Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 537 . mál.


1146. Nefndar

álit

um till. til þál. um fullgildingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 47 og tilteknum viðaukum við EES-samninginn.

Frá 2. minni hluta utanríkismálanefndar.



    Frá því að Alþingi afgreiddi samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hefur sú breyting orðið að önnur EFTA-ríki en Ísland, sem aðild eiga að EES-samningnum, hafa ákveðið að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Allar líkur eru því á að Evrópska efnahagssvæðið líði undir lok innan fárra mánaða.
    Á sama tíma hefur ríkisstjórnin því miður vanrækt að undirbúa viðræður við Evrópusambandið um hvað taki við í samskiptum Íslands og sambandsins í ljósi þessarar þróunar. Þessi vanræksla er því ámælisverðari að 5. maí 1993 samþykkti Alþingi samhljóða að fela ríkisstjórninni að undirbúa viðræður við Evrópusambandið (þá Evrópubandalagið) um tvíhliða samskipti þess og Íslands og var þá sérstaklega haft í huga að Austurríki, Finnland, Noregur og Svíþjóð höfðu sótt um aðild að Evrópusambandinu.
    Á síðustu vikum hafa komið í ljós mismunandi áherslur hjá forsætisráðherra og utanríkisráðherra um hvernig Ísland skuli bregðast við þeirri þróun sem orðið hefur vegna fyrirhugaðrar stækkunar Evrópusambandsins sem og hvernig standa eigi að viðræðum við sambandið, bæði hvað varðar efnisatriði slíkra viðræðna og hvenær þær skuli fara fram.
    Í þeim gerðum, sem vísað er til í tillögunni, er um að ræða fjölmörg og ólík efnisatriði. Alþingi hefur aðeins gefist mjög takmarkaður tími til að fara yfir þessar gerðir og fjalla um efnisatriði þeirra.
    Í ljósi alls þessa er það skoðun 2. minni hluta að ekki sé tímabært að afgreiða fullgildinguna á þessu þingi áður en nokkuð liggur fyrir hvernig stjórnvöld hyggjast á næstunni vinna að nauðsynlegum breytingum á skipan framtíðarsamskipta Íslands og Evrópusambandsins. Annar minni hluti leggur því til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Verði ekki fallist á þessa málsmeðferð munu þingmenn Alþýðubandalagsins sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. maí 1994.



Ólafur Ragnar Grímsson.