsdóttir,

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Gísli S. Einarsson.

form., frsm.


Ingibjörg Pálmadóttir.

Eggert Haukdal.

Kristinn H. Gunnarsson.


Jón Kristjánsson.

Guðjón Guðmundsson.