Málefni fatlaðra

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 10:35:56 (3521)

[10:35]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég fylgi hér úr hlaði skýrslu um stöðu og þróun um málefni fatlaðra sem fyrrv. hæstv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, boðaði á liðnu ári að lögð yrði fram.
    Ég vil taka það fram í upphafi að ég hef ekki átt þess kost að halda utan um gerð þessarar skýrslu þar sem ég hafði nýlega tekið við embætti þegar skýrslan var lögð fram á Alþingi á alþjóðadegi fatlaðra í byrjun desember sl. Þó ég hefði kosið að tekið yrði með nokkuð öðrum hætti á viðfangsefninu var þess ekki kostur að fresta enn framlagningu skýrslunnar, svo mjög sem okkur var í mun að fá umræðu um þennan málaflokk en aðdragandi þess var m.a. sérstök samþykkt félmn. í tengslum við fyrsta alþjóðadag fatlaðra fyrir rúmu ári síðan.
    Skýrslan fjallar um þrjú meginatriði.
    Í fyrsta lagi er gerð grein fyrir stjórnsýslu málaflokksins einkum með tilliti til þeirra breytinga sem nýleg lög um málefni fatlaðra boðuðu.
    Í öðru lagi er fjallað um framkvæmd laganna, annars vegar varðandi þjónustu við börn og fjölskyldur fatlaðra, og hins vegar fullorðna fatlaða.
    Loks er fjallað um nokkur önnur atriði sem varpa ljósi á stöðu mála svo sem fræðslu fyrir starfsfólk sem starfar að málefnum fatlaðra, þróun útgjalda í málaflokknum hin síðari ár, ásamt stuttri hugleiðingu varðandi framtíðarsýn.
    Það er að mínum dómi mikilvægt að skoða nútímann í sögulegu ljósi til að öðlast skilning á því sem er og ekki síður á því sem framtíðin kann að boða. Þess vegna vil ég hverfa eilítið aftur í tímann í því skyni að geta betur gert grein fyrir þeirri þróun sem ég tel að sé í gangi.
    Fyrsta löggjöf um málefni fatlaðra var sett hérlendis árið 1936 er lög um fávitahæli tóku gildi.

Þeim var ætlað að bæta úr aðhlynningu fávita, eins og þroskaheftir voru nefndir þá, enda var talið að Íslendingar væru langt á eftir allflestum menningarþjóðum að því er aðhlynningu og uppeldi þeirra snerti. Til þess tíma voru engin sérlög um þroskahefta heldur voru málefni þeirra tengd almennri löggjöf um framfærslu á vegum sveitarfélaga. Þannig var óþekkt að taka málefni þroskaheftra sérstökum tökum. Eftir því sem best er vitað er það fyrst árið 1930 með stofnun Sólheima í Grímsnesi að tekið er upp sérstakt úrræði fyrir þroskahefta. Sú stofnun tók 25 manns en við gildistöku laganna frá árinu 1936 voru um 200 þroskaheftir í landinu. Það var síðan með lögum um fávitastofnanir frá árinu 1967 sem ákveðið var að koma upp einni stórri stofnun, þ.e. ríkisreknu aðalhæli fyrir þroskahefta, til að tryggja þeim nauðsynlega þjónustu. Stór stofnun var talin þjóna best hagsmunum þroskaheftra, þar færi fram flokkun og greining og unnt væri að veita þjónustu með sérmenntuðu starfsliði. Reynslan hefði sýnt að þroskamöguleikar þroskaheftra væru mun meiri en áður hafði verið talið. Á stofnuninni skyldi bæði veitt uppeldis- og læknisþjónusta, þ.e. farið inn á bæði mennta- og heilbrigðismál.
    Með reglugerð um félagslega þjónustu við andlega vanþroskað fólk frá árinu 1977 er farið að veita þroskaheftum utan stofnana gaum. Þar er m.a. kveðið á um heimilishjálp. Hér er því farið að nálgast sjónarmið nútímans. Með lögum um aðstoð við þroskahefta frá árinu 1979 er málaflokknum komið í fast skipulag hjá þremur ráðuneytum, heilbrrn., félmrn. og menntmrn. Með lögunum fær félagslegi þátturinn formlega séð sama vægi og menntamál og heilbrigðismál en áður var sá hluti sem ekki flokkaðist undir heilbrigðis- eða menntamál trauðla undir nokkurri stjórn.
