Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 17:09:27 (3604)


[17:09]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það lýsir auðvitað mikilli fáfræði hjá hæstv. núv. samgrh. að vita ekki að það var staðið nákvæmlega eins að endurnýjun ferja í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og gert hafði verið um langt árabil og í þau skipti önnur þegar ferjur höfðu verið endurnýjaðar. Dæmi: Ferjan Baldur. Og það vill nú svo til að það kom akkúrat í minn hlut að ganga frá lánum og breyta smíðalánum í löng lán vegna ferjunnar Baldurs. Og það var staðið að því með nákvæmlega sama hætti og gert hafði verið og yfirleitt er gert þegar ríkið er að ráðast í fjárfestingar af þessu tagi, þ.e. það eru tekin bráðabirgðalán eða framkvæmdalán á byggingartíma og þegar byggingu er lokið og ferjan hefur rekstur var þeim lánum breytt í löng fjárfestingarlán. Síðan voru þau endurgreidd með svokölluðum stofnframlögum af fjárlögum og þannig hafði þetta verið um langt, langt árabil þegar ferjur voru endurnýjaðar eða keyptar. Dæmi: Gamli Herjólfur, Akraborgirnar tvær, sú elsta og sú sem nú siglir, Betancuria sem keypt var frá Kanaríeyjum ef ég man rétt, fjórða dæmið Baldur sem búið var að taka ákvörðun um að byggja í tíð þarsíðustu ríkisstjórnar og þáv. hæstv. samgrh. Matthías Bjarnason bar þá pólitíska ábyrgð á. Það er því furðulegt að hæstv. ráðherra skuli reyna að koma höggi á menn með þessum hætti. Það var staðið nákvæmlega eins að því að taka ákvarðanir. Það var aflað heimilda á Alþingi í lánsfjárlögum, það voru tekin lán á byggingartíma sem síðan lá alltaf fyrir að yrði breytt í löng lán og endurgreidd af ríkisfé þangað til hæstv. núv. samgrh. skellti þessum byrðum yfir á Vegagerðina án þess að bæta henni það upp á nokkurn hátt í tekjum en með því rýrir hann auðvitað framkvæmdafé til vegamála um ókomin ár sem því nemur.