Skráning skipa

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 13:49:05 (3540)


[13:49]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Um fyrra atriðið er það vitaskuld svo að íslenskum ríkisborgurum verður áfram heimilt að eiga skip sem skráð eru erlendis. Þessi lagaheimild opnar einungis fyrir að það sé eðlilegt og rétt að íslenskum ríkisborgurum sé gert mögulegt að skrá skip sín hér á landi. Um síðari athugasemd hv. þm. hef ég ekki annað að segja en það að ég taldi eðlilegt ef frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins næði fram að ganga eins og það liggur fyrir þinginu þá sé það tekið fram í lögum um skráningu skipa fyrirvari að því leyti. En það er mér ekki fast í hendi. Þetta er einungis til að lögin séu skýrari að þessu leyti og menn geti flett upp í lögum um skráningu skipa til að finna þau skilyrði sem löggjafinn setur. Ef samgn. telur ástæðulaust að 2. gr. sé í frv. þá er mér það ekki fast í hendi.