Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 452 . mál.


1140. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993, sbr. lög nr. 115/1193.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft til athugunar frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1993. Í frumvarpinu kemur fram að greiðslur úr ríkissjóði séu nettó 4.414,5 millj. kr. lægri en heimildir gerðu ráð fyrir. Minni hluti nefndarinnar bendir á að fjáraukalög voru samþykkt í desember sl. og í ljósi þess eru frávik við endanlegt greiðsluuppgjör mjög mikil. Enn fremur bendir minni hlutinn á að þær fjárhæðir, sem yfirfærðar eru á milli ára, hafa farið verulega vaxandi, en yfirfærsla fjármuna frá árinu 1993–94 nemur 1,9 milljörðum kr.
    Fjárlaganefnd óskaði eftir upplýsingum um ýmsa þætti frumvarpsins og bárust svör seint. Óskað var eftir afstöðu fjármálaráðuneytisins er varðar bréf frá ASÍ, dags. 23. febrúar 1994, sem er athugasemdir við framlög til atvinnuskapandi framkvæmda af hálfu ríkisstjórnar. Svar hefur enn ekki borist. Í bréfi ASÍ er því haldið fram að allt að 1.800 millj. kr. vanti upp á að staðið sé við gefin fyrirheit.
    Minni hlutinn hafði fengið þær upplýsingar að lækkun rekstrarútgjalda sjúkrahúsanna í Reykjavík frá árinu 1991–93 næmi um 600 millj. kr. Í bréfi fjármálaráðuneytisins frá 7. apríl sl. kemur fram að lækkunin er aðeins 390 millj. kr. þegar tekið hefur verið tillit til flutnings á verkefnum á tímabilinu. Þá er í svari ráðuneytisins tekið fram að aðeins er miðað við greiðslutölur en ekki raunveruleg rekstrarútgjöld stofnana. Því geti aukafjárveitingar vegna rekstrarhalla fyrri ára átt eftir að skekkja myndina. Má telja eins víst að svo sé og raunverulegur sparnaður því enn minni en þessar tölur segja til um.
    Minni hlutinn telur nauðsynlegt að betri og nákvæmari upplýsingar liggi fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga seinni hluta árs þannig að frávik á endanlegu uppgjöri verði innan þeirra marka sem eðlilegt getur talist.
    Í ljósi framanritaðs hefur minni hlutinn ákveðið að sitja hjá við atkvæðagreiðslu.

Alþingi, 27. apríl 1994.



Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,

Margrét Frímannsdóttir.

Jón Kristjánsson.


frsm.



Guðmundur Bjarnason.

Guðrún Helgadóttir.





Fylgiskjal.

Athugasemdir við framlög til framkvæmda


af hálfu ríkisstjórnar.


(23. febrúar 1994.)



    Í beinu framhaldi af bæði fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins frá 19. janúar sl. (nr. 3/1994) og fundar með starfsmönnum ráðuneytisins 3. febrúar hefur komið í ljós að nokkuð vantar á að framlög til framkvæmda séu í samræmi við þær forsendur og yfirlýsingar sem lágu til grundvallar framlengingu kjarasamninga í nóvember sl. Enn fremur er þetta ekki í neinu samræmi við þá fréttatilkynningu sem ráðuneytið gaf út í byrjun febrúar sl. þar sem fram kom að einungis 326 millj. kr. væru ónýttar af framlögum til framkvæmda á sl. ári. Þetta kemur berlega í ljós í meðfylgjandi töflu.
    Varðandi árið 1993 var út frá því gengið að viðhald og stofnkostnaður á vegum ríkisins yrði 17.000 millj. kr. en samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Ríkisbókhalds voru útgjöldin aðeins um 15.700 millj. kr. Miðað við þessar upplýsingar vantar því rúmlega 1.300 millj. kr. á að staðið hafi verið við yfirlýsingu ríkisstjórnar vegna ársins 1993 frá því við gerð kjarasamninganna í maí 1993. Athygli er vakin á því að við endurskoðun kjarasamninga var gengið út frá því að útgjöld ríkissjóðs vegna þessara málaflokka yrðu um 16.445 millj. kr. (sbr. bréf hagdeildar ASÍ frá 8. október 1993) eða um 900 millj. kr. meiri en raunin varð á.
    Hvað varðar árið 1994 hefur verið tekið tillit til tveggja atriða miðað við þær fjárhæðir sem fram koma í fjárlögum fyrir árið 1994. Annars vegar hefur verið tekið tillit til verðuppfærslu milli áranna 1993 og 1994 (2,5% miðað við forsendur fjárlaga) en yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá því í maí 1993 miðaði við verðlag ársins 1993. Hins vegar hefur verið bætt við þessa fjárhæð samkvæmt því samkomulagi sem gert var við framlengingu kjarasamninga í nóvember 1993. Með þessu samkomulagi var ákveðið að telja framlög sveitarfélaga til Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna átaksverkefna (500 millj. kr.) og áætlað framkvæmdamagn vegna jarðgangagerðar undir Hvalfjörð sem hluta af þessu framkvæmdamagni. Að teknu tilliti til þessara atriða þykir einsýnt að um 440 millj. kr. vanti á framlög til framkvæmda á árinu 1994.
    Ef litið er á bæði árin er því ljóst að í heild vantar um 1.780 millj. kr. til þess að ríkisstjórnin hafi staðið við yfirlýsingar sínar bæði við gerð kjarasamninga í maí og við framlengingu þeirra í nóvember.


Viðmiðun

1993                

1994       

Samtals umfram


(Upphæðir eru í þús. kr.)

í samningum

  (á verðlagi ársins)  (á verðlagi ársins)          

viðmiðun     



Yfirlýsing ríkisstjórnar     

14.000

17.000

16.400

5.400


Framkvæmd ríkisstjórnar     

14.000

15.664

15.960

3.624


Frávik:     

-1.336

  -440

-1.776




Skýringar við fjárhæðir í töflu:
1993
Viðhald     
3.422

Stofnkostnaður     
11.242

Samtals     
15.664


1994
Viðhald á verðlagi 1994     
3.132

Stofnkostnaður á verðlagi 1994     
11.828

Samtals á verðlagi 1994     
14.960

Samkomulag vegna framlengingar     
1.000

Samtals viðmiðun vegna 1994     
15.960