Niðurgreiðsla og afsláttur til húshitunar

79. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:35:01 (3635)


[15:35]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að koma með þessar fyrirspurnir og vekja athygli á því að í tillögum orkuverðsnefndar er lagt til að þessum jöfnuði yrði náð á næstu tveim árum frá árinu 1991 og í dag er raunar árið 1995. Hitunarkostnaður er mjög svipaður og hann var í upphafi árs og fram undir mitt ár 1991. Miðað við byggingarvísitölu er hann nánast sá sami í dag.
    Ég vek einnig athygli á því að orkuverðsjöfnunarnefndin lagði til að miðað væri við 35 þús. kwst. meðaltal á heimili en samkvæmt því sem hæstv. ráðherra upplýsti áðan er meðaltalið raunverulega 33 þús. sem kemur út úr þessum útreikningi en í dag eru niðurgreiðslur miðaðar við 30 þús. kwst. Það er því ekki einu sinni farið eftir því sem er meðaltal og ekki heldur farið eftir því sem nefndin lagði til á sínum tíma.
    Síðan vil ég einnig beina því til hv. þm., sem kemur með þessa fyrirspurn, hvort hann hafi ekki skoðað þá sérstöku bókun sem fulltrúar Sjálfstfl. gerðu í sambandi við nefndarstarfið því að þar segir að þáv. ríkisstjórn hafi haft langan tíma til að gera ráðstafanir til lækkunar orkuverðs og þeir vísa því á hana að hún hafi ekki gert það sem þurfti að gera og sé að vísa hlutunum til næstu ríkisstjórnar. Nú hafa þeir haft tækifæri til þess að gera eitthvað og ég spyr: Hvað hafa þeir gert?