    Markmiðið með löggjöfinni var að tryggja þroskaheftum jafnrétti við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa sem eðlilegustu lífi í samfélaginu. Lögin mörkuðu því tímamót bæði hvað varðar skipulag og hugmyndafræði. Komið var á nýju stjórnsýslukerfi sem fólst í skipun stjórnarnefndar með fulltrúum þriggja ráðuneyta og fulltrúum hagsmunasamtaka. Enn fremur var landinu skipt upp í átta þjónustusvæði með sérstakri svæðisstjórn á hverju svæði. Sveitarstjórnir áttu aðild að þeim stjórnum en að öðru leyti er ekki reiknað með aðild þeirra að málaflokknum á þeim tíma. Áfram er mikil áhersla á stofnanaþjónustu en framboð orðið fjölbreytt. Fámennar búsetustofnanir, sambýli, voru nýjung. Einnig sýnir fjárhagsaðstoð við framfærendur sem eru með fatlaða í heimahúsum nýjan hugsunarhátt.
    Með lögum um málefni fatlaðra frá 1983 var gildissvið laganna rýmkað þannig að lögin tóku til allra fatlaðra, ekki einungis þroskaheftra. Þó var staða geðfatlaðra enn þá óljós. Vægi sveitastjórna jókst með þeim hætti að þær fá nú einnig aðild að stjórnarnefnd um málefni fatlaðra auk svæðisstjórna. Að öðru leyti er ekki um grundvallarbreytingar að ræða. Áfram er lögð áhersla á sambýli og sértæka þjónustu við fatlaða. Lögin leggja áherslu á nærþjónustu án þess að reikna sérstaklega með sveitarfélögum inn í þá mynd nema með sæti í svæðisstjórn eins og áður kom fram.
    Með núgildandi lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, takmarkast lögin við félagslega þáttinn og falla þar með undir eitt ráðuneyti, félmrn. Um heilbrigðis- og menntamál gilda almenn lög með sama hætti og um aðra þjóðfélagsþegna. Stjórnarnefnd er því ekki lengur samræmingarafl þriggja ráðuneyta en er ráðgefandi fyrir ráðuneytið auk þess að fara með stjórn Framkvæmdasjóðs fatlaðra eins og áður var. Svæðisstjórnir voru aflagðar en í þeirra stað komu svæðisráð sem fara með eftirlitsþáttinn og svæðisskrifstofur sem hafa á hendi framkvæmdina.
    Gjörbreytt afstaða til sveitarfélaga kemur fram í lögunum og er stefnt að því að þau yfirtaki málaflokkinn að hluta til eða að öllu leyti. Í því samhengi ber á það að líta að á árið 1991 voru sett lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Auk þess tengist hugmyndin um aukið vægi sveitarfélaga að sjálfsögðu sameiningu sveitarfélaga, auknum möguleika þeirra til að taka aukin verkefni og stærri viðfangsefni heim í hérað.
    Segja má að með stefnunni um að færa málaflokkinn til sveitarfélaga sé verið að ákveða að flytja málaflokkinn aftur heim þó þjónustan sé að sjálfsögðu gjörbreytt frá því sem var fyrr á öldinni.
    Ný afstaða til búsetumála fatlaðra einkennir lögin. Sambýli er ekki eins ofarlega á baugi, þó ákveðið sé enn þá að halda uppi áætlun um byggingu þeirra, en nú skal stefnt að því að sem flestir fái tækifæri til að búa sjálfstætt í félagslegri íbúð með nauðsynlegri stoðþjónustu. Fráhvarf frá stofnanaþjónustu til stoðþjónustu er þannig rauður þráður gegnum lögin. Með stoðþjónustu er átt við margháttaða þjónustu við fatlaða utan stofnana til að stuðla að sem eðlilegustu lífi. Þessi nýi hugsunarháttur um aukna stoðþjónustu er í beinu samhengi við það að flytja málaflokkinn til sveitarfélaga en stoðþjónusta, svo sem heimaþjónusta, er rótgróinn þáttur í félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Auk heimaþjónustunnar kemur til sögunnar ný tegund stoðþjónustu, liðveisla, sem ætlað er að liðsinna fötluðum innan heimilis sem utan, stuðla að því að þeir geti búið sjálfstætt og tekið þátt í lífinu. Auk þess er að sjálfsögðu veitt heimahjúkrun samkvæmt almennum lögum.
