Málefni fatlaðra

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 12:30:37 (3528)


[12:30]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir hér byrja á því að þakka hæstv. félmrh. fyrir þessa fróðlegu skýrslu um málefni fatlaðra. Einnig ýmsum fyrri ræðumönnum fyrir góðar ábendingar ekki síst varðandi menntun fatlaðra barna.
    Í þessari skýrslu kemur mjög skýrt fram sú grundvallarbreyting á hugmyndafræði sem orðið hefur í þessum málaflokki, frá hugmyndafræði aðgreiningar þar sem áhersla var lögð á stórar stofnanir þar sem fatlaðir voru aðskildir frá ófötluðum sem mest yfir í hugmyndafræði samþættingar og svokallaðrar ,,normalíseringar`` þar sem áherslan er á að fatlaðir lifi sem eðlilegustu lífi innan um aðra þjóðfélagsþegna. Þó þessi breyting á hugmyndafræði sé, held ég, mjög æskileg og hafi fyrst og fremst á sér yfirbragð mannúðar og að allir geti sannfærst um að hún er til bóta fyrir fatlaða þá er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að þessi breyting á hugmyndafræði getur líka hentað þeim sem vilja niðurskurð í velferðarkerfinu. Því vil ég leggja áherslu á að svo verði ekki, þ.e. að þjónustustigið og framlag samfélagsins til þessa málaflokks minnki ekki þó þjónustan fari í annan farveg, í litlar og smáar einingar, liðveislu og persónulegri þjónustu.
    En þessi áherslubreyting hefur áhrif á fleiri aðila en fatlaða ekki síst á konur. Langflestir sem vinna að málefnum fatlaðra eru konur. Það þarf að vinna mjög markvisst að því að tryggja að laun og starfskjör þessara kvenna séu sem best og þær fjölskyldur sem eiga fötluð börn fái eins góða þjónustu og stuðning og mögulegt er þannig að líf þeirra verði sem eðlilegast. Þessi áherslubreyting má ekki verða til þess að þjónustan færist frá stórum stofnunum til mæðra og láglaunaðra kvenna og að velferðarkerfið spari á kostnað kvenna. Höldum áfram að byggja upp þessa þjónustu þangað til fatlaðir njóta í raun jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og allir fái þjónustu við sitt hæfi. Gerum vel við fatlaða og fjölskyldur þeirra svo og þá sem starfa með þeim á hinum ýmsu sviðum sem allir vita að eru konur að langstærstum hluta. Þessum konum ber að launa vel sín störf og þær þurfa að fá fræðslu því störfin geta verið mjög erfið og sérhæfð þó þau geti verið gefandi líka. Höldum áfram á þessari braut þannig að þessi áherslubreyting á þjónustu verði í raun bætt þjónusta en ekki niðurskurður í velferðarkerfinu.
    Ég vil að lokum spyrja hæstv. félmrh. hvort hún sér einhverja hættu fólgna á niðurskurði með þessari áherslubreytingu sem þegar er orðin eða fyrirhuguð er varðandi áform um að flytja málefnin yfir til sveitarfélaga sem augljóslega eru mjög misfær um að taka á þessu máli.