Vegalög

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 14:24:25 (3551)


[14:24]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef notið þeirrar aðstöðu að vera þátttakandi í þessari umræðu á búnaðarþingi og hygg að það megi til sanns vegar færa að það frv. sem hér er til umræðu megi rekja til þeirra ábendinga sem komu fram á búnaðarþingi þegar frv. til laga um breytingar á vegalögum var þar til umræðu. Búnaðarþing féllst á það sem kemur fram í vegalögum að lausaganga búfjár væri bönnuð á lokuðum vegsvæðum.
    Það gefst auðvitað tími til þess að fara nákvæmar yfir þetta efni í samgn. þar sem ég á sæti. En með leyfi forseta segir svo í 56. gr. vegalaga og það er einmitt sú grein sem er tilefni að því frv. sem hér er verið að ræða:
    ,,Lausaganga búfjár á vegsvæðum stofnvega og tengivega þar sem girt er báðum megin vegar er bönnuð.``
    Hér gildir einu hvernig þessar girðingar eru tilkomnar. Ef það eru girðingar lengri eða skemmri sem eru settar upp meðfram vegum jafnvel þó að þær séu ekki nema nokkur hundruð metrar og þó að það sé frjáls aðgangur úr úthaga svo að ég nefni dæmi inn á þessi vegsvæði, er lausaganga búfjár samkvæmt laganna hljóðan bönnuð. Og væntanlega eins og farið er að túlka núna bótaskyldur og bótarétt, þá væru þeir búfjáreigendur sem ættu þann fénað sem slæddist inn á þessi vegsvæði harla illa settir. Niðurlag þessarar greinar, með leyfi forseta, er á þennan veg:
    ,,Vegagerðinni er heimilt að fjarlægja búfé af lokuðum vegsvæðum á kostnað eigenda.`` Þ.e. ef búið er að leggja girðingar meðfram vegum þannig að þær séu fjárheldar, t.d. að það séu ristar við endamörk beggja megin og á þeim afleggjurum sem eru við þessa vegi, þá hefur Vegagerðin orðið rétt til þess að fjarlægja búfé á kostnað eigenda. Á þetta hefur líka verið fallist að því tilskildu að Vegagerðin sæi um viðhald á þessum vegum þar sem bændur eða búfjáreigendur geta þurft að bera af því kostnað að fénaður fari inn á þessi vegsvæði. Þetta er grundvallaratriðið í þessu máli. Ég hygg að þau mál verði menn að skoða til endamarka í frekari umfjöllun í nefnd um þetta mál.
    Ég vil hins vegar segja út frá því sem hér hefur komið fram að ekki hafi verið haft samráð við samgn. um undirbúning þessa frv. þá var flutt hér einmitt af þessu tilefni yfirlýsing frá hæstv. samgrh. við afgreiðslu þessa máls í fyrra þar sem tekið var fram að nefnd yrði skipuð til að semja frumvarp um efnislega viðauka við 36. gr. Ég hef farið yfir þann texta og sé ekki annað en frv. eins og það er hér lagt fram sé í samræmi við það sem þá var lýst yfir. Ég held því að það gæti allgóðs samræmis í þeim ákvörðunum og þeim yfirlýsingum sem voru gefnar þegar vegalög voru afgreidd hér á sl. vetri og þess frv. sem hér liggur fyrir. En ég legg áherslu á það að það verði skilgreint nánar um skyldur Vegagerðarinnar gagnvart lokuðum vegsvæðum og ef það skyldi nú vera svo að þær yfirlýsingar sem hafa flogið fyrir um að þeir búfjáreigendur sem kynnu að eiga fénað þar sem girt er meðfram vegum þrátt fyrir að það sé opinn aðgangur inn á þá vegi verði bótaskyldir, það sýnist mér að þurfi að athuga nánar.