Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 158 . mál.


1063. Nefndarálit



um frv. til l. um sérstaka fjáröflun til varna gegn ofanflóðum og um breytingu á kostnaðarhlut sveitarfélaga.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Fékk hún á fund sinn frá félagsmálaráðuneytinu Berglind Ásgeirsdóttur ráðuneytisstjóra, Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og Sesselju Árnadóttur lögfræðing, Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, Guðjón Petersen, framkvæmdastjóra Almannavarna ríkisins, og frá Viðlagatryggingu Íslands Geir Zoëga framkvæmdastjóra og Ásgeir Ásgeirsson ritara. Þá bárust nefndinni umsagnir á 116. löggjafarþingi frá bæjarstjórnum Siglufjarðar, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Neskaupstaðar, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Ísafjarðar og Vestmannaeyja, hreppsnefndum Tálknafjarðar, Bíldudalshrepps og Flateyrarhrepps, frá Veðurstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Viðlagatryggingu Íslands og Almannavörnum ríkisins. Voru umsagnirnar almennt jákvæðar.
    Lögin um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum eru frá árinu 1985 og er ljóst að þau þarfnast endurskoðunar. Tekjur ofanflóðasjóðs hafa á undanförnum árum dugað til að greiða lögbundinn hlut sjóðsins í þeim varnarvirkjum gegn snjóflóðum sem ráðist hefur verið í. Fyrirsjáanlegt er að á þessu verði breyting eftir því sem hættumötum fjölgar og kröfur aukast um framkvæmdir. Er ljóst að talsvert mun skorta á að ofanflóðasjóður geti fjármagnað þær framkvæmdir sem sveitarfélög vilja ráðast í á þessu sviði á komandi árum.
    Á Vestfjörðum hafa nýlega fallið snjóflóð á svæðum sem áður hafa ekki verið metin sem hættusvæði. Í framhaldi af því beinist sérstök athygli að gerð hættumata og rannsóknum í tengslum við þau. Skömmu eftir atburðina á Vestfjörðum samþykkti ríkisstjórnin að beita sér fyrir endurskoðun laganna um varnir gegn snjóflóðum og skipa nefnd sem meti reynsluna af framkvæmd laganna og beini sérstakri athygli að gerð hættumata, forvörnum og rannsóknum og hvernig auka megi fjármagn til ofanflóðavarna.
    Félagsmálanefnd leggur áherslu á að endurskoðun laganna verði hraðað og stefnt að því að frumvarp þar um verði lagt fram í haust. Eðlilegt er, í ljósi þessarar endurskoðunar laganna, að efni þess frumvarps, sem hér liggur fyrir, verði tekið til athugunar við þá endurskoðun og leggur því nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 26. apríl 1994.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Ingibjörg Pálmadóttir.


form., frsm.



Eggert Haukdal.

Kristinn H. Gunnarsson.

Jón Kristjánsson.



Einar K. Guðfinnsson.

Guðjón Guðmundsson.

Sigbjörn Gunnarsson.