    Reynslan af þessu fyrirkomulagi lofar góðu. Framtíðarsýnin í búsetumálum fatlaðra er því að efla og standa vörð um þessa braut.
    Í lögunum er sú stefna skýrt mörkuð að almenn þjónusta gangi fyrir sértækri þjónustu samkvæmt lögunum en þetta atriði var ekki nægilega skýrt í eldri lögum. Hvað félagslegri þjónustu viðvíkur er þetta enn eitt atriði sem tengist flutningi málaflokksins til sveitarfélaga þar sem þjónusta við fatlaða á að falla inn í aðra þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Skipun réttindagæslumanns fatlaðra er eitt af nýmælum laganna en honum er ætlað að sinna þeim sem búa á sambýlum, vistheimilum og öðrum sérstökum heimilum fyrir fatlaða þannig að fatlaðir geti leitað til hans með fjármál sín eða önnur einkamál. Í lögunum er tekinn af allur vafi um að geðfatlaðir falli undir lögin og skyldi gert átak í húsnæðismálum þeirra.
    Eins og fram hefur komið hefur jafnrétti fatlaðra á við aðra verið sett á oddinn í lögum frá og með lögunum frá 1979 og gengið æ lengra á þeirri braut síðan. Reynt hefur verið að stuðla að aukinni þátttöku fatlaðra á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þrátt fyrir að þjónustan hafi verið miðstýrð hefur með svæðafyrirkomulaginu markvisst verið leitast við að veita þjónustu í heimabyggð. Úrræðin á svæðunum eru fjölbreytt. Óþarft er að nefna almenna þjónustu svo sem heilbrigðis- og skólamál sem ég hef vikið að og aðgang að leikskólum. Af sértækri þjónustu samkvæmt lögunum má nefna fjölbreytta stoðþjónustu sem ýmist er ætluð börnum eða fullorðnum eðli máls samkvæmt. Má þar nefna fjárhagsaðstoð vegna barna í heimahúsum, stuðningsfjölskyldur, skammtímavistun, leikfangasöfn, félagslega hæfingu og endurhæfingu, aðstoð í atvinnumálum, liðveislu og ferðaþjónustu. Stofnanaþjónusta skiptist í tvennt, þjónustustofnanir og búsetustofnanir. Segja má að framangreind þjónusta hafi að mestu verið byggð upp eftir árið 1980.
    Undanfarin ár hefur aðaláhersla innan málaflokksins verið á búsetumálum fatlaðra, einkum á sjálfstæðri búsetu og viðeigandi stoðþjónustu eins og áður hefur verið vikið að. Um 1980 voru búsetuúrræði fyrir fatlaða tæpast fyrir hendi nema á sólarhringsstofnunum, en vist á slíkum stofnunum samrýmdist ekki þeirri hugmyndafræði sem lög um fatlaða frá 1983 voru byggð á. Þá hófst uppbygging sambýla um land allt og var nokkurs konar andsvar við vist á sólarhringsstofnunum. Starfsemi sólarhringsstofnana hefur dregist saman og vistmönnum fækkað verulega. Sem dæmi um þetta má nefna lokun vistheimilisins Sólborgar á þessu ári og hafa vistmenn sem þar hafa búið flutt í sambýli í sinni heimabyggð.
    Enn fremur hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir nú til að greiða fyrir útskrift af Kópavogshæli. Þannig er nú heimild í lögum um að nýta megi fjármagn úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til að standa undir rekstri sambýla og er þá sérstaklega átt við sambýli fyrir vistmenn Kópavogshælis. Við útskrift af Kópavogshæli er áformað að stöðugildi flytjist með vistmönnum sem útskrifast af sambýli. En möguleikinn er að viðbótarstöðugildi greiðist af Framkvæmdasjóði fatlaðra. Í tengslum við áform um að Kópavogshæli verði endurhæfingar- og hæfingarstöð á vegum heilrbrn. mun starfshópur frá félmrn. og heilbr.- og trn. skoða hvernig og hve hratt áætla megi útskrift vistmanna af Kópavogshæli á sambýli eða í íbúðir og hvernig verði staðið að þjónustu við þá er ekki verða útskrifaðir. Jafnframt verður kannað hvernig tryggja má íbúum Kópavogshælis þjónustu samkvæmt lögunum um málefni fatlaðra sem vistmenn heilbrigðisstofnana eiga að óbreyttu ekki rétt á. Þetta er þáttur sem fulltrúar í félmn. Alþingis þekkja vel vegna þess að félmn. var mjög umhugað um að þessi þáttur yrði skoðaður í framhaldi af lagasetningunni sem tók gildi 1992, en það hefur ekki enn þá verið gengið frá hvernig fatlaðir einstaklingar með búsetu á Kópavogshæli gætu notið ýmissar þjónustu sem lögin kveða á um.
