Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 40 . mál.


1137. Nefndarálit



um till. til þál. um mat á umhverfisáhrifum nýrrar lagasetningar.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna sem felur í sér að mat á hugsanlegum umhverfisáhrifum nýrrar löggjafar fylgi stjórnarfrumvörpum.
    Nefndin aflaði sér upplýsinga um fyrirkomulag í þessu efni í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í öllum löndunum hefur verið hugað að þessu atriði. Danir hafa þegar sett reglur í þessum efnum eins og nánar er lýst hér á eftir. Í Noregi er nú unnið að gerð svipaðra reglna fyrir stjórnsýsluna þar sem kveðið er á um að taka skuli tillit til umhverfisþátta við undirbúning frumvarpa auk fjárhagslegra sjónarmiða. Fyrir sænska þinginu liggur nú frumvarp sem gerir ráð fyrir því sem meginreglu að mat á umhverfisáhrifum fylgi lagafrumvörpum.
    Danir byggja framkvæmd sína á reglugerð forsætisráðuneytis og verklagsreglum sem umhverfisráðuneytið hefur sett á grundvelli þeirra. Fyrirmæli forsætisráðuneytisins fela í sér að lýsing á umhverfisáhrifum skuli fylgja öllum stjórnarfrumvörpum sé lögfesting þeirra talin hafa veruleg áhrif á umhverfið. Einstök fagráðuneyti eiga að meta hvort svo sé. Í fyrirmælunum segir að lýsa skuli hugsanlegum áhrifum löggjafarinnar á heilbrigði og öryggi, dýra- og jurtalíf, vatn, andrúmsloft og landslag. Tekið er fram að matið skuli vera innan framkvæmanlegra marka og ekki svo umfangsmikið að koma þurfi á fót nýjum stjórnsýsluaðila til að vinna það. Í riti danska umhverfisráðuneytisins er nánar kveðið á um það hvernig mat á umhverfisáhrifum í kjölfar lagasetningar skuli unnið. Þar segir að meta skuli bæði jákvæð og neikvæð áhrif löggjafar á umhverfið. Viðkomandi fagráðuneyti eigi að kanna sérhvert lagafrumvarp með tilliti til þess og hefur ráðuneytið tekið saman ítarlegan lista þar sem tiltekin eru viðmiðunaratriði sem hafa ber í huga.
    Minni hlutinn mælir með samþykkt þingsályktunartillögunar og telur m.a. rétt að byggja á þeirri reynslu sem þegar er fengin í nágrannalöndum.
    Við lok umfjöllunar um tillöguna í nefndinni kom ekki fram andstaða við efni tillögunnar. Meiri hlutinn lagðist hins vegar gegn afgreiðslu hennar með vísan til þess að von væri á frumvarpi frá ríkisstjórninni þar sem m.a. væri gert ráð fyrir svipuðu fyrirkomulagi og tillagan gerir ráð fyrir. Frumvarp þetta yrði þó aðeins lagt fram til kynningar að þessu sinni. Minni hlutinn gagnrýnir þessa afstöðu og telur hana afar ómálefnalega. Eðlilegt er að vilji Alþingis komi fram í þessu máli fyrr en seinna.

Alþingi, 2. maí 1994.



Kristín Einarsdóttir,

Jón Helgason.

Hjörleifur Guttormsson.


form., frsm.



Ólafur Ragnar Grímsson.