Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 15:45:16 (3571)


[15:45]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var mjög sérstakt að hlusta á ræðu hv. þm. Jónu Valgerðar sem talaði á undan mér.
    ( Forseti (KE) : Forseti vill minna hv. þm. að það á að ávarpa þingmenn með fullu nafni eða kenna þá við kjördæmi sitt.)
    Hv. þm. Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur. Ég þakka forseta fyrir ábendinguna. Rétt skal vera rétt. En það var einkennilegt að hlusta á ræðu hv. þm. Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur þar sem uppistaðan í málflutningnum var sú að það væri verið að ákveða einhliða að breyta því hvernig fjármagni væri úthlutað með vegáætlun. Ég hlýt að álykta sem svo að það sé um einhvern misskilning að ræða því ef það væri verið að ákveða eitthvað einhliða þá væri ekkert verið að ræða vegáætlun á hv. Alþingi. Þá þyrfti ekkert að ræða það. ( JónK: Til málamynda.) Til málamynda, segir hv. þm. Jón Kristjánsson. Hvers lags eiginlega málflutningur er þetta? Er þá öll umræða hér til málamynda? Hefur öll umræða hér undanfarin ár verið til málamynda? Þó svo menn leggi fram tillögur sem hafa meirihlutastuðning þingmanna þá þarf að afgreiða þær en það eru engar einhliða ákvarðanir. Það er hv. Alþingi sem tekur ábyrgð á ákvörðuninni þegar hún er tekin. Það getur vel verið að hv. þm. telji að forsrh. og samgrh. séu svo áhrifamiklir að þeir geti bara tekið einhliða ákvarðanir og þær fari hér í gegn og þeir séu þess vegna bara til málamynda að taka þátt í umræðunum. Af hverju eru þeir þá að því að taka þátt í málamyndaumræðum? Til hvers eru þeir þá að því? ( Gripið fram í: Það er ekki boðið upp á neitt annað.) Jú, jú. En þeir verða að taka afstöðu til málsins eins og aðrir þingmenn þegar til atkvæðagreiðslu kemur og þá verður ekki um neina einhliða ákvörðun að ræða. Það verður ákvörðun sem tekin er á hv. Alþingi þar sem 63 þingmenn sitja og það er meiri hlutinn sem ræður niðurstöðunni og það er engin einhliða ákvörðun.
    Mér heyrðist líka á málflutningi hv. þm. Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur að það mætti helst aldrei gera neinar breytingar á neinu af því að fjármagni á vegáætlun hefur verið skipt eftir einhverri reglu í einhverja áratugi þá megi alls ekki breyta því, þá megi alls ekki gera það öðruvísi. Og þetta er náttúrlega slík íhaldssemi að íhaldsmönnum eins og mér meira að segja blöskrar.
    Það hlýtur hins vegar að vera ánægjuefni fyrir borgarstjórann í Reykjavík að heyra að hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir frá Kvennalistanum er ekki á móti því að það verði farið í auknar framkvæmdir á vegum á höfuðborgarsvæðinu.