Snjóflóð í Súðavík

76. fundur
Miðvikudaginn 25. janúar 1995, kl. 15:04:32 (3516)

[15:04]
     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Þegar við komum nú til starfa eftir tæpra fjögurra vikna hlé á þingstörfum er okkur sem öðrum landsmönnum ríkir í huga sorglegir viðburðir síðastliðinnar viku. Dag eftir dag geisaði stórhríð um Vestfirði og Norðurland vestanvert. Snjóflóð féllu víða á þessum slóðum og ollu manntjóni og fjárskaða. Fimmtán manns létu lífið í þessum hamförum. Í Reykhólasveit lést aldraður maður í snjóflóði. Hörmulegast og þungbærast er það áfall sem dundi yfir byggðarlagið í Súðavík að morgni mánudagsins 16. jan. Í snjóflóðinu, sem féll yfir 15 hús í þéttbýlinu þar, létust fjórtán manns, átta börn og sex fullorðnir. Til allrar hamingju tókst að bjarga mörgum mannslífum. Björgunarlið heimamanna og aðkomufólks kostaði öllu til dag og nótt við gífurlega erfiðar aðstæður í ofsaveðri. Lof og þökk sé því afreksfólki.
    Íbúar Súðavíkur búa nú við mikinn missi, foreldrar syrgja börn sín og börn foreldra. Frænda og vina er saknað. Fólk hefur misst eigur sínar á snöggu augabragði. Vonandi er einhver huggun í almennri samúð og samhjálp. Alþingi vottar Súðvíkingum og öðrum syrgjendum innilega samúð í sorg þeirra. Guð blessi þá.
    Ég bið hv. alþingismenn að minnast þeirra sem létu líf sitt í snjóflóðunum og votta syrgjendum samúð með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]