Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:29:49 (3589)

[16:29]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Ég þarf að koma að sérstaklega einu atriði er varðar þau orð sem fóru á milli mín og hv. þm. Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur áðan í andsvari mínu við hennar ræðu þar sem hún í síðara andsvari, sem ég hafði ekki tækifæri til að svara þá, vék að því að það væri búið að bjóða út framkvæmdir við Höfðabakkabrúna og taldi það vera til sönnunar á því sem hún hafði haldið fram að búið væri að ákveða þessar framkvæmdir og því væri um málamyndaumræðu að ræða. En það rétta í því máli er að útboðið fór fram og var skilyrt því að samþykki fengist fyrir vegáætlun á Alþingi í samræmi við það útboð sem framkvæmdin tekur til. Það er því alls ekki rétt hjá henni að málið sé frágengið og búið að ákveða það. Þess vegna standa þau orð sem ég sagði áðan að þeir sem eru að halda því fram að hér sé um einhverja málamyndatillögu að ræða eða einhverja málamyndaumræðu að ræða eru að draga úr mikilvægi þingsins og virðingu þingsins í þessum efnum.