Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 283 . mál.


1269. Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar (VE, ÁRÁ, GHall, GunnS, EKG).



    Við 7. gr. Greinin orðist svo:
                  Á eftir 3. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
                  Óheimilt er að flytja samanlagt meira aflamark til skips á hverju fiskveiðiári en nemur aflamarki því sem skipinu var úthlutað í upphafi árs á grundvelli aflahlutdeildar sinnar. Í þessu sambandi skal aflamark metið í þorskígildum á grundvelli verðmætastuðla er ráðherra ákveður og einungis sá flutningur á aflamarki til skips sem umfram er flutning frá skipi. Við beitingu þessarar málsgreinar skal taka tillit til þeirra breytinga er orðið kunna að hafa innan fiskveiðiársins á aflahlutdeild skips.
    Við 14. gr. Greinin orðist svo:
                  Ákvæði laga þessara, önnur en 7. gr., öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda frá og með því fiskveiðiári er hefst 1. september 1994, nema 1., 10. og 12. gr. er koma til framkvæmda við gildistöku laganna. Ákvæði 7. gr. öðlast gildi 1. janúar 1996.
    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:
                  Á tímabilinu 1. september 1994 til 31. desember 1995 skulu eftirfarandi takmarkanir gilda um framsal aflamarks til viðbótar þeim takmörkunum er um ræðir í 12. gr.
                  Þegar meira en 15% af aflamarki því af einhverri tegund, sem úthlutað er til skips í upphafi fiskveiðiárs, hefur verið flutt frá skipinu er óheimilt á sama fiskveiðiári að flytja aflamark af sömu tegund til skipsins. Á sama hátt er óheimilt að flytja aflamark frá skipi þegar meira en sem svarar 15% af upphaflegu aflamarki skipsins af viðkomandi tegund hefur verið flutt til skipsins á fiskveiðiárinu. Flutningur milli skipa í eigu sömu útgerðar og jöfn skipti sæta ekki takmörkunum samkvæmt þessari málsgrein. Fiskistofu er heimilt að veita undanþágu frá banni við flutningi aflamarks frá skipi ef alvarlegar bilanir verða þess valdandi að veiðiheimildir þess nýtast ekki.
                  Aldrei er heimilt að flytja aflamark milli skipa leiði slíkur flutningur til þess að veiðiheimildir þess skips sem flutt er til verði bersýnilega umfram veiðigetu þess.