Ferill 551. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 551 . mál.


1094. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Á 116. löggjafarþingi fjallaði nefndin um frumvarp til laga sem fól í sér gagnkvæma viðurkenningu á menntun og prófskírteinum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá tóku undirritaðir nefndarmenn þá afstöðu að sitja hjá við afgreiðslu málsins enda þeirrar skoðunar að nær væri að miða slíka viðurkenningu við heiminn allan ef vilji væri til að opna íslenskan vinnumarkað með þessum hætti. Undirritaðir nefndarmenn sáu þá og sjá ekki enn ástæðu til að mismuna fólki eftir því hvort það telst íbúar þeirra Evrópuríkja, sem sameinast hafa um efnahagssvæði, eða annarra ríkja með þeim hætti sem gert er í lögum þessum.
    Á síðasta þingi voru lögteknar ákveðnar tilskipanir frá Evrópusambandinu um gagnkvæma viðurkenningu menntunar og prófa og nú bætast tvær tilskipanir við. Þetta dæmi úr menntamálanefnd sýnir hvernig lagasetningu verður háttað meðan EES-samningurinn verður í gildi, tilskipanir streyma frá reglugerðarveldinu í Brussel og Alþingi Íslendinga á ekki annarra kosta völ en að samþykkja þær.
    Undirritaðir nefndarmenn telja að allt of skammur tími hafi gefist til að vinna frumvarpið og að full ástæða hefði verið til að kalla á fund nefndarinnar fulltrúa þeirra hópa sem hinar nýju tilskipanir frá Evrópusambandinu ná til, en þeir standa auðvitað frammi fyrir gerðum hlut.
    Þá vill minni hlutinn gagnrýna þá hvimleiðu aðferð í lagasetningu að vísa til númera á tilskipunum Evrópubandalagsins í stað þess að tiltaka í lögunum hvað í þeim felst.
    Undirritaðir nefndarmenn, sem voru og eru andstæðingar samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, geta ekki samþykkt lagasetningu af þessu tagi og munu sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. apríl 1994.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Svavar Gestsson.


frsm.