Ferill 470. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 470 . mál.


1029. Nefndarálit



um frv. til l. um Þjóðarbókhlöðu.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið sem kveður á um sameiningu Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns í eina stofnun. Á fund nefndarinnar komu frá menntamálaráðuneyti Árni Gunnarsson skrifstofustjóri, Örlygur Geirsson skrifstofustjóri og Stefán Stefánsson deildarstjóri, Egill Skúli Ingibergsson, formaður samstarfsnefndar um nýtt þjóðbókasafn, Einar Sigurðsson háskólabókavörður, Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður, Vésteinn Ólason, prófessor við Háskóla Íslands, Anna Elín Bjarkadóttir frá Bókavarðafélagi Íslands, Ólöf Benediktsdóttir frá Félagi bókavarða í rannsóknarbókasöfnum, Guðrún Pálsdóttir frá Félagi bókasafnsfræðinga, Andrea Jóhannsdóttir og Áslaug Agnarsdóttir frá Háskólabókasafni, Sjöfn Kristjánsdóttir og Ingibjörg Gísladóttir frá Landsbókasafni.
    Þá studdist nefndin við umsagnir frá Bókavarðafélagi Íslands, Félagi bókasafnsfræðinga, Félagi bókavarða í rannsóknarbókasöfnum, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Kennaraháskóla Íslands, Landsbókasafni Íslands, Sigurði Líndal, prófessor við Háskóla Íslands, starfsmönnum Háskólabókasafns og Landsbókasafns og Vísindaráði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting að safnið beri heitið „Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn“. Erfitt er að mæla fyrir um rithátt heitisins í lagatexta en nefndin leggur til að „Landsbókasafn Íslands“ verði aðalheiti safnsins en undir því komi „Háskólabókasafn“ með smærra letri. Nefndin lítur svo á að ekki sé heppilegt að nota orðið „Þjóðarbókhlaða“ þar sem það er heiti hússins sem mun hýsa hið nýja safn. Þá telur nefndin æskilegt að hinu rótgróna nafni „Landsbókasafn Íslands“ verði við haldið með þessum hætti. Jafnframt telur nefndin rétt að nafn Háskólabókasafns verði tengt aðalheitinu þar sem starfsemi nýja safnsins mun öðrum þræði byggjast á þeirri starfsemi sem í dag fer fram í Háskólabókasafni og annað meginhlutverk hins sameinaða safns er að sinna þörfum háskóla. Nefndin telur að hið tvíþætta hlutverk, sem hinu nýja safni er ætlað að gegna, endurspeglist vel í heitinu Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn. Safninu er í senn ætlað að vera bókasafn sem sinnir þjónustu við almenning og rannsóknar- og háskólabókasafn sem leitast við að sinna sem best þeim sem leggja stund á háskólanám. Nefndin telur afar mikilvægt að bæði þessi hlutverk verði rækt af kostgæfni.
    Breytingar, sem lagðar eru til á 2. gr., eru af tvennum toga. Annars vegar er lagt til að starfsheiti forstöðumanns hins nýja safns verði „landsbókavörður“ í samræmi við tillögu sem gerð er í 1. tölul. um breytingu á nafni safnsins. Hins vegar er lagt til að 5. mgr. 2. gr. verði felld brott úr ákvæðinu og að efni til flutt í almennt reglugerðarákvæði í 12. gr. þar sem það er talið eiga betur heima.
    Lagt er til að 3. gr. verði breytt með þeim hætti að forsenda skipunar í stöðu landsbókavarðar verði að stjórn bókasafnsins telji viðkomandi hæfan til að gegna embættinu. Nefndin leggur ekki til að gerðar verði tilteknar menntunarkröfur þar sem fjölbreytt menntun og reynsla getur nýst í starfinu en telur á hinn bóginn að fagleg hæfni landsbókavarðar verði að vera ótvíræð.
    Lagt er til að 4. gr. verði breytt með þeim hætti að landsbókavörður ráði aðstoðarlandsbókavörð. Nefndin telur mikilvægt að góð tengsl séu milli yfirmanna stofnunarinnar og að landsbókavörður fái með þessum hætti tækifæri til að ráða við hlið sér þann mann sem hann treystir best til starfans. Þá telur nefndin að með þessu gefist svigrúm til að ráða í stöðurnar fólk með mismunandi menntun. Þannig mætti hugsa sér að aðra stöðuna skipi t.d. maður með sérfræðiþekkingu á sviði bókasafnsfræði en hina stöðuna maður með menntun og reynslu á sviði stjórnunar. Lagt er til að einungis verði ráðinn maður sem stjórn bókasafnsins metur hæfan.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 7. gr. Breytingar, sem lagðar eru til á 8. og 10. tölul., eru til einföldunar en með breytingunni sem lögð er til á 13. tölul. er lögð áhersla á að þjónustu við lista- og menningarmál verði sinnt vel.
    Lagt er til að kaflafyrirsögn III. kafla verði breytt til samræmis við breytta skipan ákvæða í kaflanum, sbr. 7. tölul., og að ákvæðum varðandi fjárhagsmálefni verði einum skipað í sérstakan kafla með því heiti.
    Lagt er til að 11. gr. og þeim ákvæðum sem á eftir koma verði skipað í nýjan kafla sem ber heitið „Ýmis ákvæði“, sbr. breytingu sem skýrð er í 6. tölul.
    Lagt er til að 5. mgr. 2. gr. verði felld inn í 12. gr. frumvarpsins þar sem efni ákvæðisins er talið eiga betur heima.
    Lagt er til að í 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins, um réttarstöðu starfsmanna, verði skýrt kveðið á um það að um þá gildi 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ákvæðið felur í sér að starfsmenn Landsbókasafns og Háskólabókasafns eigi að öðru jöfnu forgangsrétt til starfa í hinu nýja safni. Kjósi starfsmenn af einhverjum ástæðum að þiggja ekki störf í hinu nýja sameinaða safni er þeim tryggður réttur til biðlauna skv. 14. gr. laga nr. 38/1954, í mislangan tíma eftir starfsaldri.
    Enn fremur vill nefndin leggja áherslu á eftirfarandi: Menntamálanefnd hefur í vetur fjallað um þingsályktunartillögu um varðveislu tónlistararfs í Þjóðbókasafni Íslands. Í umfjöllun um frumvarp til laga um Þjóðarbókhlöðu kom fram að fyrirhugað væri að leggja rækt við þennan þátt í starfsemi hins nýja safns og telur nefndin mikilvægt að það verði gert með þeim hætti sem yfirmenn safnsins telja hagkvæmast. Að lokum skal þess getið að í umræðum um frumvarp til laga um Þjóðarbókhlöðu kom fram að nefndarmenn leggja ríka áherslu á að safnahúsið við Hverfisgötu hýsi í framtíðinni safna- og menningarstarfsemi.

Alþingi, 20. apríl 1994.



Sigríður A. Þórðardóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Árni Johnsen.


form., frsm.



Svavar Gestsson.

Petrína Baldursdóttir.

Ólafur Þ. Þórðarson.



Björn Bjarnason.

Tómas Ingi Olrich.

Kristín Ástgeirsdóttir.