Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 15:28:54 (3566)


[15:28]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Athugasemdir hv. þm. voru út af tveim efnum. Annars vegar því að nú er tekin upp sú regla að hluta af vegafé skuli skipt í samræmi við fólksfjölda og er auðvitað höfuðástæðan fyrir því sá mikli fjárskortur sem hefur verið til framkvæmda hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég hygg að framsóknarmenn sem buðu sig fram fyrir R-listann hér í Reykjavík geti ekki tekið undir þau ummæli hv. þm. að það hafi verið að ástæðulausu sem ráðist var í að flýta framkvæmdum í Ártúnsbrekku. Þetta er sá kafli á landinu þar sem hvað mest hætta er á slysum. Mannslíf eru í húfi og það var ástæðan fyrir því að þeim framkvæmdum var flýtt. Á bak við það stóð ríkisstjórnin með sinni ákvörðun og við erum reiðubúnir til að standa við það. Mér finnst satt að segja undarlegt að hv. þm. skuli gera þessa framkvæmd tortryggilega.
    Hitt atriðið lýtur að því hvort sú framkvæmd vegamála sem tekin hefur verið upp nú af þessari ríkisstjórn halli á Austurland miðað við það sem áður hefur verið. Hvort sú stefna sem felst í þessari tillögu halli á Austurland og það vill svo til að hv. þm. lagði sérstaka áherslu á hringveginn í því sambandi. Það er alveg laukrétt hjá hv. þm. ef við tökum einungis tillit til þeirra framlaga sem koma samkvæmt höfðatölureglunni. Þá mun það auðvitað ekki vera sama féð og við tökum með öðrum hætti til hliðar til þess að flýta því að leggja veg yfir hálendið til Norðurlands sem er hluti af hringveginum. Með þessari vegáætlun er verið að marka þá stefnu að við sjáum fyrir endann á því að ljúka hringveginum. Það er kjarni málsins. Það eru auðvitað fyrst og fremst miklir hagsmunir Austurlands og Norðurlands eystra. Þar fara okkar sjónarmið saman, vona ég, og það er gjörsamlega út í hött að gera lítið úr þessum þætti tillögunnar.