Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 275 . mál.


940. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, með síðari breytingum.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og m.a. fengið umsagnir umhverfisnefndar og heilbrigðis- og trygginganefndar en báðar nefndirnar klofnuðu í afstöðu sinni til málsins. Álit nefndanna eru birt sem fylgiskjöl með áliti meiri hluta allsherjarnefndar og því ekki endurbirt með þessu nefndaráliti.
    Á fund nefndarinnar kom Ólafur Ólafsson landlæknir. Umsagnir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðisfulltrúafélagi Íslands, Heilbrigðiseftirliti Austurlandssvæðis, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Siglingamálastofnun ríkisins, Náttúruverndarráði, VSÍ, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðarsvæðis, Hollustuvernd ríkisins, ASÍ og Sambandi Íslenskra sveitarfélaga.
    Minni hlutinn telur ekki rök fyrir því að færa alla starfsemi Hollustuverndar ríkisins undir umhverfisráðuneytið. Sá hluti starfseminnar, sem nú heyrir undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, matvælasviðið, er nú um tveir þriðju hlutar hennar og er að mati minni hlutans rétt vistaður undir því ráðuneyti. Sá málaflokkur gæti orðið enn umfangsmeiri í framtíðinni í takt við auknar kröfur um eftirlit með hollustu matvæla. Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að í framtíðinni má allt eins búast við því að tvíþættri starfsemi Hollustuverndar ríkisins verði skipt upp og þá yrði tjaldað til einnar nætur ef aftur þyrfti að færa hluta starfseminnar, matvælasviðið, til baka til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis þar sem það á helst heima. Bent hefur verið á að skynsamlegt geti verið að samræma matvælaeftirlit sem nú fer fram hjá fleiri stofnunum en Hollustuvernd, til að mynda Fiskistofu. Einnig komu fram ábendingar um aðra möguleika í samræmingu á matvælaeftirliti í umsögnum VSÍ og Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis.
    Þótt vissulega megi taka undir að eitthvert óhagræði sé af því fyrir Hollustuvernd ríkisins að heyra undir tvö ráðuneyti er það að mati minni hlutans ófært vegna tvenns konar verkefna stofnunarinnar og aðeins tilfærsla á óhagræði að ætla umhverfisráðuneyti að taka að sér hlutverk sem ekki heyrir undir starfssvið ráðuneytisins. Fram kom hjá landlækni að ef matvælasviðið yrði flutt til umhverfisráðuneytisins yrði mjög líklega þörf á að ráða starfsfólk úr heilbrigðisstéttum til umhverfisráðuneytisins. Mengunarvarnadeild og eiturefnasvið Hollustuverndar ríkisins eru að mati minni hlutans best komin áfram undir umhverfisráðuneyti þar sem þau tengjast öðrum verkefnum ráðuneytisins.
    Efling umhverfisráðuneytisins er góðra gjalda verð og án efa leynast víða verkefni sem betur væru vistuð þar en þar sem þau eru nú. Það er hins vegar bjarnargreiði við ráðuneytið að drepa verkefnum ráðuneytisins á dreif með því að færa því verkefni sem ekki teljast til umhverfismála. Minni hlutinn getur því ekki stutt frumvarpið.

Alþingi, 13. apríl 1994.



Anna Ólafsdóttir Björnsson,

Kristinn H. Gunnarsson.


frsm.