    Svo vikið sé aftur að sjálfstæðri búsetu eiga sveitarfélög, félagasamtök og sjálfseignarstofnanir nú rétt á lánum úr Byggingarsjóði verkamanna til að koma sér upp íbúðum þannig að segja má að fjármögnun varðandi varðandi búsetumál sé að færast hægt og sígandi frá Framkvæmdasjóði fatlaðra til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þessi stefna í húsnæðismálum kallar á aukna þjónustu af hálfu sveitarfélaga, svo sem heimaþjónustu og liðveislu en einnig svokallaða frekari liðveislu sem veitt er samkvæmt lögum um málefni fatlaðra auk heimahjúkrunar. Hvað stoðþjónustunni viðvíkur hefur mikið verið lagt upp úr að þróa þá aðstoð sem felst í svonefndri frekari liðveislu, en sú þjónusta er viðbót við heimaþjónustu sveitarfélaga og er einkum veitt á kvöldin og um helgar. Frekari liðveisla er margháttuð og sniðin að þörfum hvers og eins. Reynslan er afar góð og er þjónusta þessi nú fjármögnuð úr Framkvæmdasjóði falaðra. Jafnframt er lögð áhersla á liðveislu á vegum sveitarfélaga en þar er átt við aðstoð við fatlaða í heimahúsum, ætluð til að forða þeim frá félagslegri einangrun, og að geta notið menningar og félagslífs. Þessi þjónusta er mikilvæg með tilliti til breyttra viðhorfa til húsnæðis- eða búsetumála fatlaðra eins og ég hef vikið hér að, en húsnæðismál fatlaðra eru að mínu mati eitt af mikilvægustu framtíðarmálum.
    Hvað atvinnumálum viðvíkur verður að segjast að vegna hinnar miklu áherslu sem búsetumálin hafa haft að undanförnu hafa atvinnumálin ekki verið sett eins á oddinn en stefnt er að því að úr verði bætt. Í lögunum er kveðið á um atvinnuleit sem hefur það markmið að finna fötluðum vinnu á almennum vinnumarkaði. Jafnframt að fötluðum sé veitt viðeigandi aðstoð og ráðgjöf. Sem fyrr er í lögunum gert ráð fyrir vernduðum vinnustöðum en þó dregið úr áherslu þeirra. Rökin fyrir þessu nýju áherslum eru þau að annars vegar hefur komið í ljós að verndaðir vinnustaðir eru mjög fjármagnsfrekir og líklegt talið að fjármunum verði e.t.v. betur varið með því að stuðla að því að fatlaðir fái vinnu á óvernduðum vinnumarkaði, eða réttara væri að segja á almennum vinnumarkaði. Hins vegar hafa margir orðið til að draga í efa raunverulegt gildi verndaðra vinnustaða til hæfinga þar sem athuganir benda til að mörgum þeirra sem útskrifast á almennan vinnumarkað vegnar ekki alltaf vel. Ljóst er þó að verndaðir vinnustaðir henta ákveðnum hópi. Hér gildir sem endranær innan málaflokksins að fjölbreytni er af hinu góða.
    Síðastliðin tvö ár hefur verið starfandi fimm manna nefnd á vegum félmrn. til að fjalla um atvinnumál fatlaðra og m.a. útfæra tillögur um hvernig megi auka þátttöku fatlaðra á almennum vinnumarkaði og í vernduðu starfsumhverfi. Í áfangaskýrslu bendir sú nefnd á að mjög brýna nauðsyn beri til að skilgreina betur en nú hin ýmsu úrræði í dagvistar- og atvinnumálum fatlaðra. Þannig verði að liggja ljóst fyrir hvað teljist raunveruleg atvinna og hvað flokkist undir hæfingu og þjálfun. Ætlunin er að leggja aukna áherslu á starfsþjálfun fatlaðra, bæði á vernduðum vinnustöðum og ekki síður í sérstökum starfsþjálfunarstöðum. Í þessu sambandi skal vakin athygli á að í athugasemdum við 3. gr. frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum frá 1994 kemur fram að stefnt skuli að sérstöku átaki í atvinnumálum fatlaðra til að auka möguleika þeirra á almennum vinnumarkaði. Annars vegar eigi að ná þessu markmiði með því að efla vinnu og verkþjálfun á hæfingarstöðum og dagvistarstofnunum og hins vegar með sérstakri liðveislu á vinnustað.
