Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:22:42 (3585)


[16:22]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er fullkomlega sammála hv. þm. um að það sé óeðlilegt að á síðasta þingi fyrir kosningar sé verið að marka til langs tíma stefnu í vegamálum eins og gert var af síðustu ríkisstjórn eða reynt að gera með því að reyna að pína í gegnum þingið langtímaáætlun á síðasta degi þingsins. Auðvitað er ég fullkomlega sammála hv. þm. að það sé óeðlilegt. Á hinn bóginn er það lagaskylda samgrh. að leggja fram á tveggja ára fresti endurskoðaða vegáætlun fyrir þingið og það geri ég nú og það er nauðsynlegt, eins og hv. þm. sagði, vegna framkvæmda þessa árs. Ef hv. þm. skoðar vel þá vegáætlun sem hér liggur fyrir kemur hann fljótt og undir eins auga á það að sú ríkisstjórn sem við tekur hefur alla möguleika á því að endurskoða og endurmeta það sem í vegáætlun stendur til næstu ára. Það er því fullkomlega rangt hjá þessum hv. þm. að ég hafi verið með einhvern ýting á borð við það sem síðasta ríkisstjórn var um það að vilja ráðskast með vegaféð langt fram í tímann og fram yfir aldamót og get raunar minnt hv. þm. á einn lítinn hlut. Samkvæmt vilja síðustu ríkisstjórnar, samkvæmt vilja hans í síðustu ríkisstjórn, átti það að dragast til aldamóta að byggja brú yfir Jökulsá á Dal. Sú brú er nú þegar komin. Þegar hv. þm. er að metast um það og gefa skyn að hans kjördæmi hafi borið minna úr býtum en ella mundi ef hans stefnu hefði verið fylgt þá væri honum rétt og skylt að íhuga það hvaða áhrif það hefur þegar ákvörðun var um það tekin að vegurinn yfir Möðrudalsöræfi skyldi tekinn einmitt á stórverkefnin sem þýðir það að við sjáum núna fram á að við getum lokið við hringveginn. Og hverjir bera meira úr býtum og hverjir græða meira á því heldur en Austfirðingar? Ég spyr.