Vegalög

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 14:50:16 (3556)


[14:50]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra hefur misskilið orð mín eða ekki heyrt hvað ég sagði. Ég var ekki að tala um stórgripina þegar ég talaði um að alfriða vegina út frá þéttbýlinu hér á suðvesturhorni landsins, þá var ég að tala um alfriðun gagnvart öllum búpeningi. Mér er vel kunnugt um það að lausaganga stórgripa er held ég alls staðar bönnuð með samþykktum í nágrenni höfuðborgarinnar. Hún er leyfð í nokkrum sveitum á Norðurlandi vestra, einstaka hreppum á Norðurlandi eystra og á Suðurlandi og þar eru einmitt þau svæði sem mestum áhyggjum valda og þar sem árekstrar umferðar og stórgripa hafa verið tíðastir. En ég tel að það sé tímabært að setja áætlun af því tagi sem ég var að tala um gagnvart alfriðun umferðarþyngstu vega landsins út frá helstu þéttbýlisstöðum, einkanlega hér út frá höfuðborgarsvæðinu. Ég nefndi Suðurlandsveg suður um mitt Suðurland, t.d. austur fyrir Hvolsvöll og maður gæti nefnt Vesturlandsveg upp í Hvalfjörð, þannig að þar væri um alfriðun fyrir öllum búpeningi að ræða og eins tel ég að væri tímabært að huga að sambærilegum aðgerðum út frá Akureyri og jafnvel fleiri stærstu þéttbýliskjörnum á landsbyggðinni. En ég held að ég kunni þetta ágætlega með samþykktir sveitarfélaganna um lausagöngu og mér er það vel ljóst að slíku er ekki til að dreifa á þessum vegum sem næst liggja höfuðborginni.