Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 389 . mál.


1025. Nefndarálit



um frv. til l. um sölu notaðra ökutækja.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á fund sinn fulltrúa iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Bílgreinasambandinu, Bílasölu Reykjavíkur, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Neytendasamtökunum og Verslunarráði.
    Að loknum umræðum um málið ákvað nefndin að leggja til að frumvarpið yrði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi er lagt til að í 4. tölul. 1. mgr. frumvarpsins verði kveðið á um hámark tryggingarfjárhæðarinnar í stað þess að það verði lagt alfarið í hendur ráðherra að ákveða hana með reglugerð. Þá er í þessu sambandi lögð til sú breyting að ekki komi til kasta tryggingarinnar nema bifreiðasali sé ógjaldfær. Hér er um að ræða breytingar í samræmi við þá leið sem farin var í lögum nr. 30/1993, um neytendalán, og í frumvarpi til breytingar á þeim lögum sem nú er til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Í öðru lagi er lagt til að skilyrði lokamálsliðar 2. mgr. 3. gr. verði víkkað þannig að það verði ekki bundið við framkvæmdastjóra eingöngu. Breytingin gerir þó ráð fyrir að um stjórnunarstöðu innan fyrirtækisins verði að vera að ræða. Í þriðja lagi er lagt til að skýrar verði kveðið á um að með ástandslýsingu þeirri, sem mælt er fyrir um í 4. gr. frumvarpsins, sé aðeins átt við almenna lýsingu á ástandi bifreiðar en ekki nákvæma úttekt eins og þá sem 5. gr. mælir fyrir um. Þá er tekinn af allur vafi um afdráttarlausa skyldu bifreiðasala til að láta slíka almenna lýsingu fylgja hverju ökutæki. Í fjórða lagi er lagt til að bifreiðasali verði að fullnægja leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 5. gr. á sannanlega máta og jafnframt er tekið fram að kaupandi beri kostnað af því að láta framkvæma slíka skoðun nema um annað hafi verið samið. Loks er lögð til sú breyting á 6. gr. að kveðið verði skýrar á um skyldu bifreiðasala til að tilkynna eigendaskipti um leið og kostur er. Vart getur talist eðlilegt að meira en einn dagur líði þar til eigendaskipti eru tilkynnt nema mjög sérstæðar aðstæður réttlæti lengri frest. Þetta helgast m.a. af því að nú er hægt að tilkynna eigendaskipti á öllum póststöðvum.
    Fjarverandi við afgreiðslu málsins var Ingi Björn Albertsson.

Alþingi, 20. apríl 1994.



Halldór Ásgrímsson,

Vilhjálmur Egilsson.

Rannveig Guðmundsdóttir.


form., frsm.



Guðjón Guðmundsson.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.

Árni R. Árnason.