Ferill 557. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 557 . mál.


1191. Nefndarálit



um frv. til l. um húsaleigubætur.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund til viðræðna frá félagsmálaráðuneytinu Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra, Inga Val Jóhannsson deildarstjóra og Elínu S. Jónsdóttur lögfræðing, Sigurð Helga Guðjónsson hæstaréttarlögmann, Einar Inga Magnússon, aðstoðarfélagsmálastjóra í Hafnarfirði, Gísla Gíslason, bæjarstjóra á Akranesi, Hallgrím Guðmundsson, bæjarstjóra í Hveragerði, Sigurð E. Guðmundsson, Hilmar Þórisson og Magnús Norðdahl frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, Reyni Ingibjartsson og Jón Kjartansson frá Leigjendasamtökunum (Reynir var einnig fulltrúi fyrir Búseta), Gylfa Arnbjörnsson og Ásmund Hilmarsson frá Alþýðusambandi Íslands, Pál Halldórsson og Birgi Björn Sigurjónsson frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Ögmund Jónasson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Guðna Aðalsteinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Árna Benediktsson frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga. Þá bárust nefndinni einnig umsagnir um frumvarpið frá bæjarstjórnum Stykkishólms, Borgarness, Akraness, Njarðvíkur, á Selfossi og Akureyri, borgarstjórn Reykjavíkur, félagsmálastjóranum á Seltjarnarnesi, Vinnuveitendasambandi Íslands, Búseta, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Leigjendasamtökunum, Húseigendafélaginu, Alþýðusambandi Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali:
    Að óbreyttu gerir frumvarpið ekki ráð fyrir að námsfólk, sem stundar nám fjarri heimabyggð sinni, eigi rétt til húsaleigubóta þar sem gert er að skilyrði að rétthafi eigi lögheimili þar sem hann býr. Meðal annars með tilliti til þess að gildandi lög um lögheimili, nr. 21/1990, veita námsmönnum undanþágu frá meginreglu þeirra laga um að menn eigi lögheimili þar sem þeir hafa fasta búsetu er lögð til breyting á skilyrðum 5. gr. frumvarpsins, um rétt til húsaleigubóta. Þannig verði gerð sérstök undanþága frá skilyrðum 1. mgr. um lögheimilisskráningu í hinni leigðu íbúð þegar um námsmann er að ræða sem á skráð aðsetur utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst. Ber þá námsmanni að sækja um bætur til þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili en skilyrði er að það sveitarfélag hafi tekið ákvörðun um greiðslu húsaleigubóta, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að 3. mgr. 6. gr. breytist þannig að bætur vegna ungmenna greiðist þar til þau ná 18 ára aldri, en að óbreyttu miðast frumvarpið við 16 ára aldurshámark. Þykir 18 ára aldur vera raunhæfara viðmið með tilliti til framfærslusjónarmiða. Notað er hugtakið „ungmenni“ til samræmis við hugtakaskilgreiningar laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992.

Alþingi, 3. maí 1994.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Einar K. Guðfinnsson.


form., frsm.



Eggert Haukdal.

Guðjón Guðmundsson.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


með fyrirvara.



Jón Kristjánsson,

Ingibjörg Pálmadóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.