    Nefndin hefur fjallað um viðfangsefnið í sex meginköflum og þeir eru: Almenn stefnumótun, atvinna og menntun, hæfing og endurhæfing, vinnumiðlun, vinnumat, starfsráðgjöf, viðhorf til fatlaðra á vinnumarkaði, tengsl atvinnu og bóta og sértæk úrræði.
    Nokkur umræða hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum varðandi kaup og kjör fatlaðra starfsmanna á vernduðum vinnustöðum. Í síðari áfangaskýrslu atvinnumálanefndarinnar sem ég nefndi hér áðan er fjallað um skilgreiningar á sértækum úrræðum og þar kemur eftirfarandi fram:
    ,,Nefndin telur að grundvöllur þess að hægt sé að semja um kaup og kjör sé að menn þekki réttindi og skyldur hvers annars og að slík skilgreining sé einnig forsenda þess að hægt sé að ganga frá samningum þeirra fötluðu starfsmanna sem hér um ræðir. Enn fremur leggur nefndin til að stofnaður verði sérstakur starfshópur sem fjalli um launamál fatlaðra í verndaðri vinnu.``
    Hér er um þarfar ábendingar að ræða sem ráðuneytið mun taka afstöðu til þegar endanlegar tillögur liggja fyrir. Þá er ástæða til að vekja sérstaka athygli á því hversu góður árangur hefur náðst í starfsþjálfun fatlaðra í Hátúni 10 og það er mikilvægt að styðja vel við slíka starfsemi í framtíðinni. Starfsþjálfun fatlaðra hefur verið í fararbroddi varðandi ýmsar nýjungar í tölvukennslu og er það fagnaðarefni að starfsþjálfunin mun flytjast í nýtt og betra húsnæði næsta haust.
    Svæðisskrifstofur hafa nýtt sér heimild til að ráða sérstaka starfsmenn sem eingöngu sinna atvinnuleit fyrir fatlaða og er komin margra ára reynsla í þessum efnum. Ákvæði um atvinnuleit komu inn í lög um málefni fatlaðra frá 1983 og var þá eitt af nýmælum í þeim lögum. Í tengslum um atvinnuleit og starfsþjálfun hefur verið leitast við að aðstoða fatlaða eftir að þeir eru komnir út á almennan vinnumarkað eftir því sem þörf er á og jafnframt að auka fræðslu um fötlun til annarra starfsmanna í fyrirtækjum. Svæðisskrifstofur hafa eftir aðstæðum unnið að atvinnumálum fatlaðra í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög og vinnumiðlunarskrifstofur þeirra.
    Þjónusta við fötluð börn og aðstandendur þeirra hefur nánast veri byggð upp frá grunni á sl. áratug, eða eftir 1980, en fyrir þann tíma var hún varla til nema í afar takmörkuðum mæli. Aðstoð og þjónusta miðast við að fötluð börn geti alist upp hjá fjölskyldu sinni í stað þess að vistast til langframa á sólarhringsstofnun fjarri heimili sínu eins og tíðkaðist áður fyrr. Um er að ræða mjög fjölbreytta þjónustu á öllum svæðunum og má í því sambandi nefna eftirfarandi: Stuðningsfjölskyldur, skammtímaheimili, ráðgjöf og útlán í leikfangasöfnum, fjárhagslega aðstoð, dagvist í almennum leikskólum og sérstökum dagvistarheimilum, meðferðarheimili, sjúkraþjálfun, sérkennslu, dvöl á sumardvalarheimilum, ferðaþjónustu, svo og þjónustu Greiningarstöðvar ríkisins.
    Enda þótt hér hafi verið tíunduð þjónusta við fjölskyldur fatlaðra barna sem þeim stendur nú til boða og hefur verið komið á fót sl. áratug er svipaða sögu að segja um þróun á þjónustu við fullorðna fatlaða. Hún hefur einnig verið byggð upp að langmestu leyti síðasta áratug. Þó ber að geta þess að lögin um endurhæfingu sem voru í gildi frá 1970--1984 stuðluðu talsvert að uppbyggingu verndaðra vinnustaða og endurhæfingarstöðva, einkum á höfuðborgarsvæðinu.
