Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:13:57 (3584)


[16:13]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Það er deilt hér á hæstv. ríkisstjórn og hæstv. samgrh. vegna þessarar till. til þál. um vegáætlun fyrir næstu fjögur ár að þessu ári meðtöldu og það er mjög eðlilegt að svo sé gert. Það á áreiðanlega eftir að heyrast talsvert mikið á Alþingi í hv. þm, a.m.k. stjórnarandstöðu og mér kæmi ekki á óvart þó einhverjir stjórnarsinnar ættu eftir að koma inn í þá umræðu líka með gagnrýnum áherslum og spurning hvort sé meiri hluti yfirleitt fyrir þessu máli. Það er greinilegt líka í umræðunni að það er ókyrrð í stjórnarþingmönnum. Það eru ekki allir rólegir við þessa umræðu úr stjórnarherbúðunum og það er heldur ekkert skrýtið.
    Ég vil aðeins taka til umræðu þá stefnu sem hér er innleidd í áætlunargerð með framlagningu þessarar þáltill. á síðasta þingi núv. ríkisstjórnar. Og jafnframt að samkvæmt texta með tillögunni er boðað að langtímaáætlun í vegagerð skuli tekin fyrir á næsta þingi og að það tímabil sem áætlunin tekur til verði hluti af þessari langtímaáætlun til væntanlega þriggja tímabila eða 12 ára. Ég held að hér sé óeðlilega á máli haldið. Mér finnst það óeðlilegt, ekki síst eins og hér er að máli staðið af hæstv. ríkisstjórn og ráðherra, að ætla að knýja fram á lokavikum þessa kjörtímabils, rétt áður en hæstv. samgrh. víkur úr stól sínum, endurskoðun á vegáætlun til fjögurra ára og ætla síðan þinginu að fjalla um langtímaáætlun sem feli í sér fjögur ár þessarar áætlunar á næsta þingi.
    Það eru auðvitað fáránleg vinnubrögð, hæstv. ráðherra, að halda þannig á máli. Auðvitað á að geyma það til vorþingsins að fjalla um þessa vegáætlun. Auðvitað á ekki að vera að rasa um ráð fram með því að afgreiða þetta mál núna rétt fyrir kosningar, á síðustu vikunum fyrir kosningar og ætla að knýja þann vilja upp á þing sem verður orðið annað þing þegar það kemur saman að kosningum loknum og væntanlega með nýrri ríkisstjórn sem þá tekur við. Ég tel að þingið eigi að vísa þessari tillögu frá, núverandi þing, og fresta því til næsta þings að móta næstu fjögurra ára áætlun í vegamálum. Og að fella hana inn í langtímaáætlun til 12 ára eins og hér er gert ráð fyrir og eins og gera þarf þannig að það verði einhver heildarmynd á þessu, einhver samfelldur svipur á þessu. Það kæmi mér ekkert á óvart þó að þessi yrði niðurstaðan, hæstv. ráðherra og hæstv. forseti, að það verði ekki um afgreiðslu á þessari hrákasmíð að ræða sem

hér er lögð fyrir þingið. Ég leyfi mér að segja hrákasmíð ekki síst vegna þess hvernig að þessu máli er staðið. Þetta mál er hér borið fram, mjög róttæk og mikilvæg breyting á skiptingu vegafjár, án þess að það hafi verið rætt með eðlilegum hætti og stefna um það mótuð í þinginu. Samþykkt gerð í ríkisstjórn í nóvember sl. eins og fyrir liggur um málið og málið er núna í lok janúar að koma fyrst til umræðu í þinginu og fjórar vikur til þingloka, til loka kjörtímabilsins.
    Það á að sjálfsögðu ekki að vera að afgreiða þetta mál hér og nú. Það er hægt að endurskoða yfirstandandi ár, þriðja ár þeirrar vegáætlunar sem nú er í gildi og hér á að endurskoða seinni hluta þess því að þetta er gert í áföngum á tveggja ára tímabili eins og menn þekkja. Það er hægt að fara yfir yfirstandandi ár, endurskoða það í ljósi aðstæðna, láta það nægja fyrir yfirstandandi ár, þá tefjast ekki verk, og taka síðan málið heildstætt fyrir á þinginu sem kemur saman í lok apríl eða í maímánuði samkvæmt þingsköpum. Ekkert vit í öðru. Ég man ekki betur en núv. hæstv. samgrh. hafi gagnrýnt það mjög harðlega þegar verið var að afgreiða vegáætlun síðasta veturinn fyrir síðustu kosningar á vegum fyrrv. ríkisstjórnar og ég held að hann ætti að slást í hóp með þeim sem vilja nú taka upp þau vinnubrögð að móta stefnu í málinu á vegum nýs þings og nýrrar stjórnar.
    Það sem hér er verið að innleiða er vissulega ný stefna, stefna sem gengur mjög gróft gegn því sem samkomulag hefur verið um á Alþingi í sambandi við skiptingu vegafjár með því að flytja eftir höfðatölureglu stórar upphæðir til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar því sem þar er sérmerkt. Staðan í þessum málum verður sú að um 40% framkvæmdafjár rennur til höfuðborgarsvæðisins eins af því sem sérstaklega er merkt sem framkvæmdaátak, þ.e. framkvæmdaátak 1.250 millj. á þessu ári sem skiptist þannig samkvæmt höfðatölureglu: hér búa um 60% landsmanna og eftir höfðatölureglunni renna um 60% af þessu framkvæmdaátaki augljóslega til höfuðborgarsvæðis ef það yrði samþykkt. Það þarf ekki mikla útreikninga til að átta sig á hversu háar upphæðir kæmu t.d. í hlut þess kjördæmis sem lengst hefur vegakerfið og þar sem mest er enn þá ógert í þeim efnum, Austurlands, sem telur aðeins um 5% landsmanna og fengi þá samsvarandi í sinn hlut. Þessu trúi ég ekki að stjórnarþingmenn af Austurlandi ætli að standa að við afgreiðslu vegáætlunar sem væntanlega verður þá frestað til næsta kjörtímabils og tímabils nýrrar ríkisstjórnar. Það er alger óhæfa, hæstv. forseti, að ætla að knýja þetta mál með þessum breytingum í gegnum þingið með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.
    Hér hefur verið rakið skilmerkilega hvaða blekkingaleikur er uppi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í sambandi við það framkvæmdafé sem er til skiptanna eftir þessum einstöku flokkum. Það eru engar 3.500 millj. kr., hæstv. ráðherra, enda gat ráðherrann þar engu hnekkt frá því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson rakti áðan. Það eru engar 3.500 millj. Það eru ef glöggt er talið 2.355 millj. kr. eins og hv. þm. gerði grein fyrir. Hér er mikill blekkingaleikur á ferðinni.
    Við skulum að lokum, hæstv. forseti, skoða það að til allra nýframkvæmda í landinu, á stofnvegum og tengivegum, eru rétt um 700 millj. kr. samtals á þessu ári þegar þessi sérmerktu verkefni ríkisstjórnarinnar eru frátalin.