Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 15:10:27 (3564)

[15:10]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Sú þáltill. um vegáætlun sem hér liggur fyrir fjallar um fjáröflun og framkvæmdir á árunum 1995--1998. Tillögunni var dreift á Alþingi í desembermánuði meðan fjárlög voru í vinnslu og eru niðurstöðutölur tillögunnar fyrir árið 1995 í samræmi við það sem ákveðið var í fjárlögum. Tillagan er með hefðbundnu sniði, þ.e. að í henni er að finna áætlun um fjáröflun næstu fjögur ár, svo og skiptingu útgjalda á helstu liði, en þeir eru nú nokkuð breyttir frá því sem verið hefur og er það í samræmi við vegalög sem samþykkt voru á sl. ári. Þá er í tillögunni að finna skrá um þjóðvegi og flokkun þeirra.
    Í athugasemdum með tillögunni koma fram skýringar á einstökum liðum auk ýmissa upplýsinga um vegakerfið, þar á meðal breytinga sem stafa af nýjum vegalögum. Rétt er að geta þess í upphafi að allar tölur eru settar fram á sama verðlagi, áætluðu verðlagi þessa árs þannig að tölur eru sambærilegar milli ára. Verður nú vikið að helstu þáttum í tillögunni og byrjað á fjáröfluninni.
    Bensíngjald hækkaði um 5,67% 1. des. sl. og þungaskattur hækkaði 1. jan. um 4,5%. Hafa þá báðir þessir liðir verið hækkaðir eins og vísitala byggingarkostnaðar leyfir. Enn er þó í gildi afsláttur af blýlausu bensíni sem upp var tekinn í júní 1989. Afsláttur þessi nemur nú 5,66% en þess má geta að markaðshlutdeild blýlauss bensíns hefur stöðugt farið vaxandi á undanförnum árum og er nú 86% og enn að aukast. Í tillögunni er ekki gert ráð fyrir frekari hækkunum á bensíni en reiknað með að þungaskattur hækki um næstu áramót um 0,8%.
    Gert er ráð fyrir því að umferð aukist að meðaltali um 1,8% á milli ára á áætlunartímabilinu og tekjur af bensínsölu og þungaskatti hækki samsvarandi. Unnið hefur verið að auknu eftirliti og bættri innheimtu þungaskatts. Þetta hefur þegar skilað nokkrum árangri og er reiknað með að tekjuaukning á árunum 1995--1998 verði 100 millj. kr. á ári vegna bættrar innheimtu. Í tillögunni er lagt til að nokkurt fé sé

árlega fært í ríkissjóð eins og gert hefur verið undanfarin ár. Þessu fé er m.a. ætlað að standa að hluta til undir útgjaldaaukningunni sem varð vegna framkvæmdaátaks í atvinnumálunum á árunum 1993--1994.
    Ríkisstjórnin ákvað í nóvember 1994 að beita sér fyrir framkvæmdaátaki í vegamálum. Ákvörðunin fól í sér að á næstu fimm árum, frá 1995--1999, skyldi aflað 3.500 millj. kr. Helmingi þessarar upphæðar er aflað af mörkuðum tekjustofnum með hækkun þeirri sem áður var greint frá. Hinn helmingurinn er sérstakt framlag úr ríkissjóði. Vegna aðstæðna í atvinnulífinu er ákveðið að nota allt þetta viðbótarfjármagn á fjórum árum, 1995--1998 og mest á fyrsta ári, 1.250 millj. kr., en síðan minnkandi. Til að brúa bilið milli fjáröflunar og fjárnotkunar þarf að taka lán, einkum árin 1995 og 1996, en lánin verða síðan endurgreidd á árunum 1998 og 1999. Niðurstöðutala fjáröflunar 1995 er 7.425 millj. kr. Niðurstöðutölur 1996 eru 7.440 millj. kr., 7.320 millj. kr. árið 1997 og 7.170 millj. kr. árið 1998. Innifalið í þessum tölum eru lántökur árin 1995--1997 og endurgreiðsla á árinu 1998.
