Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 15:56:48 (3579)


[15:56]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Hæstv. samgrh. var að gera grein fyrir till. til þál. um vegáætlun. Mér fannst ýmislegt vanta inn í þá ræðu hjá hæstv. ráðherra því að ég taldi að við slíkt tækifæri mundi hæstv. ráðherra segja frá fyrirætlunum sínum og hugmyndum um vegamálin fram í tímann og gera grein fyrir afstöðu sinni til hinna stærri mála. En það var lítið annað en það sem stendur á blöðum sem hæstv. ráðherra fór yfir og hann útskýrði ekki nánar, t.d. hvaða hugmyndir hann hefur um verkefni stórverkaefnasjóðs á næstu árum. En það kom síðan fram í framhjáhlaupi hjá honum í andsvari að hann teldi að aðalstórverkefnið væri að koma hringveginum saman fyrir Austurland og norður. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðherra gerði betur grein fyrir því sem snýr að þessu því að auðvitað er mjög stór liður í öllum þessum vegamálum hvernig haldið verður á málefnum stórverkefnasjóðs.
    Mig langar í upphafi til þess að bæta aðeins við umræðuna um þetta svokallaða framkvæmdaátak í vegamálum einfaldlega vegna þess að mér finnst að það sé sett fram með þvílíkum áróðursbrag að varla sé hægt annað en að fara yfir það enn einu sinni hvernig að þessum hlutum er staðið.
    Í fyrsta lagi er slík talnaleikfimi á ferðinni þegar verið er að fjalla um það hversu mikið fjármagn það sé sem verið er að bæta við til vegamála. Þar vil ég nefna að hér er talað um 3.500 millj. en ég get ekki betur séð á þeim tölum sem ég fæ út úr þessu en að á þeim fjórum árum sem þetta átak á að standa yfir sé um að ræða 2 milljarða 805 millj. og er ég þá búinn að draga frá þær 210 millj. sem á að vera búið að borga til baka og það sem skert er af hinum mörkuðu tekjustofnum af vegamálum sem tekið er inn í ríkissjóð. Auðvitað er fáránlegt að tala um það sem sérstakt átak til vegamála sem tekið er af mörkuðum tekjustofnum til ríkissjóðs. Þar eru á ferðinni 695 millj. á þessu tímabili þannig að eftirstöðvarnar, þ.e. það sem skilar sér til aukinna framkvæmda, eru þá 2 milljarðar 805 millj. á þessum fjórum árum. En hvað gerist svo? Það er það að hæstv. ríkisstjórn hafði verið í atvinnuátaki í vegamálum sem hún kallaði og það átak var ekki búið. Á þessu ári átti að setja 450 millj. í sérstakt átak í vegamálum sem var í gangi. Fjármögnunin á því átaki er ekki fyrir hendi í þessari vegáætlun en útgjöldin halda áfram að vera fyrir hendi. Í plagginu er sérstaklega sagt að þannig sé þetta. Það er sagt hér, með leyfi forseta, á bls. 25: ,,Sérstök lánsfjáröflun til framkvæmda vegna atvinnumála sem ákveðin var haustið 1992 sem átti að vera 450 millj. kr. á árinu 1995 er nú felld niður en miðað er við að hinir hefðbundnu tekjustofnar standi undir útgjöldum þeirra verkefna.``
    Hvort sem menn vilja heldur draga þetta frá því átaki sem nú stendur yfir eða því sem síðast var --- ég hef ekki orðið var við að menn hafi gert það fram að þessu --- þá erum við að tala um aukið fé til vegamála sem svarar 2 milljörðum 355 millj. á þessu tímabili en ríkisstjórnin í talnaleikfimi sinni heldur því fram að það séu á ferðinni 3,5 milljarðar. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst óþarfi að standa í þessu. Mér finnst að ríkisstjórnin geti verið fullsæmd af því átaki í vegamálum sem verið er að kynna þó ekki sé verið að reyna að búa til eitthvað meira úr því en það er.
    Síðan um höfðatöluregluna sem var tekin upp. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem kom fram hjá hv. 6. þm. Vestf. að það er auðvitað óboðlegt að slík breyting sé ekki rædd meðal þingmanna áður en hún er tilkynnt sem nánast ákvörðun ríkisstjórnar. Auðvitað þarf ekki að kenna mönnum það hér í sölum hv. Alþingis að þegar ríkisstjórn og ráðherrar eru búnir að spila út slíkum hlutum í viðræðum og opinberlega, í viðræðum við sveitarfélög og aðra aðila í þjóðfélaginu verður erfitt að stíga skrefin til baka. Auðvitað er verið að ganga fram hjá alþingismönnum og það er verið að stilla stjórnarþingmönnum upp við vegg að standa að slíkum ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka þó svo að auðvitað eigi eftir að ganga frá málum í hv. Alþingi og ég dreg ekki úr því. Auðvitað er hægt að snúa til baka en stjórnarþingmenn eiga sjálfsagt erfitt með að ganga þá göngu.
    Það er mjög margt í þessari vegáætlun sem væri vert að ræða og ég verð að segja alveg eins og er að ég hef áhyggjur af mínum tíma og býst við að þurfa að taka aftur til máls því mér sýnist að ég hafi einungis tvær mínútur eftir af mínum tíma. Það er í fyrsta lagi heildarfjármagnið. Ég bendi hv. þm. á að bera það saman við heildarfjármagnið sem gert var ráð fyrir í síðustu vegáætlun og þá sjá menn að viðbæturnar eru ekki eins stórkostlegar eins og menn vilja vera láta. Síðan vil ég nefna að það eru fjölmörg atriði sem við þurfum að fara yfir. T.d. er á bls. 28 talað um lánsfé og endurgreiðslu lánsfjár. Þar kemur það fram að gert er ráð fyrir því að þetta lánsfé sem er inni vegna þessa átaks í vegamálum sé upp á 935 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að 210 millj. verði greiddar til baka á árinu 1988 en síðan allt saman, 725 millj. á árinu 1999. Ég tel að varhugavert sé að gera ráð fyrir því að greiða svona stóran hluta af

lánsfénu til baka á því ári. Það er greinilegt að með þeirri siglingu sem hefur verið mörkuð hér með framkvæmdaátakinu og skuldsetningu Vegasjóðs er verið að daga verulega úr getu hans til þess að standa í framkvæmdum á næstu árum ef menn breyta ekki þeim áætlunum sem hér liggja fyrir.
    Síðan vil ég nefna sérstaklega að á bls. 30 þar sem talað er um endurnýjun malarslitlaga kemur fram að talið sé að það séu einungis 70% af áætlaðri þörf þeirra vega sem nú hafa malarslitlag sem sé gert ráð fyrir á þessari áætlun. Það er auðvitað gjörsamlega óviðunandi og allir vita að viðhaldi malarvega er mjög illa komið víða og það þarf að taka á því máli. --- Ég sé að tími minn er búinn, hæstv. forseti, þannig að ég mun óska eftir því að taka til máls aftur við þessa umræðu.