Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 378 . mál.


1027. Nefndarálit



um stefnumótandi byggðaáætlun 1994–1997.

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.



    Allsherjarnefnd hefur fjallað ítarlega um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun 1994–1997 og m.a. fengið á fund sinn fulltrúa samtaka sveitarfélaga, stéttarfélaga, atvinnulífs og atvinnuþróunarfélaga. Í umfjöllun nefndarinnar komu fram allmargar ábendingar um hvað betur mætti fara í tillögunni. Annar minni hluti getur tekið undir margar þeirra. Texti tillögunnar er mjög útþynntur og almenns eðlis og mætti að ósekju vera bæði metnaðarfyllri og skýrari. Lítill áhugi virtist hins vegar á að víkja frá þeim texta sem lagður var fyrir Alþingi og því meðal annars borið við að hann væri niðurstaða samkomulags sem náðst hafi um framlagningu tillögunnar. Annar minni hluti getur engan veginn tekið undir það að eðlilegt sé að Alþingi sé á þennan hátt stillt upp við vegg og megi helst engu breyta í textum frumvarpa og tillagna. Yfir Alþingi hellast nú tilskipanir sem því er ætlað að samþykkja án þess að mega neinu breyta. Alþingi er einnig boðið upp á að setja stimpil sinn á alls kyns samkomulagstexta stéttarfélaga og hagsmunaaðila. Ofan á það bætist síðan að höfundar frumvarpa og þingsályktunartillagna eru einnig farnir að láta þau skilaboð fylgja með texta sínum að helst megi engu orði hnika. Þetta er óþolandi aðstaða fyrir löggjafarvaldið og 2. minni hluti sættir sig engan veginn við vinnubrögð af þessu tagi.
    Nokkrar breytingartillögur hafa verið lagðar fram til að bæta texta tillögunnar. Annar minni hluti styður samþykkt tillögunnar með þeim breytingartillögum sem lagðar eru til á þskj. 637, 673 og 674. Annar minni hluti telur að verði þær samþykktar verði innihald tillögunnar mun hnitmiðaðra og markmiðin ljósari. Almennt má segja að tekið hafi verið undir innihald þessara tillagna í umræðu innan nefndarinnar þótt meiri hlutinn hafi ekki treyst sér til að taka þær upp og gera að sínum. Annar minni hluti telur það rökrétt framhald af umfjöllun nefndarinnar að samþykkja tillögurnar.
    Breytingartillaga á þskj. 674 fjallar um ráðningu atvinnuráðgjafa fyrir konur í öllum landshlutum. Atvinnuleysi meðal kvenna er mun meira en meðal karla og það hefur sýnt sig að þar sem sérstakir atvinnuráðgjafar hafa verið ráðnir til að sinna málefnum þeirra hefur nást umtalsverður árangur. Nefndinni barst einnig mjög fróðleg greinargerð frá Elsu Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra Snerpu, átaksverkefnis í atvinnumálum kvenna á Vestfjörðum, en hún kom á fund nefndarinnar. Greinargerðin er birt í fylgiskjali I. Í fylgiskjali II má sjá tölur um atvinnuleysi og kemur það glöggt fram hve mikið atvinnuleysi kvenna er víða um land. Það rennir stoðum undir þá skoðun 2. minni hluta að þörf sé á sérstöku átaki í atvinnumálum kvenna. Ljóst er að það er vilji höfunda þingsályktunartillögunnar að tekið verði sérstaklega á atvinnumálum kvenna, sbr. a-lið 4. tölul. tillögunnar. Í breytingartillögunni er bent á nýtilegt ráð í því skyni og samþykkt hennar er því fullkomlega í takt við þá stefnu sem boðuð er í þingsályktunartillögunni.
    Breytingartillaga á þskj. 673 um að a-liður 3. tölul. orðist eins og þar segir er sjálfsögð árétting á því að hugur fylgi máli um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Verði ekki samhliða fluttar tillögur um flutning tekjustofna til sveitarfélaganna er tómt mál að tala um nokkra sátt um flutning verkefna. Það er ekkert launungarmál að ýmsir forsvarsmenn sveitarfélaga eru mjög uggandi um það að ekki muni vera gengið á fullnægjandi hátt frá flutningi tekjustofna með þeim verkefnum sem fyrirhugað er að sveitarfélögin taki við. Það er því augljóst að í stefnumótandi byggðaáætlun er bæði rétt og skylt að setja þessi sjálfsögðu markmið inn.
    Breytingartillaga á þskj. 637 er tvíþætt. Annars vegar er bætt við í 2. mgr. orðunum „og leitast við að tryggja viðgang þeirra og að umhverfi sé ekki spillt“. Að mati 2. minni hluta er hér um sjálfsagða viðbót að ræða og í anda vaxandi vitundar fólks um gildi þess að nýting auðlinda lands og sjávar sé í sátt við vistkerfið. Síðari hluti tillögunnar felst í því að ný málsgrein, 5. mgr., bætist við tillöguna, svohljóðandi: „Að tryggja að sem mestur jöfnuður náist í opinberri þjónustu og verðlagningu á orku, fjarskiptum og öðrum sambærilegum undirstöðuþáttum er varða afkomu fólks um land allt.“ Undir þetta getur 2. minni hluti tekið og telur að hér sé um brýnt byggðamál að ræða.
    Annar minni hluti styður einnig breytingartillögur sem hluti nefndarinnar flytur á þskj. 959 og telur þær eðlilegar lagfæringar á texta tillögunnar.
    Annar minni hluti styður þingsályktunartillöguna að samþykktum þeim breytingum sem hafa verið nefndar þrátt fyrir að afskaplega skammt sé gengið í þá átt að móta raunhæfa og metnaðarfulla byggðastefnu. Annar minni hluti lítur þrátt fyrir það á tillöguna sem skref í rétta átt. Verði breytingartillögurnar ekki samþykktar mun 2. minni hluti ekki taka þátt í afgreiðslu þingsályktunartillögunar.