    Næst er að víkja að gjaldahlið áætlunarinnar. Þar ber að hafa í huga að breytingar þær sem leiða af nýjum vegalögum hafa töluverð áhrif á uppsetningu vegáætlunarinnar, m.a. er flokkun vega töluvert breytt og ný nöfn vegflokka í samræmi við vegalögin. Fyrst kemur að liðnum stjórn og undirbúningur. Fjárveiting til þessa liðar er á þessu ári sú lægsta sem verið hefur í a.m.k. 15 ár og er ljóst að mjög er kreppt að þessum málaflokki þar sem verkefnin verða sífellt umfangsmeiri og flóknari og þarfnast samráðs og umsagnar fleiri aðila en áður var. Má þar t.d. nefna lögin um mat á umhverfisáhrifum sem auka vinnu á þessu sviði til mikilla muna. Þá eru kröfur um upplýsingaþjónustu stöðugt vaxandi. Því er lögð til nokkur hækkun á þessum lið á síðari árum áætlunarinnar. Lagt er til að fjárveitingar til almennrar þjónustu aukist nokkuð frá því sem verið hefur en kröfur um þjónustu á vegakerfinu fara stöðugt vaxandi. Er í aðalatriðum miðað við að staðið verði við þau markmið sem sett voru fram í drögum að langtímaáætlun fyrir árin 1991--2002.
    Fjárveiting til vetrarþjónustu árið 1995 er í samræmi við meðaltalskostnað við þennan málaflokk á síðustu 10 árum að viðbættum áætluðum kostnaði vegna rýmkaðra reglna um vetrarþjónustu sem tóku gildi á síðasta ári. Lagt er til að fjárveiting verði óbreytt á næsta ári en hækki lítið eitt á árunum 1997 og 1998 þannig að svigrúm verði til lítillega aukinnar þjónustu miðað við meðalárferði.
    Lagt er til að fjárveitingar til viðhalds hækki nokkuð frá því sem var á síðasta ári. Ljóst er að enn vantar töluvert á að þessi liður fái það fjármagn sem þyrfti. Þetta kemur harðast niður á styrkingu vega og viðhaldi malarvega en fjárþörf til viðhalds bundinna slitlaga fer einnig ört vaxandi vegna aukinnar umferðar og með vaxandi lengd bundinna slitlaga. Með nýjum vegalögum voru þjóðvegir í þéttbýli lagðir niður sem sérstakur vegflokkur en þeir vegir sem töldust til flokksins falla nú að mestu undir stofnvegi en nokkrir verða tengivegir og örfáir falla niður.
    Fjárveitingar til þjóðvega í þéttbýli samkvæmt eldri lögum voru undir sérstökum lið og fóru að mestu til viðhalds og þjónustu og er því lagt til að þær falli undir viðhald nú. Þar eð væntanlega verður samið við þéttbýlissveitarfélögin um veghald vegna þessa að einhverju eða öllu leyti er lagt til að fjárveitingar til þessara vega verði sérstakur liður, a.m.k. að þessu sinni.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir að haldið verði hinum hefðbundnu framkvæmdaliðum, almennum verkefnum, stórverkefnum o.s.frv. Eðlilegast er að samgn. fjalli um skiptingu fjármagns milli kjördæma og skiptingu fjárveitinga til einstakra stórverkefna eins og venja hefur verið. Eins og áður er vikið að hefur ríkisstjórnin ákveðið að gera sérstakt framkvæmdaátak í vegagerð og afla fjár til þess eins og áður greindi. Þetta veldur því að fjármagn til nýbygginga helst mikið á vegáætlunartímabilinu eins og verið hefur undanfarin tvö ár. Það er vilji ríkisstjórnarinnar að viðbótarfé þessu verði skipt á milli kjördæma samkvæmt íbúatölu og að litið verði á höfuðborgarsvæðið sem eitt svæði þó í tveim kjördæmum sé. Mikil þörf er orðin á að ráðast í kostnaðarsöm umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu og mun viðbótarféð gera það kleift.
