Ferill 547. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 547 . mál.


1135. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á fund til sín Steingrím Ara Arason, Snorra Olsen og Ingibjörgu Þorsteinsdóttur frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Íslenskri verslun, Samtökum iðnaðarins og Verslunarráði. Þá barst nefndinni einnig umsögn iðnaðarnefndar um málið og er hún birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu. Þar kemur fram að ýmsir vankantar séu á frumvarpinu eins og það liggur fyrir en iðnaðarnefnd mælir þó með samþykkt þess.
    Nefndin telur rétt að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 29. apríl 1994.



Halldór Ásgrímsson,

Vilhjálmur Egilsson.

Rannveig Guðmundsdóttir.


form., frsm.



Kristín Ástgeirsdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon.

Guðjón Guðmundsson.



Sólveig Pétursdóttir.

Ingi Björn Albertsson.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.





Fylgiskjal.


Umsögn iðnaðarnefndar.


(28. apríl 1994.)



    Með bréfi, dags. 13. apríl 1994, óskaði efnahags- og viðskiptanefnd eftir umsögn iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, 547. mál þingsins (undirboðs- og jöfnunartollar).
    Iðnaðarnefnd hefur fjallað um frumvarpið og fékk til viðræðna um málið Margréti Björnsdóttur, aðstoðarmann iðnaðarráðherra, Pál Ásgrímsson, lögfræðing í iðnaðarráðuneyti, Indriða Þorláksson, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneyti, og Ingibjörgu Þorsteinsdóttur, lögfræðing í fjármálaráðuneyti.
    Iðnaðarnefnd telur að það sé til bóta að koma þeim ákvæðum, sem felast í frumvarpinu, í íslenska löggjöf en telur jafnframt að frumvarpið sé því miður of óljóst í þeim búningi sem það er í nú. Nefndin óttast að það ferli, sem kveðið er á um í frumvarpinu, taki of langan tíma, þ.e. frá því að grunur vaknar um undirboð og þar til úrskurður verður felldur í málinu. Iðnaðarnefnd telur til bóta að gert er ráð fyrir því í nefnd að neitunarvald utanríkisráðuneytis falli brott úr frumvarpinu en upplýsingar um það komu fram á fundi iðnaðarnefndar. Nefndin óskaði eftir því að tilgreind yrðu dæmi um í hvaða tilvikum frumvarpið hefði orðið að gagni við að stöðva undirboð hefði það orðið að lögum fyrr. Engin svör fengust.
    Með hliðsjón af því að skammt er til þingloka telur nefndin rétt að samþykkja meginstefnu frumvarpsins um álagningu undirboðs- og jöfnunartolla. Nefndin bendir engu að síður á að æskilegt hefði verið að búa betur um hnútana í frumvarpinu og óttast að frumvarpið muni ekki, þó að lögum verði, koma iðnaðinum að þeim notum sem forsvarsmenn hans virðast gera ráð fyrir.

F.h. iðnaðarnefndar,



Svavar Gestsson,


form.