Alþingi, 25. apríl 1994.



Anna Ólafsdóttir Björnsson.





Fylgiskjal I.

Greinargerð Elsu Guðmundsdóttur, verkefnastjóra Snerpu,


átaksverkefnis í atvinnumálum kvenna á Vestfjörðum,


um stefnumótandi byggðaáætlun 1994–1997.



    Ísland stendur á efnahagslegum tímamótum. Minnkandi umsvif fiskiðnaðarins og tengdra greina skapar tómarúm í athafnalífinu sem þarf að fylla. Eins og skrifað var í úttekt OECD um aðstæður á Íslandi þá þarf að grípa til aðgerða „ef landið á ekki að falla úr hópi þróaðra OECD-ríkja“ og til þess að halda sinni stöðu þá þurfa Íslendingar að tileinka sér ný vinnubrögð. Í framhaldi af því tel ég að nauðsynlegt sé að endurskoða hlutverk smáfyrirtækja í byggðastefnu svo og hlutverk kvenna við uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs.
    Tilgreint er í umræddri þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun að „áfram verði stutt við verkefni sem efla framtak kvenna í atvinnumálum“. Þar sem sérstakir atvinnuráðgjafar kvenna hafa starfað hefur þátttaka kvenna í athafnalífinu aukist til muna. Konur hafa ekki leitað sem skyldi til atvinnuráðgjafa sem ekki starfa sérstaklega fyrir konur. Kvartað er yfir því meðal annars að oft séu hugmyndir kvenna taldar of smáar í sniðum til þess að unnt sé að athuga möguleika sem í þeim búa.
    Þegar sérstakur atvinnuráðgjafi kvenna er til staðar þá leita konur til hans með hugmyndir sem þær annars hefðu látið kyrrt liggja. Á þeim sjö mánuðum, sem ég hef starfað, hafa komið til mín meira en þrjátíu fyrirspurnir og af þeim hafa þrjár nú þegar skilað sér út í atvinnulífið í formi starfandi fyrirtækja og fleiri eru í bígerð. Engin þeirra kvenna sem lögðu fyrirspurnir fyrir mig höfðu áður leitað til atvinnuráðgjafa. Greiðasta leiðin til þess að efla framtak kvenna í atvinnumálum er að ráða sérstaka atvinnuráðgjafa fyrir konur í öllum landshlutum.
    Smáiðnaður og smáfyrirtæki er það rekstrarform sem flestar, en þó ekki allar, konur velja. Ef efla á framtak kvenna í atvinnumálum er mikilvægt að móta heildarstefnu gagnvart uppbyggingu smáfyrirtækja á landsbyggðinni. Slík stefna yrði meðal annars að ná til eftirfarandi þátta:

Að auðvelda smáfyrirtækjum aðgang að fjármagni.
—    Styrkveitingar til smáfyrirtækja virka hvetjandi á tvo vegu. Í fyrsta lagi hvetur stofnkostnaður eiganda hugmyndarinnar til þess að hrinda henni í framkvæmd. Í öðru lagi þá virkar styrkurinn hvetjandi á lánastofnanir og auðveldar eiganda hugmyndarinnar aðgang að lánsfé. Mikilvægt er að tryggja og efla tilvist sjóða er sérstaklega þjóna konum.
—    Lánatrygginga- og áhættusjóðir sem meta umsóknir á rekstrarforsendum. Aðgangur að lánsfé er takmarkaður fyrir smáfyrirtæki. Þeir einstaklingar sem ekki eiga fasteignir til þess að veðsetja hafa í raun ekki aðgang að lánsfé. Í því sambandi má nefna sérstaklega veðvandamál kvenna. Veðvandamál kvenna felst í því að þær eiga ekki eignir á við karla og má rekja þá staðreynd til þess að tekjumöguleikar þeirra er ekki á við karla. Auk þess eru konur tregari til þess að veðsetja heimili sín til þess að stofna fyrirtæki. Lánatrygginga- og áhættusjóðir, sem sérstaklega þjóna smáfyrirtækjum, er vænlegur kostur til þess að auðvelda þeim aðgang að fjármagni. Lánatryggingasjóðir veita veð fyrir lánum sem hlutaðeigandi fær hjá viðskiptabanka. Áhættusjóður lánar fé á lægri vöxtum en tíðkast hjá bönkum. Bæði lánatrygginga- og áhættusjóðir meta umsóknir á rekstrarforsendum og krefja ekki hlutaðeigandi um veð fyrir lánatryggingu eða lánsfé.

Að atvinnuráðgjafar sinni sérþörfum smáfyrirtækja.
—    Atvinnuráðgjafi taki virkan þátt í að hvetja einstaklinga til þess að leita að hugmyndum til atvinnusköpunar.
—    Ráðgjöf er veitt við þróun hugmynda, viðskiptaáætlanagerð, markaðssetningu og fjármagnsleit.
—    Mikilvægt er að ráðgjöf nái ekki aðeins til upphafsferlis fyrirtækis því að eigendur hugmynda eru oft að stíga sín fyrstu skref í athafnalífinu. Ef ráðgjafi fylgist með rekstri fyrirtækisins í samvinnu við eiganda gefst eiganda kostur á áframhaldandi ráðgjöf og ráðgjafi getur gripið í taumana ef með þarf.

Að auka þekkingu á stjórnun og rekstri fyrirtækja.
—    Samkvæmt upplýsingum frá Bandaríkjunum þá er hægt að rekja 85% gjaldþrota þarlendis til ónógrar þekkingar á stjórnun og rekstri fyrirtækja. Námskeiðahöld á þessu sviði eru mikilvæg til þess að stuðla að bættu rekstrarumhverfi smáfyrirtækja.
—    Vandamál landsbyggðarinnar í þessu tilviki er fámennið. Fyrst er það að erfitt er að uppfylla kröfur um lágmarksfjölda þátttakenda á námskeiðum og í öðru lagi hækkar kostnaður við námskeið til muna því greiða þarf ferðakostnað, gistingu og uppihald leiðbeinenda. Styttri námskeið eru því oft valin því kostnaðarlega séð eru lengri námskeið ekki valkostur. Þetta veldur því að fræðsla verður tilviljanakennd og ónóg og þjónar þar með ekki þeim tilgangi sem til var ætlast. Mikilvægt er því að heildarstefna gagnvart uppbyggingu smáfyrirtækja á landsbyggðinni taki tillit til þessa og gefi kost á niðurgreiðslu námskeiða þannig að jafnréttis sé gætt í aðgangi að fræðslu.

Að ná samstarfi við Atvinnuleysistryggingasjóð.
—    Á Norðurlöndum og í Bretlandi hefur tíðkast að styðja við atvinnulausa meðan þeir eru að stofna fyrirtæki. Atvinnulausum einstaklingum er gefin kostur á að þiggja atvinnuleysisbætur í einhvern tiltekinn tíma á meðan þeir eru að stofna og byggja upp fyrirtæki. Slíkur valkostur mundi virkja starfsorku atvinnulausra og hvetja þá til þátttöku við uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs.



Fylgiskjal II.

Yfirlit um atvinnuástandið í mars 1994.


