Vegalög

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 14:10:25 (3548)


[14:10]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það kom fram þegar verið var að ræða setningu vegalaga á síðasta þingi að það mundi þurfa að gera breytingu á þeim lögum hvað varðaði þessi girðingarmál. Nú er það fram komið að hér eru ákveðnar breytingar lagðar til og samkvæmt því sem segir í athugasemdum þá er þetta heldur til bóta fyrir bændur sem annars hefðu þurft að hafa þennan kostnað algerlega á sínum vegum. Ég tel það alveg nauðsynlegt að um þetta gildi ákveðnar reglur og bæði Vegagerðin, þeir sem fara um þjóðvegina og bændur viti hver staða þeirra er í þessum málum. Ég er ekki tilbúin til að tjá mig á þessari stundu um það hvort þetta er fullkomlega eins og æskilegt væri. Ég vil gagnrýna að það hefur ekkert samráð verið haft við samgn. um samningu þessa frv. Það var skipuð nefnd til að skoða þessi mál og hún hefur lagt þetta frv. fram og það hefur ekki verið gert í neinu samráði við samgn. eins og ég hafði skilið starf nefndarinnar á síðasta þingi.
    Það kemur fram í umsögn um frv. frá fjmrn. að Vegagerðin áætlar að kostnaður vegna þessara ákvæða sem hér eru fram lögð aukist um 30--40 millj. kr. á ári. Hins vegar verði það ekki til þess að auka útgjöld ríkissjóðs heldur muni þetta vera greitt af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar. Það er nú svo að markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar hafa ekki mikið aukist á síðustu árum þó að bifreiðagjald hafi að vísu hækkað nokkuð, bensíngjald hafi hækkað nokkuð og núna á síðasta ári er alltaf verið að setja meira og meira á vegáætlun eða það sem þarf að greiða af þessum mörkuðu tekjustofnum. Hér eru nefnd þessi girðingarákvæði, kostnaðarauki vegna girðinga. Ég get nefnt að það er stutt síðan rekstur ferja var settur yfir á Vegagerðina og í fyrstunni voru ætlaðir sérstakir fjármunir til þess rekstrar en nú á síðustu fjárlögum var rekstur ferja eingöngu fjármagnaður af vegafé. Rekstur ferja hefur kostað í kringum 400--500 millj. kr. og er viðbót sem tekin er af framkvæmdum til vegamála.
    Þá vil ég einnig nefna það að við umfjöllun um ný vegalög á síðasta þingi var mjög mikið rætt um reiðvegi, það var mikil áhersla lögð á það að reiðvegir yrðu með í vegáætlun og það er þegar hafið átak til þess, búið að skipuleggja ákveðin svæði þar sem á að leggja reiðvegi. Það er reiknað með því að fjármagn til þess fáist af vegáætlun og það hafa engir auknir tekjustofnar komið til þess á móti. Hins vegar hefur ríkissjóður einnig seilst í Vegasjóð til viðbótar því að í hann renna beint á yfirstandandi fjárlagaári 265 millj. kr. af vegafé. Mér sýnist að með því sem sífellt verið er að bæta á að Vegasjóður greiði, þá sé nú farið að ganga ansi mikið á það framkvæmdafé sem er til vegagerðar í landinu. Það er kannski rétt að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann muni eitthvað beita sér í því að t.d. verði lögð á einhver fjáröflun til þess að standa undir reiðvegalagningu og jafnframt hvort einhver breyting yrði hugsanlega á með þær 265 millj. sem eiga að renna í ríkissjóð. Því er hægt að breyta með fjáraukalögum þó að búið sé að samþykkja það nú á fjárlögum.
    Að síðustu vil ég aðeins nefna að þó að hér séu ákveðin tilmæli og hugsanlega ákvarðanir sem komi um það hver eigi að sjá um viðhald girðinga þá held ég að það þurfi jafnframt að koma inn í þetta frv. eitthvað um þær sérstöku aðstæður sem skapast þegar mikil snjóalög eru. Það er ekki hægt að setja þetta fram án þess að gera grein fyrir því að það er ekki alltaf sumar hjá okkur, það er ekki alltaf hægt að halda við girðingum eins og það sé að sumarlagi og það hljóta að gilda aðrar reglur þegar girðingar eru á kafi í snjó. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann teldi ekki að það þyrfti að taka sérstaklega fram að einhverju leyti í þessu frv. og ég er ekki í vafa um að það mun verða rætt eitthvað innan hv. samgn.
    Að öðru leyti geri ég ráð fyrir því að við í samgn., sem ég á sæti í, munum fara yfir þetta mál og þó að ekki hafi verið haft samráð við samgn. um samningu frv. þá erum við að sjálfsögðu öll af vilja gerð til að fjalla um þetta eftir því sem best er hægt að gera.