Ferill 235. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 235 . mál.


893. Nefndarálit



um frv. til l. um slysavarnaráð.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem kveður á um stofnun slysavarnaráðs sem hefur það meginmarkmið að stuðla að fækkun slysa. Í umfjöllun sinni studdist nefndin við umsagnir frá Almannavörnum ríkisins, Brynjólfi Mogensen, yfirlækni og forstöðumanni slysa- og bæklunarlækningadeildar Borgarspítala, landlækni, Landsbjörg—Landssambandi björgunarsveita, Læknafélagi Íslands, Lögreglufélagi Reykjavíkur, Slysavarnafélagi Íslands og Umferðarráði.
    Frumvarpið hefur hlotið jákvæð viðbrögð og nefndin leggur til að það verði samþykkt með þeirri breytingu að slysavarnaráð verði skipað fulltrúum Landsbjargar og Umferðarráðs auk þeirra sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins. Þá vill nefndin leggja áherslu á að fulltrúi sá, er frumvarpið gerir ráð fyrir að dómsmálaráðherra skipi, komi að jafnaði úr röðum lögreglu. Þá skal bent á að í greinargerð er gert ráð fyrir að starfandi forstöðulæknir slysadeildar Borgarspítalans hverju sinni skuli tilnefndur sem fulltrúi læknadeildar Háskóla Íslands í ráðinu, en það telur nefndin of takmarkandi. Rétt þykir að fulltrúi læknadeildar hverju sinni verði læknir á Borgarspítala með sérþekkingu á slysum og slysaskráningu.

Alþingi, 29. mars 1994.



Ingibjörg Pálmadóttir,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Guðmundur Hallvarðsson.


varaform., frsm.



Margrét Frímannsdóttir.

Hermann Níelsson.

Sólveig Pétursdóttir.



Finnur Ingólfsson.

Sigríður A. Þórðardóttir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.







Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um slysavarnaráð.


    Markmiðið með frumvarpinu er að fækka slysum með slysavörnum og samræmdri skráningu upplýsinga um slys og varnir gegn þeim.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að ætlunin er að halda kostnaði við ráðið í lágmarki. Það verður m.a. gert með því að nýta starfskrafta og aðstöðu hjá landlæknisembættinu.
    Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að kostnaður við slysavarnaráð verði að jafnaði um 2.500 þús. kr. á ári og þar að auki verði árlega varið 1.000 þús. kr. til að halda slysaskrá og gefa út slysatölur. Í samræmi við þá ætlan, sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu, að kostnaði verði haldið í lágmarki er ekki gert ráð fyrir sérstökum framlögum í fjárlögum til að halda landsþing um slysavarnir annað hvert ár.
    Samtals mun kostnaður við slysavarnaráð því nema um 3.500 þús kr. á ári.