Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 15:20:49 (3565)


[15:20]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Þessi till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1995--1998 felur í sér heildarendurskoðun á vegáætlun. Hún mun fara til samgn. til meðferðar og skipting fjárhæða milli kjördæma mun þá væntanlega fara til kjördæmis þingmannanna til yfirferðar. En eigi að síður vildi ég áður en tillagan fer til samgn. koma inn á nokkur atriði varðandi þetta mál og þá einkum það framkvæmdaátak sem boðað er í þessari tillögu um vegáætlun upp á 1.250 millj. kr. á árinu 1995.
    Hingað til hefur ríkt hér í hv. Alþingi bærilegur friður um aðferðir um skiptingu fjármagns til vegamála og það hefur verið álitið sameiginlegt verkefni þjóðarinnar að byggja upp vegakerfi landsmanna og það hefur verið ákveðið samkomulag í því efni sem byggist á vegalengd, ástandi vega og umferðarþunga og það hefur verið fengin ákveðin skiptiprósenta eftir þessum reglum. Þessi regla er búin að vera við lýði núna í þau um það bil 10 ár sem ég hef verið á Alþingi og hefur ríkt um þetta mjög viðunandi samkomulag. Þó að þingmenn einstakra kjördæma hafi auðvitað ekki alltaf verið ánægðir með sinn hlut eins og gengur og talið of lítið fjármagn fara til þessara mála, þá hefur verið nokkuð gott samkomulag um þessa reglu þrátt fyrir allt.
    Nú bregður hins vegar svo við þegar þetta framkvæmdarátak er ákveðið að það er ákveðið af ríkisstjórninni án nokkurs samráðs við Alþingi að breyta þessari reglu varðandi framkvæmdaátakið og taka það upp að skipta þessu viðbótafjármagni eftir höfðatölu. Ég tel að hér sé um forkastanleg vinnubrögð að ræða og ekki síst er athyglisverður í þessu þáttur hæstv. forsrh. sem hefur talið það sæma að slá um sig með yfirlýsingum um þetta efni án nokkurs samráðs við nokkurn mann hér í Alþingi svo að mér sé kunnugt um. Og ég hef ekki, ég verð þá leiðréttur ef það er rangt að framkvæmdir séu hafnar hér á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt þessu átaki. Ég veit ekki betur en að stórframkvæmdir upp á 400 millj. kr. séu hafnar áður en vegáætlun kemur hér til fyrri umr. hér í hv. Alþingi. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem ná ekki nokkurri átt. Og ég vil spyrja hæstv. samgrh. hvort hann sé ánægður með þessi vinnubrögð og hvort hann hafi tekið þátt í þessum ákvörðunum eða hvort hann hafi verið neyddur til þess eftir þær yfirlýsingar sem gefnar voru af hæstv. forsrh. að dansa með.
    Ég vil líka einnig fá að vita hvort útreikningur á því liggur fyrir hvað einstök kjördæmi fá í sinn hlut samkvæmt þessari vegáætlun, heildarfjárhæðina. Ég veit að það á eftir að skipta þeirri fjárhæð niður á einstök verkefni í kjördæmi en ég kalla eftir svörum frá hæstv. samgrh. um það hve mikill hluti af þessu viðbótarfjármagni kemur í hlut einstakra kjördæma. Það vill svo til t.d. á Austurlandi og einnig á Vestfjörðum í fámennustu kjördæmunum að þar eru stórverkefni í samgöngumálum eftir, og ég þarf ekki að tíunda það, t.d. á hringveginum í kringum landið þar sem standa út af stór verkefni, ekki síst á Austurlandi. Mér býður í grun að Austurland muni standa nokkurn veginn jafnrétt eftir þetta framkvæmdaátak og muni ekkert viðbótarfjármagn í raun koma í hlut landshlutans. Það er gott að það liggur fyrir að þetta er ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar. Það kemur fram í máli hæstv. samgrh. Hins vegar hefðu það verið betri vinnubrögð að ræða þessi áform á hv. Alþingi áður en þessi ákvörðun var tekin. Í vegamálum hefur eins og ég kom að í upphafi máls míns verið allgott samkomulag um það hvernig skipting ætti að vera milli kjördæma í þessum málum. Ég dreg ekki úr því að það séu aðkallandi verkefni á höfuðborgarsvæðinu en ég tel að það hefði mátt ná verulegum áföngum hér á þessu svæði innan þess ramma sem áður var í staðinn fyrir að breyta þessari skiptingu sem gott samkomulag hefur verið um án nokkurs samráðs.
    Ég tel í rauninni ekki ástæðu til þess að setja á langt mál um þessa tillögu í framhaldi af þessu. Ég tel áríðandi að það verði upplýst við þessa umræðu hvað mikið framkvæmdaátak verður í einstökum kjördæmum fyrir þessar 1.250 millj. kr. sem ætlunin er að leggja til þess á þessu ári. Og hvað það verður mikið á næstu árum og á áætlunartímabilinu. Ég bið hæstv. samgrh. að svara þeirri spurningu.