Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:24:52 (3586)


[16:26]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra leysti í rauninni þingið úr því hafti sem hann er að reyna að hneppa það í með því að afgreiða þessa vegáætlun sem hann leggur hér fyrir. Hann er algjörlega sammála því að það sé óeðlilegt að vera að binda hendur framtíðarinnar til fjögurra ára af ríkisstjórn sem er að fara frá eins og hér er verið að leggja til. Ég skal ekkert hafa á móti því að hæstv. ráðherra hefur lagt fyrir sínar hugmyndir. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert enda gera lög ráð fyrir því en það skyldar ekkert þingið til þess að afgreiða þetta mál núna á komandi fjórum vikum. Auðvitað eiga menn ekki að vera að eyða tíma sínum í það rétt fyrir kosningar að afgreiða þessar tillögur ráðherrans heldur aðeins líta yfir gildandi vegáætlun varðandi þetta eina ár til endurskoðunar þannig að hægt verði að halda áfram verkum og undirbúa síðan og taka til afgreiðslu þegar á vorþingi, a.m.k. til 1. umr., fjögurra ára áætlun og langtímaáætlun í vegamálum eins og full þörf er á og líta þar á hlutina í samhengi. Fjögurra ára vegáætlun er þriðjungur af ráðgerðri langtímaáætlun og á ekki að skoða þá hluti í samhengi? Þar á meðal stórverkefni, þar á meðal hvernig á að tengja landshluta, þar á meðal hvernig á að fara í gegnum fjöll með jarðgöngum.