Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 537 . mál.


1167. Nefndar

álit

um till. til þál. um fullgildingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 47 og tilteknum viðaukum við EES-samninginn.

Frá 3. minni hluta utanríkismálanefndar.



    Með afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu lýkur lögfestingu EES-samningsins að mestu leyti. Þær viðbótargerðir, sem Íslendingar skuldbinda sig til að hlíta samkvæmt henni, eru óaðskiljanlegur hluti samningsins þar sem Íslendingar eiga ekki annarra kosta völ en að fella þær inn í lög og reglugerðir án athugasemda, líkt og EES-samninginn. Auk þeirra rúmlega 400 gerða, sem Íslendingar undirgangast samkvæmt þessari þingsályktunartillögu, má vænta örfárra gerða í viðbót samkvæmt upplýsingum er Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra veitti nefndinni. Þessi viðbótarpakki er að því leyti ólíkur þeim gerðum sem á eftir koma að Íslendingar koma hvergi nærri vinnslu þeirra gerða sem í honum eru og hafa því ekki einu sinni formlega séð möguleika á að hafa áhrif á efni þeirra. Þótt hæpið sé að Íslendingar megi sín mikils þegar ákvarðanir eru teknar um þær viðbótargerðir, sem tilheyra munu Evrópska efnahagssvæðinu, eiga þeir rétt á að fylgjast með og láta skoðun sína á þeim í ljós á undirbúningsstigi. Því er hins vegar ekki til að dreifa varðandi efni þessarar þingsályktunartillögu. Þriðji minni hluti mun því greiða atkvæði gegn þessari þingsályktunartillögu í samræmi við afstöðu sína til annarra hluta EES-samningsins.
    Þriðji minni hluti vekur einnig athygli á að möguleikar þingmanna eru næsta litlir til að kynna sér svo viðunandi sé efni þeirra liðlega 400 gerða sem Ísland er samkvæmt þessari þingsályktunartillögu skuldbundið til að fella inn í íslensk lög og reglugerðir. Á fund utanríkismálanefndar komu fjölmargir gestir til að upplýsa nefndina um einstaka málaflokka er heyra undir Evrópska efnahagssvæðið en sú yfirferð var allsendis ófullnægjandi þrátt fyrir góðan vilja utanríkismálanefndar og gesta hennar til að fá yfirsýn yfir málið. Þriðji minni hlutinn er ósáttur við slík vinnubrögð bæði nú og við lögfestingu meginefnis EES-samningsins.
    Þriðji minni hluti tekur ekki afstöðu til einstakra gerða í þessu áliti enda eru þær margvíslegar, sumar til bóta en aðrar til hins verra. Þriðji minni hluti minnir hins vegar á að Íslendingar þurfa ekki að eiga aðild að EES til að taka í lög og reglugerðir það sem til bóta getur talist.

Alþingi, 2. maí 1994.



Anna Ólafsdóttir Björnsson.