Vegalög

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 13:57:35 (3546)


[13:57]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til að gerð verði breyting á vegalögum og er það af þeim sökum að við meðferð þeirra í samgn. kom upp á fundum í umræðum um viðhaldskostnað girðinga að nauðsynlegt væri að það efni væri tekið til athugunar. 56. gr. frv. sem lýtur að þeim efnum kveður á um að lausaganga búfjár á vegsvæðum stofn- eða tengivega þar sem girt er báðum megin vegar sé bönnuð, en greinin tók gildi 1. janúar sl. Frv. var samþykkt sem vegalög nr. 45/1994.
    Samgn. gerði að tillögu sinni að samgrh. skipaði nefnd til að endurskoða lagaákvæði VII. kafla frv. sem fjallar um girðingar með vegum og á grundvelli þeirrar athugunar verði lagt fram frv. um framtíðartilhögun þessara mála. Í september sl. skipaði ég fyrrgreinda nefnd. Í henni áttu sæti fulltrúar frá samgrn.,

Vegagerð, Stéttarsambandi bænda og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Nefndin skilaði tillögum sínum í desember sl. Fullt samkomulag var innan nefndarinnar um að lagt yrði fram á Alþingi það frv. sem hér um ræðir. Helstu breytingar þess eru að Vegagerðinni verði heimilt að taka þátt í stofnkostnaði girðinga sem reistar eru til að friða svæðið sem vegurinn liggur um og girðingar með vegum þar með ónauðsynlegar. Sveitarstjórn hafi eftirlit með viðhaldi girðinga og geti bætt úr eða fjarlægt girðingu sem er óþörf og til mikillar óprýði á kostnað þeirra sem ber að greiða viðhaldskostnað. Viðhaldskostnaður girðinga með stofnvegum og tengivegum greiðist að jöfnu af landeiganda og veghaldara sem í flestum tilfellum er Vegagerðin.
    Í 2. mgr. 1. gr. er nýmæli sem heimilar Vegagerðinni að taka þátt í stofnkostnaði girðinga þótt þær séu ekki lagðar með vegum. Skilyrðið er að með því verði tiltekið svæði friðað með lausagöngubanni og girðingar með vegum þar með ónauðsynlegar. Dæmi um slíka framkvæmd er girðing þvert yfir Reykjanesskaga um Kleifarvatn. Gert er ráð fyrir að kostnaður Vegagerðarinnar verði takmarkaður við lengd þeirra girðinga sem ella hefði þurft að reisa með vegum.
    Í 3. mgr. 1. gr. frv. er nýmæli og er það sett fram með hliðsjón af því að nú eru öll sveitarfélög skipulagsskyld og að girðingar eru mannvirki sem eru áberandi í umhverfinu og hafa á það afgerandi áhrif. Þykir því eðlilegt að sveitarfélög komi að þessum málum þótt ekki sé skylt að reisa girðingar í samræmi við áður gerðan skipulagsuppdrátt. Einnig þykir samráð við sveitarfélög eðlilegt í ljósi þess að lagt er til í 3. gr. þessa frv. að sveitarfélög hafi eftirlit með girðingum í sveitarfélagi og taki að nokkru leyti þátt í viðhaldskostnaði þeirra.
    Í 3. gr. frv. er miðað við að landeigendur skuli halda við girðingum með vegum svo sem verið hefur. Hins vegar er það nýmæli sem lagt er til að sveitarstjórnir hafi eftirlit með viðhaldi og framkvæmi viðhald, ef því er ábótavant, á kostnað þeirra sem eiga að greiða viðhaldið. Þykja sveitarfélög standa svo nærri vettvangi og hafa af því svo mikla hagsmuni að mál þessi séu í góðu horfi að eðlilegt sé að leggja á þau eftirlitsskylduna.
    Í 2. mgr. 3. gr. er nýmæli um viðhaldskostnað girðingar með vegum. Samkvæmt núgildandi lögum hvílir hann í flestum tilvikum að öllu leyti á landeiganda. Hér er lagt til að hann skiptist að jöfnu milli landeiganda og veghaldara þegar um er að ræða girðingar með stofnvegum og tengivegum. Hins vegar er miðað við að veghaldari greiði allan viðhaldskostnað ef rétt er talið vegna umferðaröryggis að girða af veg sem fer um afrétt eða önnur sameiginleg beitarlönd.
    Í 4. mgr. 3. gr. er nýmæli sem fjallar um viðhald girðinga sem reistar eru samkvæmt 2. mgr. 1. gr. frv., þ.e. girðingar sem lokar af tiltekin svæði. Gert er ráð fyrir að í slíkum tilvikum annist viðkomandi sveitarfélög viðhaldið og greiði að hálfu á móti Vegagerðinni nema um annað sé samið. Girðingar sem þessar þykja mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélög og geta gert aðrar girðingar óþarfar, svo sem um skógræktarsvæði, fóstursvæði, garða og önnur nytja- eða frístundasvæði íbúa sveitarfélaganna. Þykir því eðlilegt og réttlætanlegt að koma málinu fyrir með þessum hætti og þurfa ekki að vera til kostnaðarauka fyrir sveitarfélög ef á málið er litið frá öllum hliðum.
    Í 4. gr. frv. eru lagðar til breytingar á girðingalögum en þær miða að því að öll lagaákvæði varðandi girðingar með vegum verði í vegalögum.
    Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar einstakar greinar en legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.