Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 354 . mál.


935. Nefndarálit



um frv. til l. um samfélagsþjónustu.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund sinn til viðræðna frá dómsmálaráðuneytinu Ara Edwald, aðstoðarmann dómsmálaráðherra, og Þorstein A. Jónsson skrifstofustjóra, Harald Johannessen fangelsismálastjóra, Erlend Baldursson afbrotafræðing og Ragnheiði Bragadóttur, lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Nefndinni bárust einnig skrifleg gögn frá fyrrgreindum aðilum. Þá bárust nefndinni umsagnir á 116. löggjafarþingi frá fjármálaráðuneytinu, Fangelsismálastofnun ríkisins, Vernd, Fangavarðafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Landssambandi lögreglumanna, Sýslumannafélagi Íslands, stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Geðlæknafélagi Íslands, Rauða krossi Íslands og Sálfræðingafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að fullnusta megi dóma um allt að þriggja mánaða óskilorðsbundna refsivist með ólaunaðri vinnu dómþola í þágu samfélagsins. Er hér um tilraun að ræða og lögunum þannig aðeins ætlað að gilda um tiltekinn tíma eða tvö og hálft ár frá 1. júlí 1995 að telja.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvörðun um samfélagsþjónustu verði á stjórnsýslustigi. Samfélagsþjónusta er þannig hugsuð sem eitt af þeim úrræðum sem stjórnvöld hafi við fullnustu dóms um refsivist. Þessi skipan er sérstæð fyrir Ísland og undirstrikar að hér sé um tilraun að ræða. Við þær aðstæður er skynsamlegt að framkvæmdin sé í höndum stjórnvalda þannig að unnt sé að byggja upp samfélagsþjónustu og laga hana að aðstæðum hér á landi. Reynist þetta tímabundna fyrirkomulag það vel að ákveðið verði að samfélagsþjónusta verði varanlegur hluti af viðurlagakerfinu kann að vera eðlilegt að ákvæði um samfélagsþjónustu verði felld inn í almenn hegningarlög og dómstólum falið að ákveða hvort dæma beri mann, að fengnu samþykki hans, til samfélagsþjónustu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Breytingarnar á 1. og. 3. gr. helgast af því að 60 klst. samfélagsþjónusta fyrir hvern refsivistarmánuð þykir of mikið enda er gert ráð fyrir að dómþoli sinni þessari skyldu í frítíma samhliða annarri vinnu eða námi. Þá má einnig benda á að mikill tímafjöldi er dýrari í framkvæmd vegna nauðsynlegs eftirlits og getur einnig leitt til þess að dómþoli kjósi fremur afplánun refsivistar en samfélagsþjónustu. Er því lögð til breyting á 3. gr. þannig að 40 klst. jafngildi einum mánuði í refsivist og á 1. gr. þannig að samfélagsþjónusta geti minnst verið 40 klst. og mest 120 klst.
    Breytingin á 1. tölul. 4. gr. er ekki efnisleg en er til skýringar þar sem meiningin er að dómþoli brjóti ekki refsilög á þeim tíma sem hann innir samfélagsþjónustu af hendi. Er því lagt til að í stað orðanna „gerist ekki brotlegur“ komi: gerist ekki sekur um refsiverðan verknað.
    Lagðar eru til breytingar á 5. gr. Annars vegar er lagt til að í frumvarpinu verði dómsmálaráðherra veitt heimild til að skipa þrjá menn til vara í samfélagsþjónustunefnd. Hins vegar er lögð til breyting sem leiðir af því að með því fyrirkomulagi málskots, sem breytt 8. gr. gerir ráð fyrir og gert er grein fyrir hér, eru starfsmenn Fangelsismálastofnunar ríkisins vanhæfir til setu í samfélagsþjónustunefnd, sbr. 4. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Breytingarnar á 8. gr. miða að því að ákvörðun gagnvart dómþola, rjúfi hann skilyrði fyrir samfélagsþjónustu, geti sætt endurskoðun enda er þar um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Þannig verði það Fangelsismálastofnun en ekki samfélagsþjónustunefnd sem getur ákveðið hvort skilyrðum gagnvart dómþola skuli breytt, tími sem samfélagsþjónusta er innt af hendi skuli lengdur eða hvort dómur um refsivist komi til afplánunar. Ákvörðun Fangelsismálastofnunar verður skotið til samfélagsþjónustunefndar sem tekur endanlega ákvörðun í málinu. Felld er brott 5. mgr. 8. gr. um að dómþoli skuli þegar hefja afplánun er ákveðið hefur verið að refsivist skuli koma til framkvæmda. Ekki er um efnisbreytingu að ræða þar sem það leiðir af 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar nema æðra stjórnvald taki ákvörðun þar um.
    Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson og Ólafur Þ. Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. apríl 1994.



Sólveig Pétursdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Jón Helgason.

Guðrún J. Halldórsdóttir.

Kristinn H. Gunnarsson.