Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:36:08 (3594)


[16:36]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Reykn. skýrði það að þrátt fyrir að búið væri að bjóða út þetta tiltekna verk sem ég nefndi áðan þá væri útboðið skilyrt því að Alþingi samþykkti þá vegáætlun sem hér er lögð fram. Það er mjög ánægjulegt, ég þakka hv. þm. fyrir þær upplýsingar að útboðið hafi verið skilyrt. Þá hlýtur það að fara eftir því hvernig afgreiðsla á þessari vegáætlun verður síðan framkvæmd.
    En til þess að eyða ákveðnum misskilningi hjá hv. þm. þá vil ég að það komi skýrt fram að við þingmenn sem teljumst vera þingmenn landsbyggðarkjördæma höfum ekki, eftir því sem ég hef hlustað á í dag, mælt gegn því að þessar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu séu nauðsynlegar. Ég nefndi það hins vegar áðan að þegar slíkt kæmi upp, brýn nauðsyn á einhverjum sérstökum framkvæmdum, þá hefði hingað til verið liður í vegáætlun sem héti Sérstök verkefni og það væri alveg eins hægt að halda því til haga að slík verkefni féllu undir þann lið sem hingað til hefur verið til í vegáætlun. Hann er hins vegar ekki að finna í þessari vegáætlun núna og þess vegna er farið út í það, sýnist mér, að ákveða þessa skiptingu. En eins og ég gat um áðan þá er það skýrt tekið fram á bls. 25 að skipting þessa fjár á milli kjördæma verði samkvæmt íbúatölu. Það er það sem við höfum verið að deila um hér, að þessi ákvörðun skuli hafa verið tekin í ríkisstjórn og það sett inn í vegáætlun áður en nokkur umræða fer fram um það. Það á ekkert skylt við það að þær framkvæmdir sem hér er nauðsynlegt að framkvæma á höfuðborgarsvæðinu séu ekki nauðsynlegar. Það viðurkenna allir enda keyra landsbyggðarþingmenn hér ekkert síður heldur en Reykjavíkurþingmenn, rétt eins og að þingmenn frá öðrum kjördæmum hljóta í framtíðinni að keyra Vestfjarðagöng.