Úr yfirliti um atvinnuástandið frá vinnumálaskrifstofu


félagsmálaráðuneytisins.


(15. apríl 1994.)



    Atvinnuleysið hefur aukist úr 6% í 6,3% frá febrúar en það var 5,4% í mars í fyrra. Atvinnuleysið á landsbyggðinni eykst nú í heild um 0,7% milli mánaða en hefur aukist um 12% frá mars í fyrra. Atvinnuleysið nú er 6,3% af mannafla á landsbyggðinni eða sama og í febrúar en það var 5,7% í mars í fyrra. Atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu eykst um 10% milli mánaða en hefur aukist um 22% frá mars 1993. Það er nú 6,3% af mannafla en var 5,7% í febrúar og 5,2% í mars í fyrra. Í marsmánuði fjölgar atvinnulausum konum að meðaltali um samtals 231 á landinu öllu en körlum fjölgar um 215.

Skráð atvinnuleysi í marsmánuði sl. skiptist þannig eftir svæðum og kyni.



Konur

Karlar

Alls


Svæði:

%

%

%



Höfuðborgarsvæðið      7
,3 5 ,6
6 ,3
Landsbyggðin      7
,8 5 ,4
6 ,3
Vesturland      9
,3 5 ,4
6 ,9
Vestfirðir      5
,2 3 ,2
4 ,0
Norðurland vestra      7
,7 5 ,6
6 ,4
Norðurland eystra      8
,5 7 ,5
7 ,9
Austurland      6
,3 5 ,6
5 ,9
Suðurland      8
,2 4 ,7
6 ,1
Suðurnes      7
,7 4 ,1
5 ,5

Landið allt      7
,5 5 ,5
6 ,3

    Að meðaltali eru um 59% atvinnulausra á höfuðborgarsvæðinu og 41% á landsbyggðinni. Á Norðurlandi eystra eru 12% atvinnulausra að meðaltali, 7% á Suðurlandi, 6% á Vesturlandi, 5% á Suðurnesjum, 4% á Austurlandi og á Norðurlandi vestra og 3% eru á Vestfjörðum.

Breytingar á fjölda atvinnulausra í lok mánaðar.
    Í lok marsmánaðar voru 7.989 á atvinnuleysisskrá á landinu, þar af voru 4.090 karlar og 3.899 konur. Atvinnulausum í lok mars fækkar um 132 miðað við mánuðinn á undan. Þar af fækkar körlum um 95 en konum fjölgar um 37.
    Í lok mánaðar fækkar atvinnulausum á skrá um 107 á Austurlandi, um 88 á höfuðborgarsvæðinu, um 31 á Vesturlandi og um 7 á Suðurlandi. Hins vegar fjölgar um 43 á Vestfjörðum, um 32 á Suðurnesjum, um 22 á Norðurlandi vestra og um 4 á Norðurlandi eystra.

Vísbendingar um atvinnuleysi næsta mánaðar.
    Breytingar á fjölda í lok mánaðar benda ekki til að verulega dragi úr atvinnuleysi í apríl. Atvinnuleysi minnkar jafnan nokkuð milli mars og apríl þegar ýmsir atvinnuhópar komast út úr árstíðabundnu atvinnuleysi. Nokkuð hefur þó dregið úr þeirri árstíðasveiflu undanfarin ár, m.a. vegna veiðibanns í aprílmánuði en þorskveiðibannið nú er frá 11.–25. apríl. Þá er kvótastaðan víða farin að hafa áhrif, en á móti vegur ágæt veiði sumra annarra tegunda eins og úthafskarfa í aprílmánuði. Átaksverkefni eru nú víða að fara í gang og ætti það að létta eitthvað á atvinnuleysinu, einkum á höfuðborgarsvæðinu þar sem veiðibannið hefur þar minni áhrif.
    Búast má því við að atvinnuleysi minnki eitthvað í aprílmánuði víðast hvar á landinu og geti orðið á bilinu 5,5–6,0% í mánuðinum. Atvinnuástandið gæti skánað nokkuð á höfuðborgarsvæðinu, Austurlandi og Suðurlandi en ef til vill síður á Vestfjörðum, Vesturlandi, Norðurlandi vestra og Suðurnesjum. Meiri óvissa ríkir um Norðurland eystra vegna atvinnuástandsins á Akureyri. Atvinnulausum í lok aprílmánaðar ætti einnig að fækka nokkuð miðað við lok marsmánaðar.





REPRÓ 2 síður.