Þingsköp Alþingis

80. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:49:17 (3642)

[15:49]
     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 312 um breyting á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum. Breytingin ef af yrði felst í því að aftan við 2. mgr. 36. laganna komi ný málsgrein sem hljóðar þannig:
    ,,Lagafrumvörp, sem varða breytingar á skattalöggjöf, skal leggja fram eigi síðar en sex mánuðum áður en þau eiga að taka gildi.``
    Þetta þýðir í raun að þær skattabreytingar sem eiga að taka gildi um áramót verða almennt að vera unnar á vorþinginu á árinu á undan. Þessi tillaga er öðrum þræði lögð hér fram til þess að vekja á því athygli að það er mikill brestur í störfum Alþingis hvað snertir ríkisfjármálin sá háttur sem er hér hafður á varðandi framlagningu skattafrumvarpa, þ.e. þeirra frumvarpa ríkisstjórnar á hverjum tíma sem þurfa að fylgja fjárlagafrv. til þess að hægt sé að ganga frá ríkisfjármálum.
    Samkvæmt þingsköpum ber að leggja frv. til fjárlaga fram á fyrsta starfsdegi Alþingis að hausti. Það eru engin slík ákvæði varðandi fylgifrumvörpin, skattafrumvörpin, sem eru þó alger forsenda þess að hægt sé að afgreiða fjárlög. Það er skemmst frá því að segja að það fór þannig í vetur að það varð svo mikill dráttur á því að þessi frumvörp kæmu fram að það var ekki mögulegt að klára þingstörf fyrir jól. Það vitum við sem hér vorum að Alþingi var í desember, fyrri hluta og fram um miðjan desember, meira og minna verklaust vegna þess að skattafrumvörpin komu ekki fram. Og vonandi verður þetta víti til varnaðar og menn stefni að öðrum vinnubrögðum hvað þetta snertir í framtíðinni. Þess vegna legg ég fram þetta frv. að það er mín skoðun að það sé nauðsynlegt að ákvæði um þetta séu í lögum um þingsköp. Það kann að vera að hægt sé að koma því á annan hátt fyrir en hér er lagt til en þetta er samt sú niðurstaða sem ég komst að með hjálp og í samráði við góða menn sem hafa af þessu verulega reynslu.
    Ég ætla aðeins, virðulegi forseti, í þessu samhengi að ræða stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu sem að mínu mati er of veik. Það er kannski sá brestur í okkar stjórnarskipun sem er hvað stærstur í dag. Það hefur verið lögð í það mikil vinna á síðustu árum að skilja betur á milli framkvæmdarvalds og dómsvalds og var það að mínu mati tímabært. Eftir stendur að skilin á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins eru afskaplega óljós og svo verður vissulega meðan við höfum hér þingræðisstjórn. Ég er í sjálfu sér og alls ekki að mæla með því að frá því verði horfið en það verður hins vegar að mínu mati með öllum ráðum að styrkja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held að það verði m.a. að gera á þann hátt að gera embætti forseta Alþingis hærra undir höfði en er í dag og segi ég þetta með fullri virðingu fyrir þeim sem hafa skipað það embætti nú og áður og forsætisnefnd eftir að hún tók til starfa. En það er skoðun mín að það verði að koma þeim hugsunarhætti inn að staða forseta Alþingis hafi sama ,,status`` og staða forsrh. og forseti Alþingis geti tekið hér á beinið miskunnarlaust bæði þingmenn og ráðherra og agað menn til betri vinnubragða. Að mínu mati í stöðu eins og var uppi nú fyrir jólin þá á forseti Alþingis að setja ráðherrum og ríkisstjórn stólinn fyrir dyrnar, ef frumvörp eru ekki komin fram fyrir einhvern ákveðinn tíma þá fái þau enga afgreiðslu á því þingi sem stendur yfir, þ.e. á haustþinginu.
    Það er nú ekki svo að ekkert hafi áunnist í þessum efnum og ég vil ekki vanmeta það sem hefur verið unnið á þessu kjörtímabili í þessum efnum. Ég held að þær breytingar sem voru gerðar á þingsköpum fyrir rúmu ári síðan og fólust m.a. í því að stytta ræðutíma við 1. umr. og ekki síst að deila formennsku í nefndum milli stjórnar og stjórnarandstöðu hafi hafi sannað sig og sýnt sig vera til mikilla bóta og gert það að verkum að Alþingi lítur meira á sig sem sjálfstæða stofnun sem beri að standa að fullu í ístaðinu gagnvart framkvæmdarvaldinu.
    Hins vegar vil ég taka fram til að forðast allan misskilning að vissulega verður forseti og forsætisnefnd að taka fullt tillit til ríkisstjórnar á hverjum tíma varðandi framgang nauðsynlegra mála, enda er það ekki það sem hér er verið að gagnrýna heldur fyrst og fremst hitt að þau mál eru ekki lögð fram.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta langa ræðu. Ég hef margsinnis úr ræðustól í hinu háa Alþingi bent á að hér sé úrbóta þörf og það sé þinginu mikil nauðsyn að skerpa sjálfstæði sitt gagnvart framkvæmdarvaldinu og tel ég þetta frv. sem hér er lagt fram lið í því þar sem því verði settar skorður hvað hægt er að draga lengi að koma fram með frumvörp til breytinga á skattalögum í tengslum við fjárlög á hverjum tíma.
    Virðulegur forseti. Mér láðist að hugsa það mál til enda hvert ætti að vísa þessari tillögu. Það er kannski tvennt til. Annars vegar að forsætisnefnd taki hana til skoðunar. Hitt væri að vísa henni til allshn. en ég held að ég verði að biðja forsetaembættið að kanna hvað þar kæmi helst til greina.