Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:09:55 (3582)


[16:09]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að ekkert óvanalegt sé við þessa vegáætlun að því leyti til að auðvitað hlýtur ríkisstjórn fyrst að taka ákvörðun um hvernig vegáætlun er lögð fyrir og síðan er málið lagt fram á Alþingi nákvæmlega eins og alltaf hefur verið gert. Ég veit ekki hvort ég á að kalla það útúrsnúning, og ekkert við því að segja þó þingmenn séu því ekki kunnugir en það hefur ekki verið venja í gegnum árin að

stjórnarandstaðan hafi verið kölluð sérstaklega til og hún hafi verið beðin að blessa allt það sem stendur í vegáætlun. Svo var ekki á síðasta kjörtímabili. Ég lagði fyrir hönd Sjálfstfl. sérstaka áherslu á það að flýta því að vegur yrði lagður frá Mývatnssveit milli Norður- og Austurlands. Því var ekki ansað, ekki einu orði, ekkert tillit til þess tekið eins og sést á þeirri vegáætlun sem var lögð fram af síðustu ríkisstjórn. Það er því síður en svo að um þetta hafi alltaf verið samkomulag.
    Ef við veltum fyrir okkur hvernig það er hversu mikið fé rennur í ríkissjóð af vegáætlun og hversu mikið úr ríkissjóði í vegáætlun þá var á síðasta ári, ef ég man rétt, gert ráð fyrir því að 270 millj. rynnu úr Vegasjóði í ríkissjóð en reyndin var sú að það var veitt sérstök aukafjárveiting að fjárhæð 350 millj. úr ríkissjóði í Vegasjóð. Það rann því verulega meira fé úr ríkissjóði í Vegasjóð en öfugt þannig að Vegasjóður hagnaðist á sl. ári ef það er tekið sem dæmi. Þannig er nú þetta. En kjarni málsins og það sem upp úr stendur eru hinar þungu skuldaklyfjar sem við berum vegna aðgæsluleysis, óábyrgrar stefnu í sambandi við ferjubátana.