Ferill 557. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 557 . mál.


1234. Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um húsaleigubætur.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin kom saman á ný eftir að annarri umræðu um málið var frestað. Í þeirri umræðu kom fram mikill vilji til að mál þetta yrði athugað nánar. Ekki náðist þó samstaða í nefndinni um breytingar á frumvarpinu.
    Minni hlutinn telur ljóst að markmiðum húsaleigubóta verður ekki náð nema jafnhliða þeim leiðum varðandi greiðslur og fyrirkomulag húsaleigubóta, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, verði hugað að öðrum þáttum. Minni hlutinn telur sig því knúinn til að leggja fram breytingartillögur sem birtar eru á sérstöku þingskjali.
    Breytingartillögurnar miða annars vegar að því að eftir samþykkt þessa frumvarps verði á vegum hlutaðeigandi ráðuneyta hafin athugun á skattlagningu leigutekna, með hliðsjón af skattlagningu vaxtatekna. Verði markmiðið að hvetja til útleigu íbúða en að óbreyttu má gera ráð fyrir að frumvarpið leiði til þveröfugrar niðurstöðu í þeim efnum.
    Þá er lagt til að í öðru bráðabirgðaákvæði verði kveðið á um endurskoðun laganna með það að markmiði að húsaleigubætur verði almennur réttur en ekki verði á valdi hvers einstaks sveitarfélags að ákveða hvort það kýs að veita íbúum sínum þann rétt. Þá verði samræmdur réttur íbúðareigenda til vaxtabóta annars vegar og réttur leigjenda til húsaleigubóta hins vegar.
    Minni hlutinn vill einnig árétta að þrátt fyrir að félagsmenn Búseta eigi formlega séð rétt til vaxtabóta samkvæmt skattalöggjöf er sá réttur í raun og veru ekki fyrir hendi. Því ber brýna nauðsyn til að taka lög um tekjuskatt og eignarskatt til skoðunar þannig að tryggður verði réttur þeirra fjölmörgu fjölskyldna sem keypt hafa sér búseturétt. Að öðrum kosti mun þetta fólk bæði skorta rétt til vaxtabóta og húsaleigubóta.

Alþingi, 6. maí 1994.



Ingibjörg Pálmadóttir,

Jón Kristjánsson.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


frsm.



Kristinn H. Gunnarsson.