    Mig langar að víkja að ferli- og aðgengismálum fatlaðra undir lok þessarar framsögu minnar, virðulegi forseti. Það er ljóst að núverandi ákvæði í skipulags- og byggingarlögum varðandi aðgengi fatlaðra tryggja ekki svo óyggjandi sé nauðsynlegt aðgengi. Það er því að nokkru leyti háð þekkingu, skilningi og velvilja hönnuða og yfirvalda hvort fullnægjandi lausnir fást fram. Þá ber einnig að geta þess að nákvæm hönnun margra svæða, svo sem gatna og margra útisvæða, er ekki háð samþykki skipulags- og byggingarnefnda eins og nú háttar til. Því er nauðsynlegt að setja um þau mál skýr ákvæði í lög og reglugerðir um skipulags- og byggingarmál.
    Á umliðnum árum hefur vissulega margt þokast í rétta átt, einkum eftir að sveitarfélög voru hvött til að koma á fót ferlinefndum sem hafa beitt sér fyrir að bæta aðgengi opinberra stofnana og hafa eftirlit með að nýbyggingar séu þannig úr garði gerðar að reglum um aðgengi sé fullnægt. Þá má benda á að samkvæmt lögum um málefni fatlaðra er heimilt að verja allt að 10% af ráðstöfunarfé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til að bæta aðgengi og hefur umtalsverðum fjármunum verið varið vegna aðgengismála á undanförnum árum eins og kemur fram í skýrslunni. Um er að ræða t.d. lyftur í skóla og aðrar opinberar byggingar, enn fremur lagfæringar utan húss til að auðvelda fötluðum aðgengi. Sérstök ferlinefnd á vegum félmrn. hefur starfað síðan 1991 og er skipuð fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðra, fulltrúum hönnuða og fulltrúum stjórnvalda skipulagsmála. Ferlinefnd ráðuneytisins hefur sett fram tillögur um að í reglugerð verði sett ákvæði um umsagnarrétt hlutaðeigandi svæðisskrifstofu varðandi byggingarnefndir, sbr. 34. gr. laganna. Framtíðarstefna í ferli- og aðgengismálum fatlaðra hlýtur að verða að byggjast á víðtæku samstarfi milli þeirra aðila sem bera ábyrgð á skipulagi umhverfis, hönnun og eftirliti bygginga, svo og upplýsingum og ábendingum frá félögum fatlaðra sem gerst þekkja hvar úrbóta er þörf.
    Virðulegi forseti. Búseta fatlaðra hefur þróast frá stofnunum til sambýla og nú er í auknum mæli horft til þess að fatlaðir búi í félagslegum íbúðum, þeir sem það geta. Vinnumiðlun og ráðgjöf, ýmis fræðsla og leiðbeiningar munu í auknum mæli verða á hendi sveitarfélaganna auk þeirrar þjónustu sem þegar er fyrir hendi, almennrar félagslegrar þjónustu, liðveislu og annarrar þjónustu sem í dag er veitt. Áherslan er þannig að smám saman minnki þörf fyrir sérlög í þágu fatlaðra og að þeir njóti þjónustu samkvæmt almennum lögum þar sem þeirra staða er tryggð. Þess vegna hlýtur framtíðarstefnan að verða sú að málefni fatlaðra flytjist í auknum mæli til sveitarfélaga á næstu árum og verði hluti af hinni almennu félagsþjónustu sveitarfélaga. Það er skoðun mín að þar verði málaflokknum best borgið og það er skoðun mín að með því að flytja málaflokkinn í heild til sveitarfélaga sem þá verða til þess búin að taka við málaflokknum eftir bæði sameiningu sveitarfélaga og þá ef ekki sameiningu sveitarfélaga, sameiningu félagsmálanefnda og samvinnu þar um, að það verði sem verði lyftistöng í þjónustu við þennan hóp. Reynslan sem fást mun af þeim sveitarfélögum sem taka að sér málefni fatlaðra sem reynslusveitarfélög verður ómetanleg við undirbúningi að flutningi málaflokksins.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu en kýs að minna á að bráðabirgðaákvæði II í lögum um málefni fatlaðra kveður á um að lögin skuli endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra. Á næsta ári verða liðin fjögur ár frá setningu laganna og því hlýtur sá tími brátt að nálgast að endurskoðun þeirra fari fram og mun ég beita mér fyrir að það verði undirbúið.