Áhafnir íslenskra kaupskipa

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 15:08:11 (3562)


[15:08]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem hér hafa komið fram en vek enn athygli á því að ég get ekki séð að í þessari nefnd hafi átt sæti fulltrúi þeirra háseta sem eru aðilar að kjarasamningum, þ.e. sjómannafélaganna og þess vegna vek ég athygli á því hvernig réttarstaða er varðandi kjarasamninga um mönnunarákvæði ef ekki hefur verið til þeirra leitað.
    Ég vek aftur athygli á því og ítreka það að þarna stangast verulega á lög um tollheimtu og tolleftirlit miðað við r-lið 2. gr. þessa frv. og ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að lögin um tollheimtu og tolleftirlit séu samræmd og þá eðlilegt að þau séu samræmd til þessarar veru sem hér er talað um, þ.e. að til utanlandssiglinga sé þá hver sú ferð talin sem verður vegna millilandasiglinga, svo og þess líka þá skip fara til fiskimiða utan íslenskrar fiskveiðilögsögu þótt ekki sé hafna leitað. Það var þetta sem ég vildi ítreka.