Vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 13:49:40 (3655)


[13:49]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir, frv. til laga um að fella úr gildi lög nr. 102/1961, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd Parísarsamþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, tengist þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fullgilda Parísarsamþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar með þeim breytingum sem gerðar voru á henni í Stokkhólmi þann 14. júlí 1967.
    Ísland hefur allt frá árinu 1961 verið aðili að svonefndum Lundúnatexta samþykktarinnar frá 1934 og hefur sá texti lagagildi hér á landi. Þann 28. sept. 1984 gerðist Ísland aðili að Stokkhólmstexta samþykktarinnar með þeim fyrirvara þó að fyrstu 12 greinar textans væru undanskildar. Í tengslum við aðild Íslands að samningi um hið Evrópska efnahagssvæði skuldbatt Ísland sig til að ganga frá aðild að þessum hluta samþykktarinnar fyrir 1. jan. 1995. Ákvæði 1.--12. gr. Stokkhólmsgerðar samþykktarinnar, oft nefnd efnisákvæði, kveða einkum á um grundvallarreglur varðandi vernd hugverkaréttinda, þ.e. einkaleyfi, vörumerki, hönnun og fleira. Stokkhólmsgerð þessa hluta samþykktarinnar felur ekki í sér neinar þær breytingar miðað við Lundúnatextann að breyta þurfi grundvallarlögum um hugverkarétt hér á landi. Ísland gerðist eins og áður er nefnt aðili að 13.--30. gr. Stokkhólmsgerðar samþykktarinnar árið 1984. Sá hluti fjallar aðallega um stjórnarstofnanir sem fara með málefni samþykktar á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar. Aðild að þessum hluta samþykktarinnar var forsenda þess að Ísland gæti gerst aðili að Alþjóðahugverkastofnuninni. Þessi hluti samþykktarinnar hefur ekki lagagildi hér á landi.
    Parísarsamþykktin er sáttmáli milli ríkja er kveður á um almennar leikreglur sem hverju ríki er skylt að fylgja varðandi vernd hugverkaréttinda í þágu þegnanna. Það leiðir af eðli og tilgangi samþykktarinnar að óeðlilegt er að hún gildi sem lög gagnvart þegnunum enda er markmið hennar að tryggja að eigandi hugverkaréttar í aðildarlandi geti náð öruggri réttarvernd í hinum aðildarlöndunum. Parísarsamþykktin hefur t.d. ekki lagagildi á öðrum Norðurlöndum.
    Hinn 23. des. sl. var framkvæmdastjóra Alþjóðahugverkastofnunarinnar afhent aðildarskjal Íslands vegna 1.--12. greinar Parísarsamþykktarinnar. Ákvæðin skulu því koma til framkvæmda hér á landi þann 23. mars 1995, þ.e. að liðnum þremur mánuðum frá þeim degi sem telst hinn formlegi viðtökudagur aðildarskjalsins.
    Af framangreindu leiðir að lög nr. 102 frá 28. des. 1961 eiga ekki lengur við eftir gildistöku hinna nýju efnisákvæða. Með frv. þessu er því lagt til að þau verði felld úr gildi.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn. og það takist að afgreiða það á þessu þingi.