Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:55:59 (3601)


[16:55]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég svaraði því ekki hér áðan sem hæstv. ráðherra sagði um þær tölur sem ég fór með. Það voru tölur sem ég fékk hjá Vegagerðinni um það hvernig þróun fjárveitinga hefði verið til almennrar vegagerðar og voru settar fram til upplýsingar því mér sýnist að það skipti æðimiklu máli hvaða fjármunir eru til almennrar vegagerðar. Þessar tölur segja töluvert mikla sögu um það hvernig þessi mál eru að þróast hérna hjá okkur á sama tíma og ég las hér upp tölur yfir hafa fjármunir vegna stórverkefna verið í mjög svipuðu magni í peningum talið. Það hafa verið u.þ.b. 700 millj. eða nálægt því að meðaltali til stórverkefnasjóðs á þessu tímabili og þannig að það er full ástæða til að taka mark á þessum tölum. Það stóra framkvæmdaátak sem nú er verið að tala um hér á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki mikil áhrif á þetta vegna þess að það kemur hér inn á árinu 1995. En það er auðvitað athyglivert að á árinu 1995 skuli sjást langlægsta talan sem fyrirfinnst til almennrar vegagerðar allt frá árinu --- ja ég hef nú ekki nema aftur að árinu 1982 og það er engin tala til svona lág. Þannig að það er eitthvað sem menn þurfa kannski að velta fyrir sér. Við vitum auðvitað, vegna þess að hv. þm. þekkja það úti um sín kjördæmi, að það hefur verið óskaplega erfitt að skipta fjármagni til vegaframkvæmda í kjördæmunum vegna þess að fjármunir til reksturs kerfisins eru allt of litlir. Menn eru mjög áfram um það að fara í stórar framkvæmdir og nýframkvæmdir en viðhald og viðgerðir á vegum og öðrum samgöngumannvirkjum er trassað. Og það kemur fram í þessari þál. að nú eru menn að gera ráð fyrir að halda áfram að trassa þessa þætti í vegamálum.