Hægt er að sækja Word Perfect útgáfu af skjalinu, sjá upplýsingar um uppsetningu á Netscape fyrir Word Perfect skjöl.

1993--94. -- 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. -- 431 . mál.


870. Nefndarálit    432. og 433.


um till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamninga milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Búlgaríu, Ungverjalands og Rúmeníu.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað samhliða um þrjár tillögur til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamninga á milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Búlgaríu, Ungverjalands og Rúmeníu hins vegar. Nefndin fékk á fund sinn til viðræðna frá utanríkisráðuneytinu Þorstein Ingólfsson ráðuneytisstjóra og Gunnar Snorra Gunnarsson sendiherra, Guðmund Sigþórsson, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, og Gunnlaug Júlíusson hagfræðing frá Stéttarsambandi bænda.
    Við umfjöllun nefndarinnar um samningana kom í ljós að láðst hafði að prenta með 431. máli, fríverslunarsamningnum við Búlgaríu, bókun A um vörur sem um getur í b-lið 2. gr. samningsins, en bókun A tekur til ákveðinna vara sem unnar eru að hluta til eða að öllu leyti úr landbúnaðarvörum. Er því bókun A birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu. Þá vill nefndin árétta að töflur I og VII við bókun A, sem birtar eru í þskj. 645 í samningnum við Rúmeníu, gilda um alla þrjá samningana þó að þær séu aðeins birtar í Rúmeníusamningnum.
    Nefndin mælir með samþykkt tillagnanna.

Alþingi, 28. mars 1994.


Björn Bjarnason,
Rannveig Guðmundsdóttir.
Ólafur Ragnar Grímsson.

form., frsm.


Geir H. Haarde.
Tómas Ingi Olrich.
Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Páll Pétursson,
Guðmundur Bjarnason,
Anna Ólafsdóttir Björnsson,

með fyrirvara.
með fyrirvara.
með fyrirvara.





Fylgiskjal.






Bókun A við fríverslunarsamning ríkja EFTA og Búlgaríu.



BÓKUN A

UM VÖRUR SEM UM GETUR Í B-LIÐ 2. GR. SAMNINGSINS


1. gr.

1.     Til þess að taka megi til greina mismunandi kostnað landbúnaðarhráefnis sem síðan er notað í vörur sem skráðar eru í töflunum sem um getur í 2. og 3. gr., útilokar samningurinn ekki:
             að heimilt sé að leggja hlutfallslegt eða fast jöfnunargjald á innflutning eða að taka upp aðrar verðjöfnunarráðstafanir;
             að ráðstafanir séu gerðar við útflutning.
2.     Verðjöfnunarráðstafanir skulu ekki vera hærri en nemur mismuninum milli verðs landbúnaðarafurða, sem notaðar eru í umræddri vöru, á innlendum markaði og heimsmarkaðsverðs þeirra. Sé innlent verð landbúnaðarafurðar lægra en heimsmarkaðsverð hennar er innflutningsríkinu heimilt að taka slíkt til greina þegar upphæðir til jöfnunar eru reiknaðar. Ef Búlgaría og EFTA-ríki koma sér saman um lækkanir á breytilegu gjaldi, sem lagt er á hráefni úr landbúnaði, skal hlutaðeigandi samningsríki enn fremur taka tillit til lækkana þessara á viðeigandi hátt þegar reiknaðar eru upphæðir til jöfnunar vegna viðkomandi unninna vara.
3.     Verðjöfnunarráðstafanir, eins og þeim er lýst í 1. og 2. mgr., skulu á engan hátt skerða rétt EFTA-ríkja eða Búlgaríu til að framfylgja landbúnaðarstefnu sinni eða gera ráðstafanir samkvæmt þeirri stefnu.

2. gr.

1.     Viðkomandi EFTA-ríki skal veita Búlgaríu ívilnanir vegna vara sem eru skráðar í töflum I, II, III, IV og V samkvæmt því sem fram kemur í töflunum. Samkomulag er um að ívilnanir þessar séu eins og þær sem standa Efnahagsbandalagi Evrópu til boða eigi síðar en 1. janúar 1993.
2.     Meðferð sem beitt er af hálfu Íslands er sýnd í töflu VI. Í 1. lista töflunnar er að finna tolla og í 2. lista fjáröflunartolla. Íslandi er þó heimilt að láta aðrar verðjöfnunarráðstafanir koma í stað þessara tolla í samræmi við 1. og 2. mgr. 1. gr. en slíkar aðgerðir megi þó ekki leiða til lakari kjara fyrir vörur sem skráðar eru í VI. töflu en Ísland veitir Efnahagsbandalagi Evrópu.

3. gr.

1.     Þrátt fyrir 4. gr. samningsins skulu tollar, sem lagðir eru af hálfu Búlgaríu á framleiðsluvörur upprunnar í EFTA-ríkjum sem skráðar eru í VII. töflu, ekki vera hærri, frá og með gildistöku samningsins til 31. desember 1996, en lagðir voru á 28. febrúar 1993.

2.     Búlgaría skal afnema stig af stigi innflutningstolla á vörum í VII. töflu í samræmi við áætlun sem sameiginlega nefndin semur á árinu 1996. Niðurfellingin skal framkvæmd eins fljótt og ráð er gert fyrir í Evrópusamningnum milli Búlgaríu og Evrópubandalaganna.
3.     Búlgaríu ber að tilkynna EFTA-ríkjum með góðum fyrirvara um allar ákvarðanir um að taka upp verðjöfnunarkerfi til að taka megi til greina mismunandi kostnað landbúnaðarhráefnis sem síðan er notað í framleiddum vörum. Verði af slíkri ákvörðun skal koma kerfinu á með sömu ákvæðum og á sama tíma gagnvart EFTA-ríki og gagnvart Evrópubandalögunum. Möguleika á að semja einnig um tilslakanir, sem Búlgaría kann að veita Evrópubandalögum með sérstökum skilyrðum, ber að taka til umfjöllunar í sameiginlegu nefndinni.

4. gr.

    Ákvæði samningsins gilda um framleiðsluvörur sem skráðar eru í VIII. töflu.

5. gr.

1.     EFTA-ríki tilkynna Búlgaríu og Búlgaría tilkynnir EFTA-ríkjum um allar verðjöfnunarráðstafanir sem lagðar eru á skv. 1. gr. bókunar þessarar.
2.     Búlgaría og EFTA-ríki tilkynna hvert öðru um allar breytingar sem verða á meðferð vara frá Efnahagsbandalagi Evrópu.

6. gr.

    EFTA-ríki og Búlgaría skulu endurskoða á tveggja ára fresti þróun viðskipta sín á milli með framleiðsluvörur sem falla undir þennan samning. Endurskoðun skal fara fram í fyrsta sinn fyrir lok 1994. Í ljósi endurskoðananna og með hliðsjón af þróun í viðskiptum milli samningsríkja og Efnahagsbandalags Evrópu á þessu sviði skulu samningsríki ákveða hugsanlegar breytingar á vörum sem falla undir bókunina og breytingar á reglum um jöfnunargjöld.