Ferill 123. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 123 . mál.


1174. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fund hennar komu Steingrímur Ari Arason og Snorri Olsen frá fjármálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá ASÍ, BHMR, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Tryggingastofnun ríkisins.
    Nefndin telur sig ekki geta staðið að samþykkt frumvarpsins í óbreyttri mynd og leggur því til breytingar sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Annars vegar er þar um að ræða frestun á gildistöku, en aðalbreytingin felst í því að fella VI. kafla laganna, sem fjallar um atvinnuleysisbætur, brott.
    Með lögum nr. 54/1993, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, var réttur til atvinnuleysisbóta gerður almennur og ekki bundinn við aðild að stéttarfélagi. Með því að fella niður VI. kafla laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, mun réttur opinberra starfsmanna sjálfkrafa fara eftir lögum nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, en nú taka þau lög ekki til þeirra sem tryggður er réttur til atvinnuleysisbóta með öðrum lögum, sbr. 1. gr. Í frumvarpinu eins og það liggur fyrir er gert ráð fyrir að réttur til atvinnuleysisbóta samkvæmt síðastnefndu lögunum takmarkist við starfsmenn sveitarfélaga og stofnana þeirra. Nefndin telur nauðsynlegt að hið sama gildi um báða þessa hópa, enda eru vandamál varðandi bótarétt einstaklinga, sem unnið hafa hjá ríkinu og verða atvinnulausir, sambærileg þeim vandamálum sem upp hafa komið hjá sveitarfélögum. Þannig hafa orðið deilur um það hvort ríkissjóður eða Atvinnuleysistryggingasjóður eigi að greiða bætur einstaklingum sem unnið hafa hjá ýmsum sjálfseignarstofnunum sem notið hafa framlaga frá ríkinu. Þá má segja að sú breyting, sem lögð er til, sé mjög eðlileg í kjölfar setningar laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, ásamt þeim breytingum sem gerðar voru á þeim með lögum nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum. Samkvæmt lögum um tryggingagjald er bæði ríki og sveitarfélögum gert að standa skil á umtalsverðum fjárhæðum til Atvinnuleysistryggingasjóðs og því eðlilegt að sérstök ábyrgð þeirra á greiðslum atvinnuleysisbóta sé afnumin.
    Það leiðir af þessum breytingum að nauðsynlegt verður að endurskoða næsta haust lög nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, sérstaklega hvað varðar skipun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Alþingi, 3. maí 1994.



Halldór Ásgrímsson,

Vilhjálmur Egilsson.

Steingrímur J. Sigfússon.


form., frsm.



Kristín Ástgeirsdóttir.

Guðjón Guðmundsson.

Rannveig Guðmundsdóttir.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Sólveig Pétursdóttir.

Ingi Björn Albertsson.