    Segja má að fjárveitingar til annarra útgjaldaliða séu með hefðbundnum hætti en hafa verður þó í huga áðurnefndar breytingar sem stafa af breyttum vegalögum. Þar má nefna að stofnvegir nú svara að mestu til stofnbrauta áður að viðbættum þjóðvegum í þéttbýli. Tengivegir eru að mestu þeir vegir sem áður voru þjóðbrautir og safnvegir svara til sýsluvega samkvæmt eldri lögum. Landsvegir eru þeir vegir sem áður voru aðalfjallvegir auk nokkurra annarra fjallvega, vega innan þjóðgarða og til ýmissa fjölsóttra ferðamannastaða. Styrkvegir eru ýmsir vegir samkvæmt 16. gr. vegalaga sem áður gátu m.a. verið sýsluvegir eða aðrir fjallvegir.
    Loks má geta þess að gert er ráð fyrir í samræmi við vegalög að fjármagn til tilrauna tvöfaldist frá því sem áður var og er það vel því mikil þörf er á að þróa nýjar aðferðir og prófa ný efni á þessu sviði.
    Svo sem kunnugt er hefur verið ákveðið á árinu 1993 að fela Vegagerðinni umsjón með ferjum og ferjumálum og hafa útgjöld ríkisins af ríkisstyrktum ferjum verið greidd af vegafé frá og með árinu 1993. Samkvæmt tillögunni sem hér liggur fyrir eru framlög til ferja áætluð 469 millj. kr. árið 1995 en 455 millj. kr. árin 1996--1998. Í samræmi við 3. mgr. 23. gr. vegalaga eru ferjuleiðir nú í fyrsta sinn taldar upp í tillögunni, grein 3.3, og fá hliðstæða meðhöndlun og þjóðvegir. Þannig er gert ráð fyrir að framlög til stofnkostnaðar verði sundurliðuð á einstakar ferjuleiðir eins og gert er með framlög til nýbyggingar vega. Áætlað er að stofnkostnaður vegna ferja, þ.e. afborganir og vextir af lánum vegna kaupa á ferjunum nemi um 374 millj. kr. á árinu 1995 miðað við vaxtaforsendur og gengi 1. nóv. 1994. Hins vegar er áformað

að gera breytingar á ferjulánunum með skuldbreytingu sem felst í að sameina lánin, lengja þau og fá betri vaxtakjör. Er reiknað með að lækka megi árlega greiðslu af þeim um 100 millj. kr. með þessum hætti. Á hitt ber að líta að ferjuskuldir nú nema 2 milljörðum og 100 millj. kr. Þar sem um er að ræða mjög háar fjárhæðir er ljóst að tiltölulega litlar breytingar á gengi og vöxtum geta valdið verulegum breytingum á þessum útgjaldalið áætlunarinnar.
    Í vegalögum er nú skilgreindur sá ferjurekstur sem ríkið á að styrkja. Er áætlað að rekstrarstyrkir á árinu 1995 nemi um 190 millj. kr. Vegagerðin hefur unnið að því að koma á samræmingu á þjónustustigi í gjaldskrármálum ferja. Einnig hefur verið unnið að því að koma á hagræðingu í rekstri. Hefur rekstur einnar ferjuleiðar verið boðinn út og gerðir hafa verið rekstrarsamningar, marksamningar vegna fjögurra ferjuleiða. Er vonast til að þessar aðgerðir muni leiða til lægri rekstrarstyrkja á komandi árum.
    Í nýju vegalögunum eru lagðar meginlínur um það hvaða vegir teljist þjóðvegir og skiptingu þeirra í vegflokka. Reglur þessar eru talsvert breyttar frá fyrri lögum. Í þáltill. er í samræmi við vegalögin upptalning á þeim þjóðvegum sem teljast stofnvegir og tengivegir ásamt ferjuleiðum. Gert er ráð fyrir því að samgn. og þingmönnum einstakra kjördæma verði gerð nánari grein fyrir vegflokkuninni við áframhaldandi vinnu við tillöguna.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að þessari tillögu verði vísað til samgn. og vonast til þess að þingmenn leggi sig fram um að afgreiða hana svo fljótt sem kostur er.