Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 15:55:25 (3578)


[15:55]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki var ætlast til þess að fjárframlög til Vestfjarðaganga yrðu hraðari, hvorki framlög né framkvæmdir. Það hefur farið algjörlega eftir áætlun. Þar sem ráðherrann nefndi að 350 millj.

hefði verið bætt við til Vestfjarðaganga á síðasta ári minni ég hann á að um 350 millj. var skert til Vestfjarðaganga á árinu 1991. Hins vegar þurfti að bæta við þessum hundruðum milljóna vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna sem menn muna vafalaust þegar vatnsagi kom í göngunum sem olli miklum töfum. Ég get vissulega tekið undir það með hæstv. ráðherra að ég og aðrir Vestfirðingar erum fullkomlega ánægð með það sem verið er að gera í sambandi við jarðgöng á Vestfjörðum. Það er engin spurning. Hins vegar geta jarðgöng á Vestfjörðum ekki komið í staðinn fyrir alla framkvæmd í vegamálum á Vestfjörðum á næstu árum því þar er mjög mikið ógert og það vildi ég minna hæstv. ráðherra á.