Niðurgreiðsla og afsláttur til húshitunar

79. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:39:30 (3637)


[15:39]
     Sturla Böðvarsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli sem er afar mikilvægt. Í svari hæstv. iðnrh. og viðskrh. kom fram að niðurgreiðslur úr ríkissjóði hafa aukist verulega og það er nauðsynlegt að halda því til haga auk þess sem Landsvirkjun hefur hækkað hlutdeild sína í niðurgreiðslunum. Samt sem áður er alveg nauðsynlegt að það komi fram við umræðuna að betur þarf að gera og í ljósi þess var sett og samþykkt sérstök heimild í 6. gr. fjárlaga sem gefur hæstv. ráðherra kost á því að ganga til samninga. Ég vil taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að það skiptir afar miklu máli að hæstv. ráðherra gangi til þeirra viðræðna með þann vilja þingsins að úr þessu verði bætt. Það er óásættanlegur kostnaður sem mjög margir búa við hvað varðar húshitun og það þarf að gera betur þó að verulega hafi miðað í rétta átt.