Jöfnun verðlags

80. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 16:33:45 (3646)

[16:33]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Einhver kynni að halda að hér væri um sýndarmennskufrumvarp að ræða en ég er ekki í þeim hópi og það vil ég taka alveg skýrt fram. Ég tel að tilgangur frumvarpsflytjenda sé góður og réttmætur. Ég þekki þetta mál dálítið af eigin raun því að ég rek tvö heimili, annað heima hjá mér fyrir norðan, hitt hér í Reykjavík og mér er þessi mismunun ákaflega augljós og tek eftir henni nánast á hverjum degi.
    Varðandi 2. gr., þ.e. um símann, að landið sé eitt gjaldsvæði og öll símtöl innan lands séu verðlögð á sama hátt, þá er þetta sjálfsagt mál og aldeilis ótrúleg íhaldssemi hjá símanum að hafa þrjóskast við að stíga jöfnunarskrefið til fulls. Að vísu hefur nokkuð áunnist á undanförnum áratugum en þetta er ekki komið í lag og það er hreint ótrúlegt að þessu máli skuli ekki vera kippt í lag og ég treysti því að það líði ekki mjög langur tími þangað til jöfnuði verði náð á þessu sviði.
    Varðandi 3. gr., þ.e. um jöfnun á raforkukostnaðinum, þá er það eins og hv. flm. sagði miklu

flóknara mál og það er rétt að taka það fram að Landsvirkjun býður raforku á sömu spennu á sama verði á öllum sölustöðum sínum um land allt, þ.e. Landsvirkjun jafnar verðið á raforku á þeim stöðum þar sem hún afhendir raforku til dreifiveitnanna. Mér skilst að í þessari grein felist það að Landsvirkjun eigi að koma orkunni í spennistöð hjá viðkomandi dreifiveitum. Þetta er nokkuð flóknara mál því að þá þarf að flytja í mörgum tilfellum eða a.m.k. sumum tilfellum orkuna eftir línum sem ekki eru í eigu Landsvirkjunar og Landsvirkjun hefur reyndar engin umráð yfir. Þetta er í rauninni að koma orkunni til hverrar dreifiveitu fyrir sig og það kostar töluvert mikla breytingu á skipulagi rafmagnsmála í landinu. Það er reyndar svo með alla raforkujöfnun, hvort heldur þá sem rætt er um hér í þessari frumvarpsgrein eða raforku til annarra nota að Landsvirkjun hefur þetta mál ekki á valdi sínu. Þarna þarf að koma til samstarf Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins eða annarra dreifiveitna. Það er reyndar búið að fara illa með Rafmagnsveitur ríkisins og minnka möguleika þeirra til þess að jafna eða standa fyrir stórfelldri jöfnun og Alþingi hefur gert ráðstafanir sem skerða mjög tekjumöguleika rafmagnsveitnanna. Ég nefni það þegar Hitaveita Suðurnesja yfirtók rafmagnssölu á Suðurnesjum sem vafalaust eðli málsins samkvæmt voru á hagkvæmasta orkusölusvæði rafmagnsveitnanna.
    Varðandi 4. gr. frv., þ.e. að Samkeppnisstofnun ætti að stuðla að því að heildsölufyrirtæki bjóði smásöluverslunum vörur á sama verði um land allt og undirboð á einum stað sé ekki fjármögnuð með hærra verði annars staðar, þá er hér líka um flókið mál að ræða. Það er mikið ólag orðið á verslun á Íslandi og það er reyndar að skapast alveg stórhættulegt ástand þar sem Hagkaup/Bónus fyrirtækið er búið að ná svo miklum hluta verslunarinnar í landinu undir sig að það er orðið algerlega markaðsráðandi. Út af þessu hafa spunnist ýmis ævintýri og er of langt mál að rekja það hér í þessari umræðu. Ég nefni þó eitt eða tvö dæmi.
    Það var frægt í haust þegar þetta fyrirtæki var farið að selja kartöflur á ég man ekki hvort það var 8 eða 5 kr., kartöflur sem voru kannski keyptar af bóndanum eða framleiðandanum á 30 kr. en svo er nú skattalögum háttað hjá okkur að ríkið greiddi fyrirtækinu með þessari kartöflusölu, þ.e. það fékk endurgreiddan virðisaukaskatt fyrir þeim halla sem varð af þessum viðskiptum. Auðvitað haga heildsalar sér og jafnvel innlendir framleiðendur líka mjög óskynsamlega og láta undan þessum risa með undirboðum og ná síðan upp verðinu eða slétta út skaðann af versluninni við Hagkaup/Bónus veldið með því að smyrja á minni kaupendur. Og það eru ekki einasta kaupendur úti á landi heldur líka hinar smærri verslanir hér í Reykjavík sem verða að sæta þessum ókjörum að það er ódýrara í sumum tilfellum a.m.k. að kaupa gosdrykki í Hagkaup eða Bónus en að kaupa beint frá framleiðanda. Svona viðskiptahættir eru óheilbrigðir og það er eðlilegt að ráðist sé gegn þeim. Það er hins vegar ekki einfalt mál og gildir þarna það sama og með verslanir sem setja t.d. á útsölu og geta fengið virðisaukaskattinn endurgreiddan eða greitt með frá ríkinu í gegnum virðisaukaskattinn.
    Það er reyndar fleira sem kemur upp í hugann af þessu tilefni. Það viðgengst hér að bankarnir, jafnvel ríkisbankar, borga stórum innleggjendum hærri vexti heldur en litlum innleggjendum og þeir flokka líka lántakendur þannig að Jón og séra Jón sitja ekki við sama borð.
    Ég tel sem sagt, herra forseti, að hér sé um ágætt mál að ræða. Ég þakka hv. 1. flm. fyrir það frumkvæði sem hann hefur haft af því að hreyfa þessu máli hér og ég vona að það nái afgreiðslu fyrir þinglok. Ef ekki þá tel ég einsýnt að halda áfram að berjast í þeim anda sem fram kemur í þessu frv.